08.03.1935
Neðri deild: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (3866)

49. mál, varnir gegn berklaveiki

Bergur Jónsson:

Hv. þm. V.-Sk. upplýsti, að hann væri búinn að skrifa ritgerð - merkilega ritgerð - um þetta mál, svo að raunar væri ástæða til, að þingið bíði með aðgerðir í þessu máli þangað til sú ritgerð væri fram komin, svo að menn geti séð þau réttu rök. Ég efast raunar ekki um, að þar verði borin fram lagleg rök, því að maðurinn er vel gefinn. En hv. þm. treystir því auðsjáanlega nokkuð djarflega, að Alþingi láti það eitt nægja, að hann hafi skrifað ritgerð.

Annars hefi ég persónulega enga ástæðu til að kvarta yfir ræðu hans. Hann gaf mér „kompliment“, óverðskuldað raunar, að ég væri duglegasti þingmaðurinn í allshn. (GSv: Ég sagði „ef til vill“.). Ég hefi náttúrlega ekkert á móti því, að aðrir trúi þessu um mig.

Ég ætla þá að víkja að þeim ummælum, að þau sýslufélög, sem ég hefi veitt forstöðu í 7 ár, stæðu verst í skilum með gjöld. Það sanna í þessu máli er það, að Austur- og Vestur-Barðastrandarsýsla voru komnar í tveggja ára skuld með berklavarnagjald, en nú mun hvort sýslufélagið um sig vera búið að greiða eins árs gjald, svo að eins árs gjald er þá eftir. Hinsvegar hefi ég fengið upplýsingar - m. a. frá hv. flm. - um það, að 5-6 ára gjald hafi safnazt fyrir hjá sumum kaupstöðum, t. d. Nesi í Norðfirði og Hafnarfirði, sem hafa þó ólíkt betri aðstöðu til að afla fjár í greiðslur heldur en fátæk sveita- og sjávarþorpasýslufélög, eins og Barðastrandarsýsla.

Hv. þm. gat þess, að æskilegt væri að fá málið fram, ef fjárhagur ríkissjóðs þyldi. Það er rétt hjá hv. þm. En á þessu strandar það. Þarna er um 100 þús. kr. að ræða fyrir ríkissjóðinn, 1 kr. af hverju mannsbarni í landinu. Og það er ekkert vit fyrir þingið að ganga inn á að sleppa slíkum tekjustofni úr ríkissjóði, þó að það kannske hafi reynzt stundum lítils virði að eiga kröfur á héruð, þegar þau greiddu ekki, eins og hv. flm. benti á sjálfur. En af því vil ég einnig draga það, að hann sé mér sammála um, að málið eigi ekki að fara í allshn. Hann kvartaði líka yfir, að hún hefði legið á þessu máli allt síðasta þing, sem reyndar mun rétt vera. Og hafi hv. þm. áhuga á að koma málinu áfram, ætti hann að styðja till. mína um að vísa því til fjhn. Það er fyrst og fremst fjárhagsmál, og öllu meir fyrir ríkissjóð heldur en sýslusjóði, eins og hv. flm. tók einnig fram. Ég geri ráð fyrir, að fjhn. afgr. fljótar. Hitt er líklegt, að fjhn. vilji engu sleppa fyrir hönd ríkissjóðs. En jafnvel eftir orðum flm. liggur nær að vísa málinu í þessa n., og vona ég því, að mín till. um það fái samþykki.

Ég vil nú benda á annað mál, sem vísað var til allshn., sem ekki á þar heima, niðurfelling fasteignaskatts. Það er hreint og beint fjárhagsmál, hvort eigi að kippa mörg hundr. þús. króna föstum tekjum ríkissjóðs, sem staðið hafa mörgum áratugum saman, og kasta þeim allt í einu í sýslusjóði. Þessu máli hefir verið fleygt í allshn. algerlega ranglega, - í þessa „ógurlegu ruslakistu“, sem hv. þm. Mýr. var að ræða um áðan.

Ég geri fastlega ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. taki undir þessi rök mín og leggi með till. minni um að vísa máli þessu til fjhn., en ekki allshn.