10.12.1935
Efri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (3746)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Þeir hafa báðir lagt á það mikla áherzlu, hv. frsm. minni hl. og hv. 1. þm. Skagf., að þetta sé svo sérstakt, sem hér er farið fram á, þar sem það á aðeins að gilda fyrir eitt ár. Hv. 1. þm. Skagf. kallaði það vera meinsemi af okkur að leggjast á móti þessu frv. (BSt: Það var ég, sem átti það). Nei, það á við báða. Það má segja, að það sé af meinsemi, sem þm. greiði atkv. á móti málum. Það hefir þá verið af meinsemi, sem hv. 1. þm. Skagf. greiddi atkv. á móti tekjuöflunarfrv. stj. Þá var lögð áherzla á, að það gilti ekki nema fyrir eitt ár, en hann var ekki trúaður á það. Það mætti þá beina því til hv. þm., hvort hann haldi, að Sauðárkrókur verði svo forríkur á næsta ári, að hann þurfi ekki á þessu að halda framvegis.

Ég er ekki viss um, að hv. þm. sé það ljóst, hvað gerzt hefir í þessum málum hér á þingi, eftir því sem þeir töluðu. Ég er ekki viss um, að þeim sé ljóst, að það voru felldar brtt. við þetta frv., þar sem farið var fram á, að bæjarstjórnum í kaupstöðum utan Reykjavíkur og hreppsnefndum í kauptúnum, sem eru sérstök hreppsfélög, skuli heimilt að leggja vörugjald á innfluttar vörur. Ég er ekki viss um, að þeim sé það ljóst, að þessar brtt. voru felldar. Hv. Nd. vildi ekki láta þau njóta jafnréttis við Sauðárkrók. Ég hefi það fyrir satt, að flokksmenn hv. 1. þm. Skagf. hafi yfirleitt lagzt á móti till. Var það þá meinsemi af þeim að leggjast á móti þessum brtt.? Ég hefi einhverntíma sagt áður, að það er sagan um móður sankti Péturs upp aftur, að þeir vilja ekki láta önnur sveitarfélög verða þessara hlunninda aðnjótandi.

En það, sem gerist svo út frá þessu, er, að samþ. er í e. hlj. þáltill. í Sþ., þess efnis að fela ríkisstj. að undirbúa heildarlöggjöf um þetta efni fyrir næsta þing.

Það má alltaf slá því fram, að það þýði ekkert að segja við þá, sem eru svangir í vetur, að þeim verði hjálpað næsta haust. Það verður að sjálfsögðu séð um, að fólkið falli ekki úr hungri. En það er ekki rétt að gera sérstaka löggjöf fyrir þetta eina hreppsfélag og meina öllum öðrum hreppsfélögum að fá þessar sömu réttarbætur, ef þetta eru þá réttarbætur, og vilja ekki bíða í nokkra mánuði eftir að till. um slíka löggjöf lægi fyrir. Það þyrfti ekki að þýða það, að Sauðárkrókur yrði að bíða allt árið; maður gæti hugsað sér, að löggjöf, sem samþ. væri á vetrarþinginu næsta, gæti komið í gildi ekki seinna en 1. júlí, - meira að segja hugsanlegt, að hún gæti gengið í gildi 1. maí. Maí er mikill innflutningsmánuður alstaðar á landinu. Þyrfti því Sauðárkrókur ekki að líða mikið, þó að þetta yrði ekki samþ. nú. Ég vil ekki kannast við, að það þurfi endilega að vera af meinsemi, þó að við séum á móti þessu máli, heldur er það af því, að við teljum ekki eðlilegt, að á suma þinginu sé ýmist samþ. eða felld samskonar löggjöf og farið er fram á fyrir Sauðárkrók. Þó að Vestmannaeyjar séu nefndar, þá er því til að svara, eins og hv. 1. þm. Eyf. gerði, að eftir að löggjöfin viðvíkjandi þeim var samþ. tók Alþingi aðra stefnu í þessum málum, þá stefnu, að láta undirbúa heildarlöggjöf um þessi mál fyrir næsta þing. En aðalástæðan fyrir því, að frv. viðvíkjandi Vestmannaeyjum var borið fram, var sú, að það, sem þar var um að ræða, var í lögum áður, og var þess vegna ekki um annað en framlengingu á því að ræða. En um Sauðárkrók er öðru máli að gegna, því að hann missir einskis í, þó að þetta verði ekki samþ. Sauðárkrókur er eins illa eða vel settur eins og hann hefir verið, og það hefir verið fullyrt, að Sauðárkrók sé ekkert erfiðara að bíða eftir löggjöf um þetta efni heldur en ýmsum öðrum kaupstöðum og kauptúnum úti um land.