25.11.1935
Neðri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (3715)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Frsm. meiri hl. (Sigfús Jónsson):

Ég varð hissa, þegar ég sá brtt. hv. 6. landsk. á þskj. 580. Mér þóttu þær kynlegastar vegna þess, að þær brjóta í bág við stefnu hans og hans flokks í þessu efni. Í öðru lagi vegna þess, að þær eru bein mótsögn gegn þeim rökum, sem flutt voru við 2. umr. þessa máls gegn frv. okkar hv. 7. landsk. Aðalröksemdirnar á móti frv. þá voru þær, að í fyrsta lagi væri frv. óþarft, vegna þess að fram væri komin þáltill. í Sþ., þar sem skorað væri á ríkisstj. að leggja fyrir næsta þing frv. um tekjur handa sveitar- og bæjarfélögum. Í öðru lagi var aðalmótbáran gegn frv. sú, að með frv. væri lagður skattur á neyzluvörur almennings. Ég sé ekki annað en að í brtt. hv. 6. landsk. sé gengið alveg í sömu átt, og þykir mér það þess vegna einkennileg veðrabrigði.

Hv. 6. landsk. sagði í síðustu ræðu sinni, að það væri breytt viðhorf, sem hefði valdið því, að hann nú getur gengið inn á þessa stefnu. En ég skil ekkert í því, að viðhorfið sé svo mikið breytt frá því 2. umr. fór fram. Þess vegna grunar mig, að það sé eitthvað annað, sem hefir ráðið því, að hann kemur fram með þessar brtt. Hvort það á að vera bjarnargreiði við verkalýðinn á Sauðárkróki, skal ég ekki segja. En þegar við 2. umr. kom í ljós, að frv. hafði fylgi, fóru andstæðingar þess að stinga saman nefjum, hvernig þeir ættu að fara að. Og úrræðið varð það, að bera fram þessar brtt. Mér finnst sannast hér sem oftar, að örskammt sé öfganna á milli.

Ég skal svo aðeins í fáum orðum bera saman frv. og brtt. - Samkv. frv. getur hjálpin, sem því er ætlað að veita, komizt til framkvæmda þegar á öndverðu næsta ári, en samkv. brtt. ekki fyrr en miklu seinna. Til þess að koma þeim í framkvæmd þarf bæði mikinn undirbúning og langan tíma, og gæti ég bezt trúað, að þær kæmu alls ekki að notum á næsta ári. Samkv. frv. er gert ráð fyrir að leggja aðeins gjald á þær vörur, sem vörutollur er tekinn af í ríkissjóð. En eins og menn vita, eru undanþegnar því gjaldi fyrst og fremst aðalnauðsynjavörur almennings, kornvörur o. fl., t. d. kaffi, sykur og tóbaksvörur, sem raunar getur orkað tvímælis um, hvort eigi að telja nauðsynjavörur eða ekki. En samkv. brtt. á að leggja gjald á allar vörur, án tillits til þess, hvort það eru nauðsynjavörur eða ekki. Og ekki aðeins á allar innfluttar vörur, heldur og allar útfluttar líka. - Þetta er mikill munur, sérstaklega þegar þess er gætt, að þetta gjald á aðfluttum vörum getur orðið margfalt, eftir því hvað varan gengur í gegnum marga staði hér á landi, því að það er oft, eftir því sem samgöngurnar eru, að vörum, sem eiga að fara til Sauðárkróks, er skipað upp á Siglufirði, Akureyri, Ísafirði og víðar. Ef á að taka gjald af þeim á öllum þeim stöðum, þá getur það er orðið nokkuð mikið. Svo er þess líka að gæta, að í frv. er það sett sem skilyrði fyrir því, að hægt sé að leggja á þetta gjald, að það sé með samþykki hlutaðeigandi gjaldenda. Í brtt. hv. 6. landsk. er engu slíku til að dreifa. Samkv. þeim geta bæjar- og sveitarstjórnir lagt gjaldið á og létt því af án vilja gjaldendanna. Mér finnst því mikill munur á þessu tvennu. Ég verð að segja það, að ég get varla skilið, hvernig á því stendur, að þessir hv. andstæðingar frv. skuli nú vilja ganga miklu lengra einmitt í sömu átt og frv. gerir ráð fyrir, og þá átt, sem þeir fyrir nokkrum dögum töldu ófært að halda í.

Vilji maður gera sér þetta skiljanlegt, er það annaðhvort af hringlandahætti eða þá að brtt. eru bornar fram sem banaráð við það bjargráð, sem í frv. felst til handa bágstöddum verkalýðnum á Sauðárkróki. Ég get því ekki léð þessum brtt. atkv. mitt og vænti þess, að þeir, sem fylgdu frv. við 2. umr., muni einnig fylgja það nú og greiða atkv. gegn þessum brtt.

Hvað viðvíkur hinum brtt., sem hafa komið fram við brtt. á þskj. 580, hefi ég lítið að segja. Ég álít, að þær standi eða falli með aðalbrtt. En viðvíkjandi brtt. hæstv. fjmrh., þá býst ég við, þó að þær séu nokkuð öðruvísi, að ég geti alls ekki fylgt þeim, því að þeim fylgja að sumu leyti sömu gallar og hinum brtt., því að gjaldið verður miklu þyngra og víðtækara heldur en samkv. frv. Svo er líka þess að gæta, að þetta frv. er aðeins fram komið vegna þeirrar brýnu nauðsynjar, sem er á því að hjálpa þessu fólki einmitt nú í vetur. Ég veit, að víða er þörf einhverrar hjálpar, en ég efast um, að þörfin sé nokkursstaðar ríkari heldur en einmitt þarna.