08.03.1935
Neðri deild: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í C-deild Alþingistíðinda. (3869)

49. mál, varnir gegn berklaveiki

Jónas Guðmundsson:

Það er óþarfi að svara miklu síðustu ræðu hv. þm. V.-Sk. Hann þjónaði eins og fyrr sinni lund, með því að reyna að svívirða einstaka bæi og sveitarfélög, og það er venja hans í flestum ræðum. Hann sagði m. a., að ég hefði sagt í fyrra, að ég myndi fylgja þessu frv. hvað sem hver segði. Þetta er nú alrangt, því að ég einmitt sagði þá, að það væri rangt, ef ætti að létta hluta sýslusjóða af að öllu leyti á þann veg, sem átti að gera, og að það ætti að koma annari skipun á þetta mál. Nú hefir verið tekið fram, að landlæknir mundi semja frv. um þetta mál, sem lagt yrði fyrir þetta þing. Hvort þar verður stungið upp á heppilegri skiptingu, get ég auðvitað ekkert sagt um að svo stöddu.

Hv. þm. kvaðst hafa tekið þessi sveitarfélög sem sérstök dæmi um það, að bæjar- og sýslufélög séu í óskilum um berklavarnagjald. Það er náttúrlega afsakanlegt hjá honum. En ég vil þá bara beina því til hans, að það er staðreynd, sem ógerlegt er að mótmæla, að það eru kaupstaðirnir, sem hafa nú 3 síðustu árin orðið að framfæra allan þorra þeirra manna, sem framfærslurétt eiga í sveitum, og þess vegna hafa kaupstaðirnir komizt í hann krappan með skil til hins opinbera og annara. Sveitahreppar hafa ekki greitt gjöldin til kaupstaðanna, sem þeim að I. ber að greiða. Svo er það einnig í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslu, sem hv. þm. var að mæla fyrir sem sérstaklega skilvísum sýslufél.

Ég vil þá að lokum spyrja hann: Hvers vegna ber hann fram þetta frv., ef sýslufélögin standa í skilum með allar greiðslur? Og hví skyldi þurfa að létta af Vestur-Skaftafellssýslu þessu gjaldi, ef hún skuldar engum neitt?

Viðvíkjandi því, í hvaða nefnd eigi að vísa málinu, þá finnst mér það hvergi eiga heima nema í fjhn., því að í þessu frv. er aðeins um það að ræða, hver eigi að borga kostnaðinn við berklavarnirnir; engin önnur breyt. á berklavarnalögunum felst í frv. Og ef á að framkvæma berklalögin að öðru leyti eins og nú er gert, er spurningin, hvort ríkið eða sýslufélögin eigi að borga þessar rúmar 100 þús. kr. Sé ég ekki annað en það sé hreint fjárhagsatriði.