20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (3700)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég tók ekki eftir, að hv. 6. landsk. gerði grein fyrir því, hvers vegna Reykjavíkurbær væri undanskilinn þeim fríðindum, sem í till. hans felast. Till. hv. þm. gera ráð fyrir, að bæjarstjórnum í kaupstöðum utan Reykjavíkur, og hreppsnefndum í kauptúnum, sem eru sérstök hreppsfélög, verði heimilað að leggja vörugjald á inn- og útfluttar vörur í kaupstaðnum eða kauptúninu, og að gjald það renni í hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarsjóð. Hvers vegna Reykjavíkurbær væri undanskilinn þessum fríðindum, gat hv. þm. ekkert um. Að vísu féllu þau orð hjá honum, að tilgangurinn með brtt. væri aðallega sá, að heimild þessi væri veitt öllum þeim bæjar- og sveitarfélögum, sem þyrftu slíks tekjustofns með. Má þá kannske skilja þessi ummæli svo, að hv. þm. telji fjárhag Reykjavíkurbæjar ekki þannig farinn, að nauðsyn beri til fyrir bæjarfélagið að grípa til tekjuöflunar á þennan hátt. Að sjálfsögðu þakka ég þá viðurkenningu á fjármálastjórn Reykjavíkur, sem óbeinlínis felst í þessu. En hinsvegar geri ég ráð fyrir, að svo kunni jafnvel að fara, að bænum verði óumflýjanlegt að grípa til þessarar eða annarar tekjuöflunar, verði það úr, að fátækralöggjöfinni verði breytt á þann veg, sem nú eru líkur á, að verði gert. Annars er skylt að þakka þá traustsyfirlýsingu fyrir Reykjavíkurbæ, sem í þessu felst, og skal ég ekki neita því, að sú yfirlýsing kemur úr óvæntri átt, þegar miðað er við þann flokk, sem hv. þm. tilheyrir. En það skal játað, að þessi hv. þm. sýnir það á ýmsan hátt, að hann er víðsýnni og sanngjarnari maður heldur en ýmsir af hans flokksbræðrum. En ég geri ráð fyrir því, að Reykvíkingar yfirleitt telji sér nokkurn sóma að því og skoði sem viðurkenningu á þeirri fjármálastjórn, sem verið hefir á bænum, ef þessi löggjöf verður afgr. þannig, að með henni sé staðfest, að Reykjavíkurbær sé eina bæjarfélagið, og í raun og veru eina sveitarfélagið hér á landi, sem ekki þurfi að hlaupa undir bagga með á þann hátt, sem ráðgert er með þessum tillögum.