08.03.1935
Neðri deild: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í C-deild Alþingistíðinda. (3868)

49. mál, varnir gegn berklaveiki

Flm. (Gísli Sveinsson) [óyfirl.]:

Ég skal, herra forseti, leyfa mér að fara í þetta sinn aftan að siðunum og mæla nokkrum orðum til hv. þm., sem nú settist niður, hv. 6. landsk. Ef hann vildi hlusta, þá skal ég rifja upp fyrir honum, að hann á síðasta þingi - sem hann er búinn að gleyma af einhverri ástæðu - var mjög fylgjandi þessu frv. Stóð hann þá upp í óþökk sinna samherja og lýsti yfir - svo að fjmrh. varð alveg hissa -, að hann ætli að fylgja þessu frv. hvað sem hver segi. Já, hann var býsna skeleggur þá, hv. þm.! En nú er breytt um.

Þá rangfærði hv. þm. orð mín, eins og vænta mátti vegna ókunnugleika hans í málinu, því að ég nefndi einstök héruð alls ekki til þess að niðra þeim. heldur nefndi ég þau aðeins sem dæmi til stuðnings því, að þetta mál sé aðkallandi um einhverjar aðgerðir.

Þó að þessi hv. þm. eigi nú að fást talsvert við tölur í starfi sínu, var skilningur hans ennþá fátæklegri, þegar hann kvað Skaftafellssýslu ekki muna neitt um að losna við eitt þús. kr. greiðslu í ríkissjóð. Það eru tvö sýslufélög, sem ég hefi með að gera, og önnur sýslan geldur upp í 4 þús. kr. til berklavarna. Það verða þá tvö þús., en ekki eitt, sem þar munar. Hin sýslan geldur nokkru minna, af því að hún er minni. En það ætti hverjum manni að liggja í augum uppi, að hinar minni sýslur munar um helming gjalds þessa alveg á sama hátt og hinar stærri, þar eð gjaldið fer eftir fólksfjölda. Nei, sýslufélögin hvarvetna sjá minna grand í mat sínum heldur en helmingi berklavarnagjaldsins nemur.

Þessi hv. þm. leyfði sér að slá föstu, að þessi sýslufélög, sem fram að þessu hafa greitt berklavarnagjaldið, skulduðu annarsstaðar. Hann heldur líklega, að það sé alstaðar siður að hafa sama lag og á Austfjörðum: að skulda alstaðar þar, sem hægt er, ef ekki á einum stað, þá að sjálfsögðu á hinum. Það er ekki orðin regla í öllum sýslum, og Skaftafellssýslur báðar hafa ekki skuldað undanfarið og munu ekki skulda á næstu árum. Fyrir því hefi ég m. a. séð, ásamt góðum mönnum, sem við sýslumálin hafa verið riðnir. (JG: En hrepparnir?). Hv. þm. veit, að það er í þessu efni ekki hægt að blanda saman hreppsfélögum og sýslufélögum, nema að því leyti, að það rekur að því, að hrepparnir verða að borga þetta við niðurjöfnun; og þá standa þeir ekki betur að vígi, ef þeir skulda alstaðar. En það er merkilegt, hvað þessi hv. þm. snýst nú á móti málinu. Hitt var mannlegt, þótt það væri af misskilningi sprottið, og óþarfi að kveinka sér undan því, að tekið var dæmi frá Austfjörðum um það, að héruðum væri ekki kleift að greiða þessar skuldir.

Annars má í þessu sambandi nefna um þennan virðulega kaupstað, sem sjálfsagt er að öðru leyti óaðfinnanlegur, að það var mikið kappsmál hér á árunum að koma þessum blessuðum kaupstaðarréttindum á, og þótti voldugt fyrirtæki að búa til kaupstað innan í sýslu. En hann hefir ekki getað staðið í verulegum skilum með gjöld. T. d. er berklavarnagjaldið frá upphafi meira og minna ógreitt. Það hefir verið mjatlað upp í það, en ekki sýnd full skil fyrir neinu af því og alls ekki borgað sem skyldi frá ári til árs. Það er náttúrlega alveg sjálfsagt að viðurkenna þetta. Það eru rök með þessu máli, að sveitarfélög, sýslufélög og bæjarfélög, sem þykjast fær í allan sjó, geta ekki staðið undir þessum gjöldum.

Hv. þm. Barð. var í rauninni alveg á sama máli um þetta atriði, sem hér er um að ræða, og hann veit og viðurkennir, hvernig komið er þessu máli í héraði hans, og hann hlýtur að taka það sárt. En samt finnur hann ekki sárar til þess en afstaða hans til málsins ber vott um, - kannske af því, að hann stendur ekki í skilum. Því að eins og kunnugt er, þegar menn hætta að standa í skilum, þá deyfist tilfinningin fyrir skilunum. En ekki er ég þar með að segja, að hann standi ekki annarsstaðar í skilum. En út frá ástandinu í þessu máli ætti hann ekki að vera á móti linun á þessu gjaldi, sökum þess að ríkið megi ekki við að missa það, sem það ekki hefir og ekki fær. Og viðvíkjandi því ennfremur, að ríkinu megi ekki blæða í tilbót vegna berklavarna, eins og hv. þm. sagði, þá er náttúrlega hag þess illa komið; en þó sýnist mér ekki hæstv. fjmrh., sem hér stendur, hafa kveinkað sér við að leggja á útgjöld, ef honum hefir passað það. Svo að hann virðist ekki vera hræddur við hverjar hundrað þúsundir. - Annars er því til að svara, að það er ríkið, en ekki héruðin, sem hefir tök á að taka peningana. Og þá verður sá aðilinn að standa aðallega undir byrðinni. Annars gleður það mig, að flutningur þessa máls á síðasta þingi hefir gefið einhverjum stjórnarvöldum í landinu tilefni til að fara á stúfana. Umr. þá hafa sannfært menn um, að það er ómögulegt, með þeim árangri, sem þegar er fenginn, að halda uppi þeim gífurlega kostnaði við berklavarnir, og að það verði eitthvað að ske í þeim efnum. Mér heyrðist hv. 6. landsk. segja, að von væri á frv. frá forsjón heilbrigðismálanna í landinu, sem myndi leysa spursmálið. Gott er það, en ég þarf að sjá það áður en ég viðurkenni það, - ekki þörf á, að ég viðurkenni það, sem aðrir viðurkenna ófætt.

Ég býst nú ekki við neinum djúptækum aðgerðum í þessu berklavarnamáli á þessu þingi, eða fyrr en þing kemur saman eftir frestun. En þá ætti því að verða fylgt af meiri gaumgæfni bæði innan þings og utan. Verður þá komin fram sú athugun, sem ég vísaði til áðan, að ég myndi leggja fram samkv. því, sem gögn liggja til í opinberum skjölum. Einnig sennilega þetta mikla frv., sem á að koma frá landlækni. Geta menn þá vinzað það úr, sem þeim gott þykir og allar aðstæður málsins, ef þeir gera það ekki nú.

Ég verð að telja, að þetta mál heyri, þrátt fyrir allt, undir allshn., því að þessi mál hafa alltaf þar verið, og hefir það ekki sætt mótmælum. Að vísu er þetta fjárhagsatriði, eitt atriði af mörgum slíkum, sem alltaf koma fyrir allshn., því að mörg þeirra snerta fjárhag alþjóðar á víðtækari grundvelli en þetta frv. En það er eins og þessum duglegu mönnum í allshn. ofbjóði það, sem þeim er ætlað að inna af hendi, og vilji losa sig sem mest við mál. Þeir geta verið rólegir; ná er þeim gefið fyrirheit um frí um stund, og geta þeir safnað kröftum, og vil ég, að þeirri reglu sé haldið, að láta þetta mál fara til allshn.