10.12.1935
Efri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (3740)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Það hafa margir þessa sömu sögu að segja, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði nú um Sauðárkrókshrepp, og því verður ekki neitað, að víða er mjög erfiður fjárhagur sveitarfélaganna hér á landi. Það er því ekkert einstakt með Sauðárkrókshrepp, þó að hann sé illa stæður. Mörg hreppsfélög hafa beinlínis og óbeinlínis orðið að fá styrk frá ríkissjóði. Þessi fjárhagsvandræði hreppanna eru því engin ástæða með þessu einstaka frv., heldur sýna þau það, að fyrir hendi er knýjandi ástæða til að hefjast handa um nýja tekjuöflun fyrir bæjar- og sveitarsjóði.

Þá hafa og mörg héruð sömu söguna að segja um það, að tekjur og atvinna hafi brugðizt síðastl. sumar. Á Austurlandi brást atvinnan ekki aðeins í sumar, heldur hefir hún brugðizt þar sumar eftir sumar og er því mjög illt ástand þar víða. Ef út í það væri farið að meta, hvar mest þörf væri fyrir hjálp í þessu efni, er á engan hátt víst, að Sauðárkrókshreppur yrði þar í fyrstu röð. Ég geri miklu frekar ráð fyrir því, að sum sveitarfélögin á Austfjörðum séu verr stödd en Sauðárkrókshreppur og þyrftu því frekar á því að halda að fá möguleika til þess að afla sér nýrra tekna. Af því, sem ég nú hefi tekið fram, sé ég enga ástæðu til þess að taka þetta eina sveitarfélag út úr og láta það fá nýjan tekjustofn, þar sem það er líka sýnilegt, að heildarlöggjöf um tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög verður ekki samþ. í þetta sinn. - Ég verð því að halda fast við till. meiri hl. fjhn. um, að frv. verði vísað til stjórnarinnar.