22.02.1935
Neðri deild: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (3756)

11. mál, sveitarstjórnarkosningar

Thor Thors:

Hv. þm. Borgf. varð til þess að minna á, að fyrir allshn., sem bar þessa þáltill. fram, hafi vakað, að allir flokkar skyldu eiga kost á að taka þátt í undirbúningi laganna. Ég hafði gleymt þessu, og þakka hv. þm. fyrir að hafa tekið þetta fram. En hæstv. ráðh. sagði, að ekki hefði verið ástæða til að framfylgja þessu, þar sem um svo einfalt mál væri að ræða. Ég læt vera, hversu einfalt mál þetta er. Hér er um að ræða, á hvern hátt mikill þorri þjóðarinnar skipar sínum sveitarstjórnarmálum, og það hefir þegar sýnt sig við þessa 1. umr. málsins, að um það er allmikill ágreiningur. Ég get vel skilið, að hæstv. ráðh. hafi horft í það að skipa fleiri en einn mann til þessa starfa, vegna kostnaðarins, sem af því kynni að leiða. Ég hefi veitt því athygli, að þessi hæstv. ríkisstj. er mjög treg til þess að fela fleiri mönnum að fjalla um málefni, sem hún ræður yfir, en nauðsyn krefur! En ég hygg, að þetta hefði mátt framkvæma án kostnaðarauka fyrir ríkissjóðinn á þann einfalda hátt, að leggja þetta frv. fyrir menn úr andstöðuflokkunum áður en það var borið fram í þinginu. Ég veit, að innan þeirra flokka eru menn, sem að kostnaðarlausu hefðu viljað fjalla um málið.

Út af ágreiningi um það, hvort lögbjóða eigi hlutfallskosningar í hreppsnefndir, hefir hæstv. atvmrh. látið þess getið, að það væri sín skoðun, sem kæmi fram í frv. Mér þykir einkennilegt, að sá, sem samdi þetta frv., sem nú er upplýst að verið hefir Vilmundur Jónsson landlæknir, sem var form. þeirrar allshn., sem bar fram till. til þál. um samræming þessara laga, skuli ekki hafa haldið sinni skoðun fram í þessu máli eins og hún greinilega kom fram í allshn., þar sem ekki var minnsti ágreiningur um, að einungis skyldi vera um heimild að ræða handa hreppsfélögum um að viðhafa hlutfallskosningu, en ekki skyldu.

Ég skal að þessu sinni ekki fara út í alm. rökræður um þetta atriði, en mér finnst hæstv. ráðh. gera lítið úr því, að oft hafi meir verið farið eftir mannkostum við kosningar í hreppsnefnd en stjórnamálaskoðunum.

Eftir þeirri allt of takmörkuðu þekkingu, sem ég hefi á því atriði, hefir mér virzt, að í hinum smærri hreppsfélögum sé langsamlega oftast lítið á mannkosti, en ekki pólitískar skoðanir, og ég er algerlega á móti þessu almenna lagaboði, af þeirri ástæðu, að óþarft sé og óheillavænlegt að vera að skapa pólitískar flokkadeilur þar, sem slíkt hefir ekki áður þekkzt.

Ég óska að taka það skýrt fram, sem ráðh. raunar lét getið, að ég tel, að allar þessar kosningar eigi að vera leynilegar, og kosningar í heyranda hljóði ekki að koma til greina.