25.11.1935
Neðri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (3719)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég get tekið það strax fram, að ég er í öllum höfuðatriðum samþ. því, sem hv. þm. Borgf. sagði um þetta mál. En þar sem ekki virðist, að það ætli að takast að leysa þetta mál á þeim grundvelli, sem við mundum helzt geta sætt okkur við, a. m. k. ekki að þessu sinni, en fyrir liggja brtt. við þetta frv., sem hér hefir verið borið fram og eiga að ná út yfir fleiri kauptún og kaupstaði heldur en gert er ráð fyrir í frv., þar sem aðeins er um eitt kauptún að ræða, þá vildi ég gjarnan verða til þess, að þessar brtt. yrðu færðar í það horf, að hér kæmi nokkur stuðningur til allra bæjar- og sveitarfélaga utan Reykjavíkur. Þá hefi ég mikla tilhneigingu til þess að fallast á þær brtt., sem hæstv. fjmrh. lagði fram áðan. Þó finnst mér á þeim nokkur galli. Í þeim er hallazt að þeirri stefnu, sem tekin var upp af hv. 6. landsk., að leggja gjaldið jafnt á útfluttar vörur sem innfluttar. Nú tel ég ekki réttmætt, þegar atvinnuvegir landsins eiga við svo mikla erfiðleika að stríða, að fara að íþyngja þeim með sérstökum framleiðsluskatti. Stefna síðustu ára í þessum málum hefir frekar verið sú, að létta gjöldum af atvinnuvegunum en bæta við þau. Vildi ég því leggja til, að orðin „og útfluttar“ í brtt. hæstv. fjmrh. verði felld niður.

Þá er annar ókostur á brtt. hæstv. fjmrh., sem ég hygg, að honum hafi sézt yfir, og það er, að ef sameiginlegur verzlunarstaður er fyrir kaupstað og sýslufélag, þá kemur það ranglátlega niður, ef kaupstaðurinn á aðeins að njóta þessara tekna, en sýslufélagið verði alveg útundan. Ég vildi því bæta aftan við fyrstu brtt. þessari málsgr.:

„Þegar gjald þetta er lagt á þar, sem sameiginlegur verzlunarstaður er fyrir kaupstað og sýslufélag, eða fleiri sýslufélög, skal gjaldinu skipt milli þessara aðilja eftir mati nefndar. Skal hún skipuð einum manni af hverjum þessara aðilja, en atvmrh. skipar oddamann, ef þörf krefur.“

Ég skal taka dæmi af Eyjafirði og Akureyri. Ef slíkt gjald væri lagt á eftir till. hæstv. fjmrh., þá væri það Akureyri ein, sem fengi þessar tekjur, en sveitarfélögin í Eyjafirði yrðu alveg útilokuð frá þessum tekjum. Þetta er líka til að tryggja það, að allir aðiljar geti notið góðs af þessum skatti, ef nota á þennan skatt sem almenna tekjuöflunarleið sveitar- og bæjarfélaga, sem ég álít þó annars varhugaverða stefnu. Réttara er að skipta á milli og láta hvorn aðilja hafa sína ákveðnu tekjustofna, þannig, að ríkissjóður sé ekki að seilast í tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga, og gagnkvæmt.

Ég legg svo fram þessa skrifl. brtt. við brtt. á þskj. 627. En þó að ég geti að miklu leyti fallizt á frv. með þessari breyt., álít ég sumt, að réttara sé, að málið bíði, því að það er svo almennt viðurkennt mál, að sveitarfélögin þarfnist sérstakra tekjustofna, að ekki getur liðið á löngu þar til hæstv. stj. tekur málið upp til úrlausnar, enda má það ekki dragast.