22.02.1935
Neðri deild: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (3785)

12. mál, sala þjóðjarða og lög um sölu kirkjujarða

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Ég vil leyfa mér að leiðrétta tvö atriði í ræðu hv. 2. þm. N.-M. Hann vildi halda því fram, að það hefði verið blandað blekkingum dæmið, sem ég nefndi um sjálfseignarbóndann. Hann sagði, hv. þm., fé í banka, sem hann hefði notað til þess að byggja upp á jörðinni o. fl. Þó nú svo hefði verið, að bóndinn hefði gert þetta, þá er ekki annað um það að segja en að það hefði verið til styrktar mínum málstað. En ég sem kunnugur þessum manni get fullvissað hv. þm. um það, að hann hefir ekki tekið 1 eyri út úr banka til þessara hluta, aðeins gengið lítilsháttar á annað innstæðufé sitt. Hann hefir ræktað jörð sína og byggt hana upp fyrir dugnað sinn og ráðdeild. Þá sagði hv. þm. ennfremur, að bóndinn hefði átt fleiri ára fyrningar til þess að gefa fénaði sínum, jafnvel 5 ára gamlar birgðir. Nú veit ég ekki, hvernig fóðurbirgðaráðunauturinn fer að halda því fram, að hægt sé að nota 5 ára gamalt hey til þess að fóðra með búpening. Ég fyrir mitt leyti held, að það sé létt fóður, jafnvel léttara heldur en þó að gömlu rollurnar verði brytjaðar ofan í kýrnar, eins og þessi hv. þm. hefir af sinni miklu vizku viljað kenna sem eitthvert sérstakt snjallræði.

Þá eru nokkur atriði úr ræðu hæstv. forsrh., sem ég vildi leyfa mér að minnast á. Hann sagði, að framsóknarmenn hefðu staðið óskiptir að því að afnema þjóðjarðasölulögin. Ég veit ekki, hvernig ber að skilja þetta. Hvort ráðh. á aðeins við framsóknarmenn hér í þinginu eða framsóknarmenn almennt. Ég býst þó frekar við, að hér sé aðeins átt við þingflokkinn, og þá aðeins síðan hann komst í faðmlögin við sósíalista, því að ég þekki marga framsóknarmenn, sem eru ákveðnir þeirrar skoðunar, að sem flestar jarðir eigi að vera í sjálfsábúð. Hann vildi halda því fram, hæstv. ráðh., að það væru margir bændur úr Sjálfstfl., sem fylgdu afnámi þjóðjarðasölulaganna. Ég býst við, að í Sjálfstfl. eins og í öðrum stjórnmálafl. séu menn, sem hafa kollsiglt sig í búskapnum, yfirbyggt jarðir sínar o. s. frv. og því ekki getað staðið við skuldagreiðslur sínar. Þessir menn hafa því margir hverjir misst kjarkinn við búskapinn, og má því vera, að einhverjir þeirra hneigist að þeirri skoðun, að bezt sé, að ríkið eigi jarðirnar, en ekki einstaklingar. Þessi og þvílík óhöpp, sem bændur hafa orðið fyrir, ásamt verðfalli afurðanna, hafa að sjálfsögðu orðið til þess að draga úr mörgum bóndanum kjarkinn. Á það lagið vilja því sósíalistar ganga, og girða fyrir það um leið, að nokkur bóndi hér eftir geti orðið sjálfseignarbóndi.

Þá vitnaði hæstv. forsrh. til merkra manna úr Þingeyjarsýslum, sem tóku þátt í umr. um þjóðjarðasölulögin, þegar þau voru sett. Út af því vil ég taka það fram, að enda þótt Jón frá Múla, Pétur Jónsson o. fl. hafi verið á móti þjóðjarðasölulögunum þegar þau voru sett, þá er ég ekki viss um, að þeir hinir sömu menn væru með afnámi þeirra nú, eftir þá góðu raun, sem þau hafa gefið. Annars vil ég í þessu sambandi taka það fram sem kunnugur maður í Þingeyjarsýslunum, að á þeim árum, sem ég var að alast þar upp, voru mjög fluttar þar kenningar sósíalismans, og af því eimir eftir ennþá. Eitt af því, sem boðað var, var t. d. það, að ríkið ætti að eiga allar fasteignir. Frá þessari villu hafa allir betri menn norður þar snúizt nú, og er því ekki nema hinn fákænni hluti fólksins, sem ennþá fylgir þessari firru.

Mér þótti undarlegt, að hæstv. ráðh. skyldi fara að draga hér fram þær skoðanir hinna mætu manna, sem hann vitnaði til, að ræktun myndi yfirleitt minnka með sölu þjóðjarðanna, þar sem það blasir við öllum, sem augun hafa á annað borð opin, að ræktun landsins hefir aukizt í stórum stíl síðan jarðirnar yfirleitt komust úr leiguábúð yfir í sjálfsábúð.

Því er sífellt hampað af þeim mönnum, sem vilja, að ríkið eigi allar jarðir í landinu og afnema sjálfsábúðina, að erfðafestuábúðin hvetji bændur svo ákaflega mikið til umbóta á jörðunum. Það er nú ekki svo geysimikill munur á sjálfsábúð og erfðafestuábúð. En ég vil spyrja hæstv. landbrh., þó að hann hafi ekki sérstaklega mikinn kunnugleika á landb., hvort honum hafi virzt ákaflega blómlegur búskapur hjá þeim bændum, sem höfðu lífstíðarábúð á jörðum. Í þeirri sveit, þar sem ég er uppalinn, hafði fjöldi bænda lífstíðarábúð á kirkjujörðum, og voru þær yfirleitt sárlega niðurníddar. En nú á síðustu árum hafa flestar af þessum jörðum verið keyptar af ábúendum og þannig komizt í sjálfsábúð, enda hafa síðan verið gerðar á þeim miklar og blómlegar umbætur.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri mikið um það talað af andmælendum þessa frv., að það mundi vera sprottið af fjandskap til bænda. Ég hefi ekki heyrt því haldið fram. Og ég vil ekki heldur líta svo á, að jafnaðarmenn flytji þetta frv. af hatri til bænda yfirleitt, enda ekki ástæða til þess; en það er áreiðanlega sprottið af hatri til sjálfstæðra bænda. Ég held, að það sé miklu fremur ástæðan fyrir flutningi þessa frv., að flm. vilja koma á ríkisrekstri í landbúnaði, með því að innleiða leiguábúð á öllum jörðum, heldur en það sé sprottið af hatri til bændastéttarinnar í heild. Þetta mun vera ástæðan til þess, að sósíalistar flytja þetta frv. og hafa skuldbundið Framsfl. til að fylgja því. Og ef það er satt, að það sé samningur um það á milli stjórnarflokkanna að gera þetta frv. að lögum, þá er þetta frv. vitanlega ekki annað en eitt atriðið í þeim nauðungarsamningi, sem Framsfl. hefir orðið að krjúpa að til þess að fá að halda völdum og lífi í landinu.

Stefna þessa frv. á engar rætur úti um byggðir landsins hjá bændunum sjálfum. Ég veit ekki betur en að á flestum fundum meðal bænda í seinni tíð hafi verið samþ. ályktanir um kosti og aukningu sjálfsábúðar í landinu. Og tel ég, að þetta frv. sé snoppungur fyrir þá stefnu og að það eigi engan rétt á sér. Enda bætir það ekki um, ef til þess er stofnað með gerræðiskenndum samningum á milli stjórnarflokkanna bak við tjöldin, þar sem annar flokkurinn hefir verið kúgaður til fylgis við það.

Ég tel mig því ekki hafa nokkurn rétt til þess að sýna þessu frv. neina miskunn og mun hiklaust greiða atkv. á móti því, að það verði látið fara lengra.