25.11.1935
Neðri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (3727)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. 6. landsk. sagði, að Sjálfstfl. hefði ekki borið fram frv. í þá átt að leysa vandamál bæjar- og sveitarfélaga á þann hátt að útvega þeim nýja gjaldstofna. Það mun vera rétt, að flokkurinn hefir ekki borið fram sérstakt lagafrv. um það efni, en það stafar af því, að Sjálfstfl. hefir litið svo á, að ríkisvaldið ætti að gæta þess að ganga ekki svo á tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga, að þau séu neydd til þess að fara inn á nýjar brautir í þeim efnum.

Ég vil benda hv. þm. á, að í umr. í fyrra um tekjuskattshækkunina lögðu sjálfstæðismenn ríka áherzlu á þetta, þar sem þeir báru fram till. um, að tekjuskattinum væri skipt milli ríkisins annarsvegar og bæjar- og sveitarfélaga hinsvegar, svo að þeim væru tryggðar nægilegar tekjur til sinna þarfa. En það er fjarri því, að það sé stefna sjálfstæðismanna að fara eins að og hér er gert ráð fyrir, því það leiðir út í glundroða og getur getið af sér blossandi hreppapólitík. Mér sýnist líka, að hinar margvíslegu brtt. stefni út í beinan glundroða. Ég get ekki skilið, að þetta úrræði sé nein framtíðarlausn. Og er satt að segja furðulegt, hvað menn eru ginnkeyptir í því að gera þessar till. sem víðtækastar og láta þær ná til sem stærstra svæða á landinu, bæði að þörfu og óþörfu. Ég held, að þingið ætti að halda sér fast við það, að leyfa eingöngu þeim sveitarfélögum, þar sem þörfin er bráðust, að leysa úr augnabliksvandræðum sínum á þennan hátt. Ég er mótfallinn till. hv. 6. landsk., og sérstaklega, ef hún er með þeirri brtt., sem hæstv. fjmrh. hefir borið fram, og fengið bandalag við ýmsa aðra hv. þm. um að koma fram. Ég óttast, að þá verði þetta skoðað sem endanleg lausn, en ég tel það illa farið. Hver, sem athugar þetta mál með gaumgæfni, sannfærist um, að það er ókleift að leysa tekjuþörf bæjar- og sveitarfélaga með óbeinum sköttum. Það getur leitt til þess, að vöruverð í nærliggjandi sveitum verður mismunandi, og allir ættu að geta séð, að slíkt er ófært. Og þessi leið er því ófær sem allsherjarleið, þó til hennar sé gripið í því skyni að bjarga einstaka bæjarfélagi við. En það verður að fara aðra leið. Stjórnarflokkarnir verða nú að sætta sig við það, að hverfa frá þeirri braut, sem þeir voru á með tekjuskattsfrv. í fyrra, og leyfa bæjar- og sveitarfélögum að afla tekna með þeim hætti. En óbeinir skattar eiga að vera í höndum ríkisvaldsins, og þeir eiga að ganga jafnt yfir, og það á að nota þá til uppfyllingar, þar sem beinir skattar hrökkva ekki til.

Ég vil mælast til þess, að allar þær brtt., sem miða að því að gera þetta að allsherjarfyrirkomulagi, verði felldar. Ef einstakir þm. þurfa að koma fram þessum réttarbótum fyrir sín kjördæmi, þá eiga þeir að bera fram brtt. um, að einstökum sveitarfélögum verði veitt þessi bráðabirgðahjálp, og svo á að taka málið upp samkv. þáltill.

Hv. 6. landsk. svaraði fyrirspurn þeirri, sem ég beindi til hans um það, hvers vegna Reykjavík væri undanskilin. Ég hefi nú ekki borið fram till. um, að Rvík fengi þessi fríðindi. Og það stafar af því, að ég álít, að ekki eigi fleiri sveitarfélög að fá þau en óhjákvæmilegt er. Í öðru lagi veit ég, að Rvík er betur stödd en flest sveitarfélög á landinu, og hefir því minni þörf fyrir þessi fríðindi heldur en ýms önnur sveitarfélög. En þrátt fyrir það þarf að taka tillit til Rvíkur í sambandi við lausn þessa máls. Því að skattaálögurnar fyrir bæjar- og sveitarfélögin eru að komast út á sömu braut, sem hér er um að ræða.

Hann lagði áherzlu á, að hér í Rvík væru slík gjöld komin á. Virtist ríkja hjá honum sá misskilningur, að umsetningargjaldið, sem hér er tekið, og jafnvel víðar, sé sama og þetta gjald. Við skulum þá athuga, hvað þetta gjald er, umsetningargjaldið. Hv. samþm. minn, 6. þm. Reykv., hefir þegar drepið á það, að umsetningargjaldið er ekkert annað en að fara ránshendi ofan í vasa einstaklinganna og taka þaðan fé án tillits til aðstæðna eða fjárhags. Það er ekki lagt á með tilliti til þess, hvernig fjárhagurinn er, heldur hve mikið hefir selzt af vöru, hvort heldur sem selzt hefir með gróða eða tapi. Þetta er, að því er mér skilst, óheimilt samkv. l. um tekjustofna fyrir bæjarfélög. Það hefir sýnt sig, þó ekki hafi enn komið til þess hér í Rvík, að sum sveitarfélög hafa gengið of langt, eða lagt á allt að 6% umsetningargjald. Þessum málum er því komið í algert strand, m. a. vegna þess, að verzlunin flyzt frá þessum einstaklingum til þeirra aðilja, sem eru verndaðir fyrir þessu gjaldi. Og það m. a. hefir komið þessum asna hér inn á Alþingi, að ekki er hægt að ná gjaldinu í bæjarsjóði með öðru en vörugjaldi, af því kaupfélögin eru undanþegin, og stefnir þetta því öllu í auðn nema kaupfélagsverzluninni, af því af henni er ekki hægt að ná neinum gjöldum, og mun einnig leiða til þess hér í Rvík. Það er því auðséð, að taka verður mál þetta allt í heild til gaumgæfilegrar athugunar og rannsóknar. Það á ekki að fara aðra leið í þessum málum en ég hefi bent á, að sveitar- og bæjarsjóðir eiga að fá tekjur sínar með beinum sköttum, en aftur á móti verður ríkið að afla sinna tekna, að svo miklu leyti sem beinir skattar hrökkva ekki til, með óbeinum sköttum.

Ég held, að það hafi verið hv. 6. landsk., sem benti á það, að á Siglufirði í fyrra var starfrækt síldarverksmiðja af einstaklingi, sem mig minnir, að hafi verið Steindór Hjaltalín, og af henni var greitt í útsvar 20-30 þús. kr. Vænti ég, að talan verði leiðrétt, ef ekki er rétt hermt. Það er augljóst mál og segir sig alveg sjálft, þegar einstaklingarnir eru látnir greiða þvílíkt umsetningargjald, hvernig muni ganga fyrir þeim í samkeppninni við skattfrjáls fyrirtæki, eins og t. d. ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði í þessu tilfelli. Sama á sér stað, þegar litið er á verzlun einstaklinga og kaupfélaga eða ríkis, sem þó kemur öðruvísi út. Er því fyrirsjáanlegt, ef þessu heldur áfram og bæjar- og sveitarfélögum er veitt ótakmörkuð heimild til að leggja á einstaklinga slík gjöld, en önnur hliðstæð fyrirtæki standa skattfrjáls í samkeppninni, að það leiðir til fullkominna teknaþrota fyrir sveitar- og bæjarfélögin.

Það er dálítið einkennilegt að athuga, hvernig sumir hv. þm. líta á þetta mál, t. d. í ljósi þeirrar afstöðu til annara mála, sem þeir hafa tekið. Nú rísa þeir hér upp hver á fætur öðrum og þykjast öndverðir því, að lagður sé skattur á sveitaverzlanirnar.

En þegar hér var rætt um sameiningu Blönduóskauptúns, þá var vitað, að krafan um sameiningu var gerð vegna þess, að aðalverzlunin var flutt úr hreppsfélaginu, og þetta þótti rétt og sjálfsagt, sem og var. Að vísu voru örfáir einstakir þm., sem greiddu atkv. gegn frv., en það var samþ. hér í d. með 24 atkv. Ýmsir hv. þdm., sem þótti þetta sjálfsagt, rísa nú upp öndverðir gegn álögum á verzlun bænda til kauptúna og kaupstaða. Þessar ýmsu yfirlýsingar og till., sem fram hafa komið í umr., finnst mér ættu að leiða til þess, að hv. þm. sannfærðust um, að það er rétt að rannsaka þetta mál betur, áður en gengið er til samþykktar á þessu máli; það þarf gagngerða allsherjarrannsókn.