26.11.1935
Neðri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (3733)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Eins og ég aðeins drap á í gær, þegar ég óskaði eftir að málið væri tekið út af dagskrá, þá var það og er komið út á svo vítt svið, að ef fara ætti út í þá sálma til hlítar, verður það ekki gert í stuttu máli. En það, sem telja verður höfuðdrætti málsins, er fyrst og fremst það, hvort í þessu tilfelli - að því er Sauðárkrók snertir, og enda í öðrum sérstökum tilfellum - er rétt að gera undantekningu frá þeirri reglu, sem er landsregla, og leyfa tilteknum stöðum að leggja á þetta vörugjald, eða hvort það á að leyfa kaupstöðum og stærri kauptúnum almennt að leggja slíkt gjald á til sinna þarfa.

Ég og ýmsir fleiri af hv. þm. munu telja frágangssök á þessu stigi að samþ. almenna heimild í þessa átt, en engan veginn frágangssök, þegar upplýst er brýn þörf fyrir hendi, að gera undantekningu og leyfa til bráðabirgða einstökum kaupstöðum eða kauptúnum hinum stærri að leggja þetta gjald á til eins árs, sérstaklega þegar vitað er, að Alþingi getur ekki komizt hjá að taka þetta mál allt upp á ennþá viðtækari grundvelli heldur en hér er talað um, og reyna að skipa því svo, að öll sveitarfélög, hvort sem er til sjávar eða sveita, fái aukna tekjustofna af að taka. Hvað snertir þann sérstaka stað, sem hér er um að ræða, Sauðárkrók, - sem að vísu er ekki kaupstaður, og er því hér farið út fyrir það, sem fram hefir komið áður, þar sem aðeins nokkrir bæir með kaupstaðarréttindi hafa fengið umrædda heimild -, þá er það að segja, að ég verð að telja upplýst, að þetta kauptún hafi þessarar heimildar fulla og óhjákvæmilega þörf.

En að því er lýtur að málinu í heild, eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, þá er ekki rétt að bera saman alla staði á landinu og segja, að þar sé þörfin alstaðar jafnrík. Menn verða um svona undantekningar eða bráðabirgðaákvæði að binda sig við þá staði, sem verst er ástatt um, og veita á þessu þingi heimild aðeins þeim stöðum, sennilega helzt stærri kaupstöðum, sem víst er unt, að ekki geta bjargað sér til næsta árs og hafa ekki neina nýja tekjustofna framundan.

En nú er komið nýtt inn í málið, sem gerir það að verkum, að það er spursmál, hvort þarf að sjá fyrir kaupstöðunum allt næsta ár, eða gerir það a. m. k. mjög líklegt, að þess verði þó aldrei þörf lengur en næsta ár. Hér er komin fram till. um það, að ríkisstj. skuli undirbúa löggjöf fyrir næsta þing um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga. Ef allt yrði skorið niður og engum kaupstað veitt heimild á þessu þingi, yrði sjálfsagt víða hart í ári, en biðin yrði þó ekki lengri en það, að allt ætti að geta bjargazt; þegar þing verður háð í byrjun febrúar næsta ár, þá er ekki langt að bíða. Samt sem áður tel ég, að málið sé ófyrirsynju komið hér á annan grundvöll en þann, að veita einstöku undantekningar um þá kaupstaði, sem verst eru staddir. En með brtt. hv. 6. landsk. er málið að mínum dómi komið á of víðan grundvöll, og hún breytir viðhorfi þess, svo að í rauninni er hér komið alveg nýtt frv. Yfirleitt tel ég ekki hægt, með réttum rökum, að eyðileggja einstök mál með því að bera fram brtt., sem fjalla um höfuðatriði, ekki aðeins í eðli sínu óskyld því, sem liggur fyrir, heldur líka svo víðtæk, að ekki ætti að koma til mála, að nokkur þm. vildi samþ. þau án þess að vinna að þeim á löngum tíma, ræða þau, leita álita nefnda o. s. frv. En þessar mikilsverðu till. eru fyrst komnar fram við síðustu umr. Virðist þar með hafa átt að útiloka, að þær gætu komizt til n. Ég hefði reyndar ekki talið það útilokað, ef n. vildi taka við þeim og athuga þær, en það lítur hvorki út fyrir, að hæstv. forseti né n. vilji stuðla að því, að þetta verði. En þá tel ég ekki heldur neina leið að taka málið svo alvarlega, að hv. d. afgreiði það. Hið eina, sem komið gæti til mála, er að samþ. frv. sem bráðabirgðaráðstöfun, með því að á næsta þingi verði málið tekið upp á almennum grundvelli. Af því leiðir, að ég vil leggja til, að það sé vikið til hliðar öllum brtt., sem fram hafa komið við málið, með því að fella þær. En er þó hart að gengið, bæði við mig og aðra, sem komið hafa fram með till. um aukna, sumir mjög aukna tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög. Til lengdar má ekki við svo búið standa. Víst er, að ýms sveitarfélög og kaupstaðir geta ekki staðið við þær skuldbindingar, sem þeim lögum samkv. ber að inna af höndum. En þegar samkomulag verður milli manna af öllum flokkum um, að þetta mál skuli verða horið fram að tilhlutan stj. fyrir næsta þing, þá sé ég ekki, að það brjóti í bág við okkar skoðanir, að sjá þessum bæjar- og sveitarfélögum fyrir einhverjum auknum tekjustofnum, þó að málið verði tekið upp þannig.

Ég vil hlynna að því, að málið verði athugað á sem eðlilegastan og réttastan hátt, en ég tel, að það geti ekki orðið nú á þessu þingi, þó að það eigi eftir að ganga til Ed. Með þetta fyrir augum vil ég óska þess, að hv. 6. landsk., ef hann sér sér fært, vildi taka aftur till. sína, svo að hægt sé að greiða atkv. óhindrað um málið, sem fyrir liggur.

Ég sé ekki, að ég þurfi að rökstyðja mína skoðun með fleiri orðum. Ég tel ekki vítavert, þó einhver vilji koma efni alls málsins hér inn, að öðru leyti en því, að ekki er hægt að gera víðtækar brtt. á þessu stigi málsins og ekki rétt frá sjónarmiði þess að koma frv. sem hreinustu fram. Það er óhjákvæmilegt, að þessar brtt. allar rugla hugi manna; menn eru yfirleitt meira eða minna með þeim, en þær eru ótímabærar hér og ekki í eðlilegu sambandi við það upprunalega frv., sem hér um ræðir. Menn verða annaðhvort að vera með því eða fella það. Ég tel gerlegt að vera með því sem undantekningu, þó að í aðsigi sé sú mikla atrenna frá stj., sem talað er um í þáltill.