25.11.1935
Neðri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í C-deild Alþingistíðinda. (3724)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Thor Thors:

Ég vil lýsa ánægju minni yfir brtt. hv. 6. landsk. á þskj. 580, þar sem ætlazt er til, að álagning þessi, sem frv. gerir ráð fyrir Sauðárkróki til handa, verði réttur bæjarfélaganna almennt. Þar hverfa sósíalistar inn á nokkuð nýja braut. Hingað til hafa þeir lagzt á móti óbeinum sköttum eins og þessum og heimtað beina skatta á öllum sviðum. Hér er nú vitanlega um nauðsyn að ræða. Staðhæfing Sjálfstfl. hefir sigrað, að beinir skattar væru ekki fullnægjandi og gætu brugðizt. Nú, þegar sósíalistar hafa valdaaðstöðu á Alþingi, verða þeir að viðurkenna þetta og hverfa inn á þær brautir, sem Sjálfstfl. hefir alltaf bent á.

Ég verð líka að láta ánægju mína í ljós yfir till. hv. 6. landsk., af því að hún tekur af mér ómak. Ég hafði skömmu áður en það fréttist, að þingi yrði frestað, fengið tilmæli frá hreppsnefnd Stykkishólmshrepps að bera fram till. um, að hreppsn. væri heimilað að leggja vörugjald á allar vörur, sem fluttar eru til og frá Stykkishólmi. Þetta var samþ. af öllum í hreppsn., nema einum. Fulltrúar sjálfstæðismanna og Framsóknar samþ. það, en fulltrúi Alþfl. var eindregið á móti þessu. Hann hefir auðvitað sem góður og gegn flokksmaður álitið, að hann væri þarna að halda fram stefnu Alþfl. Nú fær hann væntanlega hinar síðustu fréttir af stefnu Alþfl. í þessum málum og beygir sig væntanlega til fylgis við hana.

Ég er því þessari till. fyllilega samþykkur. Ég er einnig samþykkur þeirri þáltill., sem hv. 6. landsk. hefir beitt sér fyrir. En hún fer í þá átt, að rannsakað sé og lagðar fyrir Alþ. till. um aukna tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög. Með þessu frv. er verið að slá því föstu, að þetta sé sú lausn, sem fyrst kemur til greina, þegar um nýja skatta fyrir bæjar- og sveitarfélög er að ræða. Ég er alveg samþykkur till. hv. þm. Barð. um það, að þessi heimild sé ekki eingöngu bundin við þá kaupstaði, sem eru sérstakt hreppsfélag. Það er rangt, að þeir kaupstaðir, sem hafa sveitabæi innan hreppsfélagsins, hafi ekki sömu heimild sem þeir, er enga sveitabæi hafa. Ennfremur er rétt að ákveða, að álagning þessa gjalds sé bundin við það, að sýslunefndarmenn samþ. það, þó að það sé ekki eins nauðsynlegt ákvæði, ef farið er inn á þá braut, að skipta gjaldinu milli kauptúna og sveitarfélaga annarsvegar, og svo sýslufélaga og fleiri aðilja hinsvegar.

Ég get fallizt á brtt. hv. þm. V.-Húnv., en mér hefir fundizt, að hún nái of skammt, og hefi ég náð samkomulagi við hann um að breyta henni örlítið. Það getur verið, að það séu fleiri en tvö sýslufélög, sem verzla í sama kauptúni, og er þá sjálfsagt, að þetta vörugjald skiptist milli allra þeirra sýslufélaga, sem verzla í kauptúninu. Viðvíkjandi þessu má benda á, að Hnappadalssýsla rekur verzlun við Borgarnes, en þar verzla Mýra- og Borgarfjarðarsýsla líka. Samkv. till. hv. þm. V.-Húnv. ættu aðeins tvö sýslufélög að skipta gjaldinu milli sín. Ég tel rétt að leiðrétta þetta og koma því inn í brtt., að fleiri en tvö sýslufélög eigi rétt á að skipta gjaldinu milli sín.