13.11.1935
Sameinað þing: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

137. mál, fjáraukalög 1933

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal viðurkenna það, að það hefir verið regla, að ríkisstj. tæki tillögur yfirskoðenda til greina, og bæri fram frv. samkv. því, sem þeir hafa lagt til. Ég hefi áður fundið að þessu; ég álít, að ríkisstj. eigi að tryggja sér það, að endurskoðendur fylgi alltaf þeim reglum, sem áður hefir verið gengið inn á af Alþingi.

Þótt einn yfirskoðunarmanna sé sá sami og áður hefir verið, er ekki tryggt, að farið sé eftir sömu reglu og verið hefir í þessu efni, og þarf það ekki að vera vegna þess, að honum hafi yfirsézt eða hann hafi ætlað sér að fara inn á nýjar brautir, því eins og verkum er skipt, getur auðveldlega komið fyrir, að það falli ekki í hans hlut að gera tillögur um, hvað taka skuli upp á fjáraukalög.

Út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ekki væri nema eðlilegt, að yfirskoðendur fylgdu skoðun sinni, vil ég segja, að ég vænti þess fastlega, að hann fylgi þeirri skoðun, sem hann hafði þegar við vorum saman endurskoðendur, þ. e. a. s. þeirri skoðun, sem þá kom fram í tillögum hans, því um aðra skoðun var ekki að ræða.

Sú skoðun, sem nú kom fram hjá honum, hlýtur að vera alveg meingölluð, því hún er önnur en sú, sem hann hafði þegar við vörum saman, svo ég vænti, að hann fallist á þetta, sem ég hefi nú sagt.

En þetta er aukaatriði. Það, sem mestu varðar, er, að þegar nýir liðir koma fyrir, þá séu þeir samkv. eðli sínu rétt flokkaðir í annanhvorn þessara tveggja flokka, sem til eru: þann, sem sloppið hefir frá því að vera tekinn upp í fjáraukalög, og þann, sem upp hefir verið tekinn.

Það eru þessir liðir, sem skipta mestu máli, og að mínu áliti eiga þeir að skiptast þannig, að þeir, sem greiddir eru eftir skýlausum lagafyrirmælum, eiga ekki að koma á fjáraukalög, heldur einungis þeir, sem eru á valdi ríkisstj. og telja má hennar sök, hvort greiddir eru eða ekki. sé greiðslan gerð samkv. skýlausum heimildum og ekki hefir verið áætlað nægilegt fé, þá á umframgreiðslan ekki að koma á fjáraukalög. Þessi regla var upp tekin 1923 og endurtekin 1929, og ég ætla, að það sé auðvelt að fara eftir henni.