08.03.1935
Neðri deild: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (3872)

49. mál, varnir gegn berklaveiki

Bergur Jónsson:

Ég skil ekki, hvar hv. þm. V.-Sk. hefir fengið tilefni til að líta svo á, að þetta mál hafi verið gert að flokksmáli. Ég hefi aldrei litið þannig á málið, enda er það ekki þannig vaxið, og ég er viss um, að allir væru sammála um að leggja þetta gjald á ríkissjóð, er þeir væru vissir um, að hann þyldi það, en ég vil ekki ganga inn á málið fyrr en vitað er um það. Þó að hv. þm. V.-Sk. sé stjórnarandstæðingur, þá hlýtur hann að vita, að það er full þörf á, að ríkið haldi þeim tekjum, sem unnt er, en ef þær eru minnkaðar, þá verður að draga úr verklegum framkvæmdum, t. d. að minnka framlag til vega- og brúargerða í Vestur-Skaftafellssýslu, og ef til vill til sýslumanns Skaftfellinga.

Hann var mikið að tala um fólkið í landinn. Það er einmitt það, sem ég vil taka tillit til, en ég vil ekki ganga út í að rýra tekjur ríkissjóðs án þess að séð sé fyrir einhverri heilbrigðri tekjuöflun í staðinn.

Hv. þm. sagðist ekki vita, hvers vegna ég vildi taka tillit til fjmrh. í þessu máli, og hvers vegna ég vildi taka tillit til ríkissjóðs. Ég get sagt honum, að ég vil það af þessum ástæðum, sem ég hefi nú lýst. Ég er yfirleitt alveg hissa, að þessi hv. þm., sem ég veit, að er greindur maður, skyldi tala jafnógreindarlega og hann gerði í þessari síðustu ræðu sinni.