25.11.1935
Neðri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (3716)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Páll Zóphóníasson:

Mönnum er það kunnugt af afstöðu minni til svipaðra mála, svo sem frv. um álagning vörugjalds á Akureyri, að ég er yfirleitt á móti þeirri stefnu, sem felst í þessum frv. Ég er á móti þeirri stefnu, að með lögum sé einstökum verzlunarstöðum eða hreppum, sem verzlunarstaðir eru í, leyft að flytja nokkurn hluta af sínum útsvörum yfir á aðra hreppa, nærliggjandi hreppa, sem verða að hafa sín viðskipti þar. Vörugjaldið í ríkissjóð nemur nú samkv. nýútkomnum landsreikningi um 1700 þús. kr. Þar af er í kringum 1 millj. í Reykjavík. Það er þess vegna 700 þús. kr., eða helmingurinn af þeirri upphæð, sem ætlazt er til, að leyfilegt sé að taka í sveitarsjóðina sem neyzlugjald á allar vörur, sem verzlað er með. Nokkur hluti af þessum vörum er keyptur af íbúunum sjálfum, en mikill hluti þeirra er keyptur af mönnum, sem búa í öðrum hreppum. Með því er í raun og veru búið að gefa þeim hreppi, sem viðkomandi verzlunarstaður er í, aðstöðu til þess að færa nokkurn hluta af útsvörum sínum yfir á aðra hreppa. Vörugjaldið á Sauðárkróki mun nema um 1/4 af upphæð útsvaranna, sem færist þá yfir á þá hreppa, sem skipta við Sauðárkrók, en að nokkru leyti lendir það á íbúum þorpsins sjálfum. Ég er á móti þessu grundvallaratriði.

Nú hefi ég skilið það á flm. þessa máls, sem hér liggur fyrir, að þeir vilji láta líta svo út, sem þeir með því ákvæði í 1. gr. frv., að sýslunefndin í Skagafjarðarsýslu skuli segja til um, hvort þetta gjald skuli lagt á eða ekki, séu að bera það undir þá, sem gjaldið er fært á, hvort svo eigi að gera eða ekki. En þegar maður athugar það, að af þeim 14 hreppum, sem eru í Skagafjarðarsýslu, eru 4 eða 5, sem enga verzlun reka á Sauðárkróki og því taka ekki þátt í gjaldgreiðslum, þá þarf ekki að ná í marga sýslunefndarmenn úr þeim hreppum, sem verzla við Sauðárkrók, til þess að meiri hl. geti náðst. Þess vegna kem ég með brtt. á þskj. 600, við 1. gr. frv., um að atkvæðisbærir um þetta séu að eins sýslunefndarmenn úr þeim hreppum, sem verzla við Sauðárkrók.

Ég geri ráð fyrir því, eftir því sem fram hefir komið í ræðum hv. flm., að þeir geti verið þessu samþykkir, af því að mér skilst á þeim, að þeir telji það almennan vilja bænda í Skagafirði, sem við Sauðárkrók verzla, að hjálpa hreppsbúum Sauðárkróks á þennan hátt.

Ég bið menn að athuga, að ef gengið er inn á þessa braut, er það miklum mun réttlátara að láta þetta gjald renna í sýslusjóð, því að þá léttir það á öllum, sem skipta við kauptúnið, og þá eru gjöldin ekki færð af einum og yfir á annan.

Ef samþ. væri till. hv. 6. landsk., kæmi það berlega í ljós, hvernig kauptúnin í Suður-Múlasýslu mundu færa útsvörin af sér og yfir á sveitarfélögin. Hv. þm. (6. landsk.) er kunnugt um, að á Austfjörðum er heill hópur af verzlunarstöðum, sem eru sveitarfélög út af fyrir sig - og nokkur að nokkru leyti út af fyrir sig - sem skipta við sveitirnar í kring, svo að það yrði ekki neitt lítið, sem þau gætu fært af sínum útsvörum yfir á sveitirnar. Eigi allir að borga þetta gjald, eiga allir að njóta þess. Það er því réttara að samþ. brtt. hæstv. fjmrh. heldur en frv. eins og það liggur nú fyrir. Annars finnst mér langréttast, að þetta allt sé fellt og bíða eftir og sjá, hvað hæstv. ríkisstj. gerir fyrir næsta þing, því að væntanlega verður þáltill. samþ. um að rannsaka málið og leggja það fyrir næsta þing. Nú skal ég benda á það áður en ég lýk máli mínu, að ef samþ. verða þær brtt., sem fyrir liggja, gæti það leitt til þess, að tekið yrði gjald af sömu vörunni á fleirum en einum stað, og sú upphæð, sem ég nefndi áðan, því helzt til lág. Það verður því ekki um neitt smáræði að ræða fyrir þá, sem skipta við þessa verzlunarstaði. Ég er því hissa á, að flm. þessa frv. skuli ekki hverfa alveg frá því, þegar þeir sjá þessar brtt., sem fram eru komnar, hvernig þær leiða af sér auknar byrðar frá einum manninum yfir á annan. Og ég vil vona, að þeir taki frumv. sitt aftur, og beini þeim tilmælum til hv. flm. að gera það.