05.03.1935
Neðri deild: 20. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (3840)

38. mál, bygging og ábúð jarða, sem eru almannaeign

Jón Sigurðsson:

Ég tel sjálfsagt að stuðla að því, að leiguliðar eigi við sem bezt kjör að búa. Mín hugsun er sú, að leiguliðar verði allir sjálfseignarbændur. En í sambandi við þær upplýsingar hv. 2. þm. N.-M., að aðeins rúmur helmingur íslenzkra bænda séu sjálfseignarbændur, vil ég benda á það, að ekki er nema 1/10-1/12 af leiguliðum ábúendur ríkisjarða. Hitt eru leiguliðar einstakra manna. Með frv. verða ekki bætt kjör þessa mikla meiri hluta.

Mitt markmið er, að þegar komin er viðunandi löggjöf, sem tryggi, að jarðir þær, sem í sjálfsábúð eru, verði það áfram, þá verði unnið að því að koma einnig þessum jörðum privatmanna í sjálfsábúð. Að því vil ég og Sjálfstfl. starfa. Geri ég ráð fyrir, að Búnaðarbankinn yrði t. d. að veita lán í þessu skyni. Á þennan hátt myndi málið komast á þann rekspöl, að sjálfseignarbændum fjölgaði verulega í landinu.

Ég mun greiða atkv. með frv., því að ég álít sjálfsagt að gera þessum leiguliðum sem auðveldast að eignast jarðirnar.