08.03.1935
Neðri deild: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (3871)

49. mál, varnir gegn berklaveiki

Flm. (Gísli Sveinsson) [óyfirl.]:

Það var mikill misskilningur hjá hv. þm. Barð., að ríkið hefði öll tök á að taka þessi gjöld eins og önnur með því valdi, sem það hefði til þess að taka gjöld af borgurum landsins. Það var ekki meiningin, að taka ætti frá öðrum stöðum þessi gjöld, sem sýslufélögin gætu ekki greitt, heldur að héruðin hefðu engin tök á að taka þau gjöld nema af hreppunum, og þau gjöld væru tekin með niðurjöfnun, en ekki sem nefskattur. Þó að það sé að forminu til ákveðið svo, að það skuli vera 2 kr. á mann, þá er það enginn nefskattur, en lagt á sem útsvar og tekið hlutfallslega jafnt af hverjum hreppi, eftir því sem sýslunefnd og sýslumaður ákvarða. Hv. þm. hefir því farið hér villur vegar. Annars virðast þessi orð hans alveg út í hött. Í fyrra kom hann fram eins og einhver utanveltufjmrh. í þessu máli og taldi, að fjmrh. gæti ómögulega gengið inn á að leggja þarna 100000 kr. meira á ríkið, því að það gæti ekki staðið undir því. Ég skil þetta ekki, og ég veit, að hæstv. fjmrh. mundi andmæla þessu, ef það kæmi fram á öðrum vettvangi, því að þetta er vitleysa. Ef nokkur getur borgað þetta, þá er það ríkið, og ef ríkið getur það ekki, þá geta héruðin það miklu síður, því að þau hafa ekkert á að leggja nema menn, sem eru útpíndir bæði af sínum eigin skuldum og sköttum þess opinbera, en ríkið getur alla vega lagt skatta á, og þarf ekki að minna hæstv. fjmrh. á það, sem er sérfræðingur í að pína skatta út úr fólki og heldur, að alstaðar séu auðæfi, sem af megi taka. En þó að mannssálirnar séu auðugar, þá geta þær samt gugnað undan sköttum, jafnvel hjá þeirri stj., sem nú situr. (Fjmrh.: Eru mannssálirnar tekjustofn sveitarfélaganna?). Sálin verður að vera með, ef menn eiga að lifa, og tel ég hana þá fyrir.

Þá spurði hv. 6. landsk. um það, hvers vegna ég flytti svona mál fram, ef þau sýslufélög, sem ég veiti forstöðu, stæðu í skilum. Hvers vegna? Hvers vegna að liggja ekki og láta pína sig, þangað til menn eru dauðir? Hvers vegna að kveinka sér, áður en maður er fallinn? Hvað heldur hv. þm.? Er ekki hyggilegra að reyna að létta þessu eitthvað af sýslunum, áður en allt er komið um koll? Þá fyrst vill hann, þegar allt er komið þannig í óefni, láta taka í taumana. Ég er á annari skoðun. Ég er því kunnugur úr báðum mínum sýslum, að bæði þessi gjöld og önnur eru klipin undan blóðugum nöglum. Það er erfitt, en verður ókleift að greiða þau. Fjöldamargar sýslur hafa ekki getað greitt þetta gjald síðasta ár. Og þó að þær sýslur, sem ég veiti forstöðu, séu þess megnugar að greiða þetta gjald, þá vil ég nú segja það, þó að hæstv. fjmrh. heyri, að ég ætla, áður en ég greiði fyrir síðasta ár þetta gjald, sem er til, að sjá, hvort ég get ekki orðið svo sem í miðið. Ég býst við, að margir muni stinga hendinni í sinn eiginn barm til að sjá, hvort ekki væri hægt að koma þessu gjaldi yfir á ríkissjóð.

Ég vona, að þetta mál verði látið ganga til n., og tel þá eðlilegast, að það fari til þeirrar n., sem það hefir áður verið í, sem sé allshn., því að þar tel ég það eiga heima. Ég vænti, að þetta verði tekið föstum tökum, og ekki einungis þetta frv., heldur og allt það, er snertir þetta mál, vona ég, að menn geti sameinazt um það, hvaða flokki sem þeir tilheyra. Ég hefi ekki blandað flokkum inn í þetta mál; það hafa aðrir gert, og þá fyrst og fremst hv. 6. landsk. Ég tel, að þetta mál eigi ekki að vera flokksmál; til þess snertir það of mikið einstaklinga í landinu, héruðin og ríkissjóð.