18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (3696)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Frsm. meiri hl. (Sigfús Jónsson):

Hv. 1. landsk. sagði, að Sauðárkrókur ætti að geta bjargazt af næsta ár með því að leggja á hæfileg útsvör. Ég held, að það sé ekkert bjargráð. Útsvörin eru nú þegar svo há, að þau innheimtast ekki, og sveitarstj. væri ekkert betur komin, þó að hún hækkaði útsvörin.

Hv. þm. V.-Húnv. lagði til, málefnisins vegna, að hin rökst. dagskrá yrði samþ. Ég legg nú til, einmitt málefnisins vegna, að hún sé felld. Ég sé ekki betur en að skylt sé að bjarga þeim, sem svo nauðulega eru staddir, að þeir geta það ekki sjálfir. Ég hefi enga tryggingu fyrir því, að verzlanirnar á Sauðárkróki vilji taka að sér að halda lífinu í fólkinu með vörulánum, upp á það að fá greiðsluna einhverntíma og einhverntíma. En ef hreppurinn gæti tryggt greiðsluna, býst ég við, að þær myndu lána mönnum eftir þörfum.

Þetta mál er engan veginn hliðstætt kröfum frá öðrum sveitarfélögum, því að hér er ekki um að ræða neitt valdboð ofan frá, heldur er það gjaldendum í sjálfsvald sett, hvort þeir vilja taka á sig þetta gjald eða ekki. Mér finnst það talsverður munur.