13.11.1935
Sameinað þing: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

137. mál, fjáraukalög 1933

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það er satt, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, enda talar hann af reynslu, þar sem hann hefir sjálfur verið yfirskoðunarmaður landsreikninganna. Það hefir mjög verið á reiki, hvaða upphæðir af umframgreiðslum væru teknar upp í fjáraukal.frv. og hverjum væri sleppt. En ég hygg, að þegar sleppt hefir verið að taka sumar umframgreiðslur upp í fjáraukal.frv., þá sé það vegna þess, að gengið sé út frá því, sem regla er að setja í síðustu gr. fjárl., og það eru ákvæði um það, sem upphæðir breytast eftir því sem lög koma til framkvæmda, og er þá álitið, að þegar með fjárl. sé búið að heimila þær umframgreiðslur, sem þessi ákvæði ná til, og séu þar því ekki á valdi ríkisstjórnarinnar. Ég skal taka til dæmis dýrtíðaruppbót embættismanna. Ef reynslan sýnir, að hún verður hærri en áætlað er. Þá er litið svo á, að sú umframgreiðsla sé ákveðin í fjárl. og þurfi því ekki að taka hana upp í fjáraukal.; en ef sú heimild er ekki til, þá ber tvímælalaust að taka greiðsluna upp, því það er ákveðið í stjórnarskránni, að enga greiðslu megi inna af hendi úr ríkissjóði nema eftir fjárl. eða fjáraukalögum.

Það getur vel komið til mála að fara að á þann veg, sem hv. þm. V-Húnv. minntist á, að taka hreinlega allar þær umframgreiðslur, sem fyrir koma í landsreikningum, skrifa þær niður eins og vél og setja þær allar í fjáraukalög. Það er þá tryggt, að ekkert er greitt á móti þessu ákvæði stjskr., ef allir aukapóstar eru þannig settir í fjáraukalög.

Ég skal játa það, að þó ég hafi verið með í því að semja það álit, sem fjáraukalögin eru samin eftir, þá hefi ég ekki tekið eftir því, að þar hafi verið tekið upp það sama, sem Alþ. hefir áður óskað, að ekki væri þar með. En ég sé ekki, þó þetta væri þannig, að það væri nokkur goðgá. Þótt hið háa Alþ. felli einhverja till. frá mér, get ég vel borið hana fram aftur. Yfirskoðunarmaður getur vel haldið áfram að hafa sína skoðun á málinu og haldið áfram að gera tillögu samkv. henni, þótt þingið hafi fellt þær; og það Alþingi, sem nú situr, getur samþ. það, sem fyrra Alþ. felldi, og haldi einhver yfirskoðunarmaður fram tillögum, sem fyrri Alþ. hafa fellt, þá er það á valdi ríkisstj., hvort hún þess vegna beri tillögurnar ekki fram aftur.

Annars tel ég það réttara, að endurskoðendur geri till. sínar heldur um of en van. Því það er þá á valdi Alþingis að ákveða um þær.

Ég vildi aðeins láta þessi ummæli fylgja af hálfu okkar yfirskoðunarmanna, út af ræðu hv. þm. V.-Húnv.