22.02.1935
Neðri deild: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (3778)

12. mál, sala þjóðjarða og lög um sölu kirkjujarða

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Hv. þm. Borgf. hefir að mestu tekið af mér ómakið, en ég vil þó ekki láta hjá líða að lýsa yfir því, að ég er mótfallinn frv. því, sem hér er á ferðinni. Ég tel óþarft og óhyggilegt að samþ. þetta frv., hvernig sem á það er litið, jafnvel þótt lítið sé á það frá sjónarmiði hv. flm. og annara þeirra, er taka vilja fyrir sölu þessara jarða. Ráðandi stj. hefir það í hendi sér, hvort jarðirnar eru seldar eða ekki, og ég tel afnám laganna óhyggilegt vegna þess, að alltaf hljóta að koma fyrir tilfelli þar sem heilbrigð skynsemi segir, að svo sjálfsagt sé, að sala sé leyfð, að sjálft Alþingi kemst ekki hjá því að leyfa möguleika til þess, að sala geti farið fram. Ég get bent á lítið dæmi þessu til sönnunar. Ungur bóndi, ábúandi á kirkjujörð, sækir um styrk eða lán til byggingar á jörðinni, og setur þá kosti, að annaðhvort verði að byggja upp eða að hann flytji burtu. Hann hafði líka sótt um að fá jörðina keypta. Hér var því um þrennt að ræða: Að jörðin færi í eyði, því að enginn hefði tekið hana húsalausa eins og hún var, að ríkissjóður legði ca. 10 þús. kr. í kostnað við byggingu á koti, sem kostaði 2 þús. kr., eða í þriðja lagi að selja ábúandanum og láta hann byggja upp. Hið síðastnefnda var gert. Afleiðingin er sú, að bóndinn er nú búinn að byggja upp og býr þar nú sæmilega góðu búi, eftir því sem gerist um bændur nú.

Ég tilfæri þetta dæmi til að sýna, hve óhyggilegt getur verið að loka þessum möguleika. Annars geri ég ráð fyrir, að þetta mál fari til landbn. og gefist þá tækifæri til að athuga það nánar.