22.02.1935
Neðri deild: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (3752)

11. mál, sveitarstjórnarkosningar

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Á aukaþinginu 1933, þegar afgr. var ný stjórnarskrá og ný kosningalög, var samþ. þingsályktun þess efnis að fela ríkisstj. að undirbúa fyrir næsta þing frv. til l. um breyt. á l. um kosningar sveitarstjórna shlj. lögum um kosningar til Alþingis. Þessu varð ekki lokið fyrir síðasta þing, en nú hefir ríkisstj. látið undirbúa frv., og er það hér með lagt fyrir Alþingi.

Á bls. 11 í grg. fyrir frv. eru samandregnar helztu efnisbreytingarnar, sem gert er ráð fyrir með frv. eins og það kemur frá ríkisstj., þ. e. a. s. þessar:

Í fyrsta lagi, að gert er ráð fyrir, að hreppsnefndarkosningar fari fram á fjögurra ára fresti, eins og bæjarstjórnarkosningar nú, og á sama ári sem hinar almennu bæjarstjórnarkosningar. Í öðru lagi, að kjörtímabil hreppsnefnda skuli vera 4 ár, eins og bæjarstjórna, og allir nefndarmenn kosnir í einu.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að kjördagurinn sé fastákveðinn í lögum, í kaupstöðum síðasti sunnudagur í janúarmánuði, en í sveitum síðasti sunnudagur í maímánuði. Þó er ætlazt til þess, að hreppsnefndarkosningar á þeim stöðum, þar sem 2/3 hlutar kjósenda búa í kauptúni, fari fram á sama tíma og í kaupstöðum.

Þá er ennfremur gert ráð fyrir því, að allar hreppsnefndir skuli kosnar hlutbundnum kosningum á sama hátt sem bæjarstjórnir, og að varamenn skuli kosnir á sama hátt og samtímis. Þá er kosning í hreppunum gerð nokkuð auðveldur með því að heimila, að kosningar fari fram í kjördeildum eins og kosningar til Alþingis.

Þá er ennfremur gert ráð fyrir því, að allar nefndarkosningar, bæði innan bæjarstjórna og sveitarstjórna, skuli vera hlutbundnar og að hinir ýmsu starfsmenn kaupstaða og hreppa, sem til þessa hafa verið kosnir almennum kosningum (sáttanefndarmenn, skólanefndarmenn, sýslunefndarmenn o. s. frv.), skuli kosnir af bæjarstjórnum og hreppsnefndum.

Að því er snertir kosningarréttinn er þess ekki krafizt, að kjósandi hafi átt heimili um eitt ár í kaupstað eða hreppi til að mega neyta þar kosningarréttar síns, en í samræmi við lög um kosningar til Alþingis er hver kjósandi settur á kjörskrá, sem heimilisfastur er í kaupstaðnum eða hreppnum þegar kjörskrá er samin, þ. e. í febrúarmánuði. Með því að almennar kosningar í kaupstöðum og öllum stærri kauptúnum fara ekki fram fyrr en í janúar árið eftir, að kjörskráin var upphaflega samin, verður niðurstaðan svipuð og áður, að yfirleitt kýs þar enginn fyrr en eftir nærri eins árs búsetu að minnsta kosti. Í öðrum hreppum geta menn fengið að kjósa eftir styttri dvöl, þ. e. eftir ca. þriggja mánaða búsetu, en þess er að gæta, að þá er um smærri hreppa að ræða og dreifbýli, þar sem hægara er en í þéttbýli að átta sig á, hvort menn eru þar í raun og veru orðnir heimilisfastir eða ekki.

Loks er svo, að allar reglur og tilhögun kosningarinnar er færð til samræmis við gildandi reglur um kosningar til Alþingis, eftir því sem við varð komið, bæði um kosningar á kjörstað og utan kjörstaðar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en vil gera það að till. minni, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. allshn. þessarar deildar.