08.03.1935
Neðri deild: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í C-deild Alþingistíðinda. (3856)

48. mál, fyrning verslunarskulda

Thor Thors:

Ég skal ekki að svo stöddu fara út í að svara ræðu hv. aðalflm. Mér fannst hún vera flutt af yfirlæti og kenna helzt um af mikillætis og brigzlyrða til okkar, sem höfðum þetta mál til meðferðar á síðasta þingi, að við hefðum ekki þekkingu á málinu.

Ég vil aðeins segja hv. flm. það, að ég hefi ekki trú á því - þó hann hafi hana -, að þetta mál sé stórt bjargráð fyrir landbúnaðinn, eins og hann lét í veðri vaka. En ég vil taka undir það, sem hann sagði, að mál þetta væri flutt vegna bændastéttarinnar, eftir hennar áskorun og til að bæta hennar hag, og fyndist mér því eðlilegast að vísa frv. þessu til hv. landbn., og leyfi ég mér að gera till. um, að svo verði gert í þetta sinn. Fæ ég ekki annað skilið en að hv. flm. geti verið ánægður með það, eftir þeirri meðferð, sem hann segir, að málið hafi fengið hjá allshn., sem hafi verið h. u. b. sama og stinga því undir stól. Við lögðum þó frv. þetta fyrir ýmsar stofnanir, sem ætti að vera málið kunnugast, eins og t. d. Landsbankann, Útvegsbankann, Búnaðarbankann, Verzlunarráðið o. fl. Búnaðarbankinn svaraði ekki - fannst það ekki svo mikilsvert - en hinar stofnanirnar töldu það ekki þess vert, að það ætti að ná fram að ganga. Vil ég telja þetta boðlega meðferð á frv., og fleiri en við litu svo á, að þetta væri ekki stórvægilegt hagsmunamál fyrir bændurna, eða svo verðum við að reikna undirtektir Búnaðarbankans, sem ekki lét svo lítið að gefa álit.