10.12.1935
Efri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (3745)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Bernharð Stefánsson:

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta mál nú. Hv. 1. þm. Skagf. heldur sig alltaf við það, að afstaða mín til þessa máls byggist eingöngu á því, að frv. um Siglufjörð var fellt. En ég hefi margtekið það fram, að svo er ekki. Heldur það, sem er beinlínis tekið fram í nál. meiri hl. - að búið er að ákveða það af þinginu að semja heildarlöggjöf um þessi efni. Það var ekki búið að ákveða það, þegar frv. um Vestmannaeyjar var á ferðinni, sem ég greiddi atkv. með. Málið horfir því öðruvísi við nú. Hv. þm. játaði, að það ríkti allmikið handahóf um afgreiðslu þessara mála hér á þingi, þar sem sum málin væru samþ., en önnur felld. Hann sagði, að ómögulegt væri að gera að því. En ég vil segja, að hægt sé að gera að því, og eina ráðið til þess sé að semja ein lög um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga, þar sem þessi atriði séu tekin upp. Þó að ég hafi sjálfur í fyrra flutt frv. um svona tekjuöflun fyrir einn kaupstað landsins, frv., sem hv. 8. landsk. tók upp í Nd. á þessu þingi, þá er ég farinn að sannfærast um það, eftir að ég hefi séð, hvernig afgreiðsla slíkra mála getur farið, að það er miklu réttara að setja ein lög um, hvernig þessu skuli fyrir komið.

Það er því vegna þeirra atburða, sem orðið hafa, annarsvegar handahófsafgreiðslu, sem hv. Nd. hefir haft á þessum málum, og hinsvegar þeirrar fyrirætlunar að fela stj. undirbúning allra þessara mála til næsta þings og setja þá heildarlöggjöf um þetta, að ég lít svo á, að það sé hægt að láta það, sem nú er eftir af þessum málum, bíða eftir því. Og ég segi það alveg eins og er, að ef búið hefði verið að samþ. þessa till. í Sþ., um löggjöf í þessu efni, þegar frv. um Vestmannaeyjar var hér, þá hefði ég viljað hafa samskonar afgreiðslu á því. En ég gat ekki séð það fyrir þá, að þingið mundi taka þessa leið.

Að öðru leyti get ég ekki verið að fara út í einstök atriði, sem hv. þm. nefndi. Honum er þetta kappsmál. Hann virðist vera mjög reiður, og það verða menn gjarnan, þegar þeirra áhugamál mæta andstöðu. Ég get vel skilið þetta og ætla ekki að vera að æsa skap hans frekar.