18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (3695)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Allir verða að viðurkenna, að þörf sveitarfélaganna á auknum tekjustofnum er aðkallandi. Ég hefi flutt hér á þingi frv. til lausnar þessu vandamáli. Eins og í grg. þess var tekið fram, var það aðeins tilraun og bar að skoðast sem fyrsta skrefið til að reyna að koma málinu á sæmilegan grundvöll. En hér er um svo mikið mál að ræða, að það verður að taka föstum tökum. Ég hygg, að bezt verði að reyna að útvega sveitar- og bæjarfélögunum sjálfstæða tekjustofna, að greina milli tekjustofna þeirra og ríkissjóðs. Það dugir ekki að gera þetta að pólitísku númeri með því að tala um neyzluskatt og því um líkt. Í okkar þjóðfélagi verða menn að sætta sig við meira eða minna af þessum óbeinu sköttum. En þeir eru bezt komnir hjá ríkissjóði. Ég tel ekki rétt að dreifa þeim milli tveggja aðilja.

Þessi dagskrártill. er að mínum dómi sjálfsögð. Hæstv. stj. verður að taka málið almennt til athugunar. Hjá því verður alls ekki komizt að skapa bæjar- og sveitarfélögum sjálfstæða tekjustofna. Er þá bezt, að þau fái fasta tekjustofna, sem ríkið má ekki veikja með því að gera þá jafnframt að tekjustofnum fyrir sig. Það er heldur ekki heppilegt, að sveitarfélögin séu að seilast í tekjustofna ríkisins. Því legg ég til, málefnisins vegna, að dagskrártill. verði samþ., enda myndi það flýta fyrir eðlilegri lausn þessa vandamáls.