23.02.1935
Neðri deild: 13. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (3793)

12. mál, sala þjóðjarða og lög um sölu kirkjujarða

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er ekki allskostar rétt að bera saman leigu á jörðum og lóðum, eins og hér hefir verið gert, því að þótt algengar séu svokallaðar leigulóðir, þá eru þær í flestum tilfellum sama sem eign þeirra manna, er hafa þær á leigu, þó að afgjaldskvöð hvíli á þeim. Það er eini rétturinn, sem bærinn hefir til lóðanna. Ég veit t. d. ekki betur en að sá, sem tekur lóð, geti selt sín lóðarréttindi hvenær sem er og hverjum sem hann vili, og við því verði, sem hann getur fengið fyrir lóðarréttinn.

Það hafa verið tekin ýms dæmi til þess að sanna galla núv. fyrirkomulags á jarðeignamálum, sérstaklega verðhækkun jarða úr hófi fram. Eitt af þeim dæmum á að vera Hrafnagil. Það er rétt, að sú jörð var keypt lágu verði, og seld nokkru síðar mjög hátt. Þessi jörð var keypt í stríðsbyrjun, áður en jarðir hækkuðu í verði, en seld síðan þegar allt var sem hæst, ekki einasta jarðir, heldur öll önnur verðmæti. Búpeningur bænda var þá í margföldu verði við það, sem hann var fyrir stríð. Ef sú verðhækkun á að vera ástæðan til þess, að bændur megi ekki búa á sínum eigin jörðum, þá mætti alveg eins segja, að þeir mættu ekki eiga sinn búpening, því hann gæti hækkað í verði og þeir tækju þá kannske upp á því að selja hann.

Annars vita allir kunnugir, að hér er um sérstakt dæmi að ræða, þar sem er Hrafnagilssalan. það er kunnugt, að þessi eign hefði verið seld miklu lægra, ef ekki hefði staðið þannig á, að tveir auðugustu mennirnir í Eyjafirði kepptu um þessa jörð og sprengdu hana upp hvor fyrir öðrum. Þetta voru menn, sem gátu keypt jörðina háu verði, og ég veit ekki til, að sá, sem hlaut hana, hafi lent í neinar beyglur með hana. En þetta dæmi er alveg óleyfilegt, ef það á að leggjast til grundvallar almennt; auk þess má benda á, að það er ekki rétt, sem haldið hefir verið fram, að jörðin hafi ekkert verið bætt á þessu tímabili, því frá því Þorsteinn Briem keypti jörðina og þangað til hann seldi hana, þá hafði þó töðufallið aukizt um helming. Það er því ekki rétt, að jörðin hafi ekki batnað, þó það væri ekki eins mikið og verðið hækkaði. Slík dæmi og þetta eru alveg gripin úr lausu lofti og sanna ekkert; þau eru gripin út úr vandræðum, af því að rökin finnast ekki. Hitt er sjálfsagt að viðurkenna, að það eru gallar á því skipulagi, sem ríkir í þessu efni, en það er áreiðanlega hægt að laga þá betur á annan hátt en þann, að sporna við því, að bændur geti eignazt ábýlisjarðir sínar. Það hefir áður hér á þingi verið bent á ráð, og það er óðalsrétturinn, og þó er ekki víst, að einu sinni þurfi að ganga svo langt til þess að koma í veg fyrir galla jarðasölunnar. Og reynslan bendir okkur á það, að full ástæða sé til þess að fara gætilega; sjálfseignarbúskapurinn hefir borið uppi landbúnaðinn, enda vita allir, að búskapurinn á þeim jörðum er rekinn með nokkuð meiri áhuga heldur en á leigujörðunum.