20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (3701)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Frsm. minni hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Við 2. umr. þessa máls lýsti ég yfir því og byggði á því mína rökst. dagskrá, að ég teldi óeðlilegt að taka út úr eitt sveitarfélag, ef ætti að veita slík hlunnindi, sem farið er fram á handa Sauðárkróki. Af því leiðir það, ef þingið á annað borð vill ganga inn á þá braut að afla sveitar- og bæjarsjóðum tekna með vörugjaldi, þá álít ég, að það eigi að ganga jafnt yfir alla og þess vegna séu till. hv. 6. landsk. spor í réttari átt heldur en frv. eins og það liggur fyrir nú gerir ráð fyrir. Ég vil þó skjóta því fram, að mér finnst einn ágalli á þessum till., sem mætti bæta úr með nýrri brtt. Samkv. þeim þarf ekki að leita samþykkis sýslunefndar fyrir álagningu þessa gjalds í einstökum kauptúnum, sem eru innan sýslufélagsins. Það mun víða haga svo til um kauptún, að vörur, sem þangað eru fluttar, ganga til héraðanna í nágrenni við kauptúnið, og kemur þessi skattur þar af leiðandi niður á héraðsbúum, eða fleirum heldur en kauptúnsbúunum á hverjum stað. Þess vegna er það sanngjarnara í frv. hv. 2. þm. Skagf. og hv. 7. landsk., að samkv. því þurfti að fá samþykki sýslunefndar til þess, að hægt væri að leggja þetta gjald á.

Ég hefði falið réttara fyrir mitt leyti, af því að þetta er umfangsmikið mál, að það væri ekki afgr. nú, þar sem það er 3. umr., heldur tekið út af dagskrá, svo að mönnum gæfist kostur á að gera við það brtt., m. a. í þá átt, sem ég nefndi og mér þykir ekki ósennilegt, að kæmu fram til samræmis við frv. það, sem hér er til umræðu.

En ég get að lokum sagt það, að ef það er, sem kom í ljós við 2. umr. þessa máls, að meiri hl. þm. sé því fylgjandi að veita einu kauptúni þessa heimild, þá kýs ég þó heldur fyrir mitt leyti, þar sem í því felst meira jafnrétti, að veita þá öllum kaupstöðum og kauptúnum þessa heimild, er þess óska, ef á að opna þá leið á annað borð.