23.02.1935
Neðri deild: 13. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (3790)

12. mál, sala þjóðjarða og lög um sölu kirkjujarða

Bjarni Bjarnason:

Það, sem gaf mér sérstaklega tilefni til að segja nokkur orð í þessu máli, var tilvitnun hv. þm. Borgf. í ræðu, sem Steingrímur Steinþórsson skólastjóri á Hólum, þáv. 2. þm. Skagf., hélt hér á þingi í máli, sem var skylt þessu. Hv. þm. Borgf. las upp ummæli eftir hann, þar sem hann talar um tvær leiðir til umbóta á núv. fyrirkomulagi í jarðeignamálinu, og að annað þeirra væri óðalsréttarfyrirkomulagið. Þetta vildi hv. þm. Borgf. láta sanna málstað þeirra manna, sem berjast nú á móti þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Ég skal taka það fram, að mér finnst það augljóst, að óðalsréttarfyrirkomulagið á að vera umbót á því fyrirkomulagi, sem nú er ríkjandi. Sérstaklega á það að vera umbót á kaupa- og sölufyrirkomulaginu. En það verðum við að játa, að einmitt það, að hér er verið að leita að betra fyrirkomulagi en því, sem nú ber mest á, er augljós viðurkenning þess, að núverandi fyrirkomulag sé ekki æskilegt.

Það, sem er sérstaklega athugavert við það, að einlægt sé verið að selja og kaupa jarðir, er það, að þá er vanalega gert allt, sem hægt er, til að miða söluverðið við þörf þess, sem selur, og hugsanlega möguleika þess, sem kaupir, en miklu síður athuguð raunveruleg aðstaða þess sem kaupir, til að standa straum af kaupverðinu, enda hefir það sýnt sig á undanförnum árum, að það er þetta, sem svo oft hefir komið bændum í vanda, nfl. að verðið hefir orðið of hátt, og náttúrlega sérstaklega af þeim verðsveiflum, sem orðið hafa á undanförnum árum. Sérstaklega var það um og eftir 1920, að möguleikar voru til að kaupa býsna dýrar jarðir; þá var verð afurða talsvert hátt. En svo þegar verðfallið kom, þá lentu menn í vandræðum, sérstaklega þeir, sem verið höfðu stórhuga, mestir áhuga- og umbótamenn um byggingar og jarðrækt; þeir urðu verst úti. Samt skila þeir næstu kynslóð mestu. En þeir, sem voru svo framsýnir að sjá, að verðið var óeðlilega hátt á tímabili og grunaði, að það mundi lækka, og voru þá svo miklir fjármálamenn fyrir sjálfa sig að selja sínar eignir, fóru frá með mikinn gróða. Eftir sátu svo hinir, sem fyrir bjartsýni og vonir um svipað verð eða hærra verð á afurðum höfðu ráðizt í meira en þeir svo gátu ráðið við. Óneitanlega er óðalsréttarfyrirkomulagið nokkur bót á þessu. Það takmarkar að miklu leyti kaup og sölu á jörðum, en festir hitt, að ættingjarnir taka við jörðinni hver af öðrum.

Hitt atriðið, sem Steingrímur Steinþórsson nefndi í sinni ræðu, gat hv. þm. Borgf. ekki um, en það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Hitt úrlausnarráðið er það, að ríkið yfirtaki jarðirnar.“

Nú liggur fyrir frv. um að hætta sölu kirkju- og þjóðjarða, og ætla ég, að það sé spor í rétta átt. Og næsta sporið álít ég, að eigi að vera að heimila stj. að kaupa þær jarðir, sem hún teldi ríkinu hagkvæmt að eiga, ef eigendurnir vildu selja þær eða bjóða þær til kaups. Ef þessar tvær tilraunir reyndust vel, væri ekkert, sem mælti á móti því að halda áfram eftir möguleikum ríkisins að eignast jarðir og forða þeim þannig frá að ganga kaupum og sölum óeðlilegu verði.

Á það hefir verið bent, að það sé ekki nægileg hvöt fyrir leiguliða á jörðum að gera verklegar framkvæmdir. En sannleikurinn er sá, að við höfum engin dæmi úr þjóðlífi okkar, er sýni þetta, því að leigurétturinn er og hefir verið svo takmarkaður og tímabundinn. Oft eru jarðir leigðar aðeins til skamms tíma, aðeins nokkurra ára. Og þá er ekki hægt að heimta af mönnum, ef þeir hafa jörð á leigu til nokkurra ára, og jafnvel þó að um lífstíðarábúð sé að ræða, að þeir leggi eins mikið á sig fyrir jarðirnar eins og ef þeir ættu þær. Þess vegna verður að tryggja það, ekki aðeins, að ábúandinn fái að vera á jörðinni svo lengi sem hann vill, heldur líka, að hans afkomendum sé einnig tryggður þar ábúðarréttur, séu uppfyllt sett skilyrði. Þegar við höfum slík dæmi fyrir okkur, erfðafestuábúð, sem gengur frá manni til manns, þá er hægt að gera samanburð á erfðafestuábúð og sjálfsábúð. Ég sé ekki, að það sé neitt, sem drægi úr mönnum að leggja í verklegar framkvæmdir og umbætur, ef ábúðarréttarfyrirkomulagið er með réttindum ættingja frá manni til manns.

Ég get ekki heldur séð, að eignarrétturinn sé svo sérstaklega mikilsverður, ef menn eiga á hættu að lenda fyrir hann í svo miklum skuldum, að þeir geti alls ekki undir risið og verði að standa í stöðugum samningum við lánardrottna sína vegna skulda, sem á þá hafa hlaðizt. Slíkur eignarréttur er ekki mikils virði. Þannig mætti benda á mörg dæmi þess, að afnotarétturinn sé meira virði en eignarrétturinn, og það mun vera svo, að vel tryggður og öruggur afnotaréttur er meira virði en eignarrétturinn. Það mætti benda á þann möguleika þessu til sönnunar, ef eign yrði fyrir einhverjum spjöllum, þannig að hún rýrnaði í verði, þá er auðskilið, að betra er fyrir ábúandann að hafa erfðaábúð á jörðinni heldur en þó hann ætti jörðina.

Einn hv. ræðumaður minntist á það, að kaupstaðarbúum væri mikið keppikefli að byggja sér hús til að búa í. Það þarf ekki langa leit til þess að fá skýringu á þeirri hvöt. Má benda þessum hv. þm. á það, að ef þessir menn, sem húsin vilja byggja, ættu sér og niðjum sínum trygga íbúð, þó leiguíbúð væri, með eins góðum kjörum og þeir gætu haft í sínu eigin húsi, þá mundi fáa fýsa að fara að byggja sér hús, - ef þeir hefðu tryggingu fyrir því að mega búa kyrrir, ef þeir óskuðu, þar, sem vel færi um þá. En þess eiga menn ekki ávallt kost í leiguíbúðum í kaupstöðunum. Það er alveg óþarft að taka á þessu máli með ofsa og hleypidómum; það vita allir ofurvel, að hverju einstaklingurinn keppir bæði í sveitum og kaupstöðum, og það er að tryggja afkomumöguleika sína í framtíðinni. Og ef við lítum sanngjarnlega á svona mál, þá er það ekki sérstaklega eignarrétturinn, sem bændur sækjast eftir, heldur hitt, að eiga trygga ábúð á jörðum sínum fyrir sig og sína afkomendur. Vitanlega er það sjálfsagt fyrir ríkið jafnóðum og þessar jarðir losna úr ábúð að byggja þær til lífstíðar og með erfðafesturétti. Þá þótti hv. 6. þm. Reykv. það einkennilegt, að fulltrúar bænda skyldu standa að slíku frv. sem þessu, en ég skal geta þess, að í mínu kjördæmi fylgir yfirgnæfandi meiri hluti bænda þeirri stefnu, sem kemur fram í þessu frv., ekki einasta þeir, sem gáfu mér atkv. í vor, heldur einnig fjöldamargir af mínum andstæðingum. Ég hefi því fulla ástæðu til þess að fylgja fram sameiginlegum skoðunum mínum og kjósenda minna í þessu máli.