23.02.1935
Neðri deild: 13. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (3792)

12. mál, sala þjóðjarða og lög um sölu kirkjujarða

Flm. (Héðinn Valdimarsson) [óyfirl.]:

Ég hafði ekki ástæður til þess að hlusta á hv. þm. Borgf., er hann flutti sínar fyrri ræður, en mér var sagt, að hann hefði talið óheilindi í því, að frv. þetta skyldu flytja menn, sem sjálfir ættu hús. Það er að vísu rétt, að bæði ég og hv. 1. landsk. eigum hús, en við eigum ekki lóðirnar, þar sem húsin standa, og höfum þær aðeins á leigu frá bænum. Það er nú svo með allar lóðir hér í Rvík, að bærinn á þær, að nokkrum undanteknum, sem fáeinir íhaldsuppskafningar hafa keypt, og það ber ekki á öðru en að menn séu ánægðir með það, að bærinn eigi lóðirnar. Þær eru svo leigðar einstaklingum til 75 ára. Þetta nægir okkur, og eins held ég, að það nægði bændunum að fá jarðir leigðar til svo langs tíma, sem þeir eða þeirra afkomendur kæra sig um. Ég fyrir mitt leyti er viss um, að þeir væru ánægðir með slík kjör á þessum jörðum, þó ekki sé farið að selja þær úr eigu ríkisins fyrir sama sem ekki neitt. Það mundi koma í ljós, ef athugað væri, hvað þær þjóð- og kirkjujarðir, sem seldar hafa verið, hafa verið seldar fyrir og það borið saman við það, hvers virði þessar jarðir eru nú, að ríkið hefir tapað stórfé á þessari jarðasölu, og þessi mismunur hefir ekki komið bændastéttinni til góða, heldur bröskurunum, sem keypt hafa jarðirnar. Það, sem mestu varðar bændur, er, að þeim séu tryggð afnot af sínum jörðum. eins og hv. 2. þm. Árn. tók fram. Það er ekki eignarrétturinn, heldur vissan um það, að afkomendur þeirra fái notið þess, sem þeir gera fyrir jarðirnar.

Ég vil geta þess, að það er ekki aðeins hér í Rvík, sem bærinn á nálega allar lóðir. Í Hafnarfirði er það eins; bærinn á þar allar lóðir, og á Akureyri á bærinn meiri hluta lóðanna. Þetta þykir svo sjálfsagt fyrirkomulag, að jafnvel sjálfstæðismenn, sem lengi voru á móti því, eru nú farnir að sjá sig um hönd.