08.03.1935
Neðri deild: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í C-deild Alþingistíðinda. (3865)

49. mál, varnir gegn berklaveiki

Flm. (Gísli Sveinsson) [óyfirl.]:

Herra forseti ! Þetta mál, sem frv. það, er hér liggur fyrir, fjallar um, lá fyrir á síðasta Alþ., en fékk ekki afgreiðslu þá. Frv. lá þá í hv. allshn., og var hún að athuga það þegar þingi sleit.

Ég þykist vita, að hv. n. hafi verið málinu meðmælt; þar sem hún athugaði það svo vel, bendir það til þess, að hún hafi viljað því vel. Annars var hún skelegg og skilaði rösklega áliti um þau mál, er hún taldi lítils virði. Þetta mikilsverða mál er aðeins einn angi, einn skekill af því stóra máli, berklavarnalögunum, og snertir aðeins þau gjöld, sem að ófyrirsynju - að okkur þykir - hefir verið gert héruðunum að greiða, að þau verði færð niður úr 2 kr. í 1 kr. af hverjum manni. Þetta er orðinn einhver hæsti gjaldaliður margra sveitar- og sýslufélaga, og greiðist misjafnlega, og býst ég við, að hér séu einhverjir, sem þekkja slík héruð, er ekki hafa staðið í skilum. Og mörgum héruðum er orðið þetta svo þungbær gjaldaliður, að hann verður ekki heldur goldinn af þeim, þó þau hafi staðið í skilum hingað til, eða reynt að kljúfa það. Barðastrandarsýsla er hætt að standa í skilum, sömuleiðis Hafnarfjarðarkaupstaður og Neskaupstaður. Það sannar aðeins, að héruðunum er ókleift að gjalda þennan nefskatt, og þótt sum fátækari sýslufélög hafi pressað þetta undan blóðugum nöglum sínum hingað til, fer það sömu leið. Eru mjög háværar raddir um, að ríkið eigi að taka þessa skattálagningu að sér, þar sem álagningin og skattainnheimtan er á valdi þess, eða það hefir m. ö. o. öll ráð á gjaldstofnunum. Er þó hér gerð sú tilhliðrun að gera héruðunum að greiða hálft gjald það, er hefir verið. Allmikill kostnaður er árlega af berklavarnalögunum, eins og hv. þdm. er kunnugt, en þetta gjald nemur um 1/4 millj. kr. árlega, og er það ekki svo lítill skattur. Eins og getur að skilja, taka sýslufélögin þetta fé af hreppunum og hrepparnir aftur af einstökum mönnum, og það getur ekki haldið áfram að ganga svo til. Þess vegna er frv. þetta borið fram til viðvörunar, svo annað tveggja verði útgjöldum þessum létt af sýslufélögunum eða ríkið sjái þeim fyrir tekjustofnum. Það er ekki hægt að láta skeika að sköpuðu um, að ástandið haldist eins og er.

Ég vil leyfa mér að geta þess, að ríkisútvarpið stofnaði til umr. í vetur um berklavarnamálin. Tóku þátt í þeim umr. af hálfu heilbrigðismálastjórnar læknar og hjúkrunarkonur, en aðeins einn af hálfu leikmanna, og var ég beðinn að halda þar uppi svörum. Ég hefi ennfremur verið beðinn að skrifa ritgerð um málið, sem mér þykir of löng að lesa upp hér, enda tel ég þess ekki þörf, en hv. þdm. og aðrir munu eiga kost á að kynna sér hana, er hún kemur út. Er þar viðað að ýmsum gögnum og upplýsingum, er varða allmiklu um þetta mál. Þessi ritgerð hefst í Eimreiðinni með vorinu. Býst ég við, að málið verði þá á góðum rekspöl í n., því að þótt Alþingi slíti nú, mun það koma aftur saman, og þá verða nm. búnir að kynna sér málið betur en þeir hafa átt kost á nú, m. a. með því að lesa nefnda ritgerð, sem samin er eftir þeim beztu gögnum, sem fyrir liggja frá hálfu hins opinbera, og reyndar frá einstaklingum líka, og þá könnun, sem hægt var að framkvæma. Ég mun því ekki fara fleiri orðum um þetta mál nú. Því mun verða fylgt fram bæði af mér og öðrum, hvort sem það verður nú eða þegar framhald þessa þings tekur við. Og ég legg til, að því verði vísað til hinnar umtöluðu hv. allshn.