25.11.1935
Neðri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (3717)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Finnur Jónsson:

Ég á hér brtt. við brtt. á þskj. 580. þess efnis, að til þess að leggja á þetta vörugjald þurfi viðkomandi hreppsnefnd að fá heimild hlutaðeigandi sýslunefndar og kaupstaður samþykki atvmrh. Ég tel það réttara, ef þessar till. yrðu samþ., að til þess að leggja þennan skatt á þurfi slíkt samþykki. Það er réttara, að eitthvað liggi fyrir um það áður en sveitarfélögin grípa til þeirra úrræða, að þau noti til fullnustu þá gjaldstofna, sem heimilaðir eru við niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum.

Þá er í minni brtt., að bæjar- eða sveitarstjórn skuli annast innheimtu á þessu gjaldi og hafa haldsrétt á vörunni, en bæjar- eða sveitarstjórn geti falið bæjarfógeta, sýslumanni eða hreppstjóra innheimtuna, ef hentugra þykir. Í flestum kauptúnum eru hafnarnefndir, og er þá venjulegt, að innheimta svipaðra gjalda sé hjá hafnarstjóra, f. h. bæjar- eða sveitarfélags, en ekki í höndum bæjarfógeta eða sýslumanns, þar sem slíkt er til kostnaðarauka fyrir bæjar- eða sveitarstjórnina.

Ég er á þeirri sömu skoðun og ég hefi látið í ljós áður hér í hv. d., að ég tel, að þessi vörugjaldsálagning sé neyðarúrræði og eigi ekki að eiga sér stað. En ef á að fara inn á það að veita einstökum hreppsfélögum þessa heimild, þá er þingið búið að viðurkenna, að þetta sé fær leið, og er þá rétt að veita öllum bæjar- og sveitarfélögum á landinu þessa sömu tekjustofnsmöguleika, en mismuna ekki bæjar- eða sveitarfélögunum með því að veita þau sumum, en undanskilja önnur. Það er aðeins með þetta fyrir augum, að ég greiði till. hv. 6. landsk. atkv.