21.12.1935
Sameinað þing: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

137. mál, fjáraukalög 1933

Thor Thors:

Ég hafði hugsað mér að falla frá orðinu, til þess að hv. 1. þm. Skagf. gæti fyrst talað fyrir okkar flokk. En nú eru komin ný atriði í þetta mál, svo að ég nota mitt málfrelsi.

Þetta þing er orðið það lengsta, sem staðið hefir á Íslandi, og er á allra vitorði, að þinginu var frestað fyrst og fremst til þess, að fjvn. gæti ráðið sínum ráðum betur þegar þing kæmi saman að nýju. Hitt er og á allra vitorði, að þingið hefir orðið svo langt sem raun er á vegna þess, að fjvn. hefir ekki getað lokið störfum sínum fyrr. Það kemur því úr hörðustu átt, þegar fjvn. sendir mann af örkinni eins og hv. 9. landsk. til þess að vekja í þinglok slíkar stórdeilur eins og hann beinlínis stofnaði til með sinni óviturlegu ræðu um daginn. Í þeirri ræðu vegur hann aftan að n. í heild og ber hér inn í Alþingi það mál, sem margsinnis er rætt hér að fullu og á hverjum einasta stjórnmálafundi, sem haldinn hefir verið hér á landi að undanförnu. En úr því að formaður fjvn. hefir óskað þess að senda þennan sér samboðna og virðulega asna í herbúðir okkar sjálfstæðismanna, þá fer vel á því, að honum sé haldið þar góða stund og klórað þægilega bak við eyrað.

Hver eru nú upptök þessarar ríkislögreglu, sem þessi hv. þm. segir, að verið hafi algerlega að ástæðulausu stofnað til? 9. nóvember, það var sá dagur, sem réð upptöku ríkislögreglunnar. Og nú vil ég spyrja: Hverjir voru þeir, sem þar gengu djarfast fram fyrir skjöldu? Hvar stóð hv. 2. þm. Reykv. þann dag? Og hvern þátt átti hann í stofnun hennar, með því beinlínis að stuðla að ofbeldi og stuðla að því, að löglegri ákvörðun bæjarstj. Rvíkur væri hrundið? Það er hann og hans flokkur, sem drýgstan þáttinn hafa átt í því að neyða ríkisvaldið til að grípa til þeirra varnarráðstafana, sem gripið var til þegar ríkislögreglan var stofnuð.

Hæstv. forsrh. sagði áðan: „Ætlar þetta þing að láta þurrka sig út?“ Og þau orð eru vissulega réttmæt. Alþingi hefir gert ákveðna ákvörðun, og nú er risið gegn henni. Það er ríkisvaldsins að halda uppi þeirri ákvörðun. En það var jafnákveðið bein skylda bæjarstj. Rvíkur — og þar með ríkisvaldsins — að halda uppi þeirri ákvörðun, sem meiri hl. gerði 9. nóv. 1932. (HV: Það var kauplækkun!). Sama, hvort það var kauplækkun eða annað. Réttur meiri hl. í lýðræðislandi hefir rétt til að taka þær ákvarðanir, sem hann vill. (HV: Hvers vegna lét hann undan?). Bæjarstj. lét undan vegna þess að hún sá, að í óefni var komið; og hver veit nema það hendi líka þennan hv. benzínmann, að hann verði að láta undan, þegar hann sér, í hvert óefni er komið. En meiri hl. bæjarstj. hafði ekki ástæðu til að láta undan út frá réttum lýðræðislegum grundvelli. Þær ákvarðanir, sem þeir fulltrúar þjóðarinnar, sem kosnir eru á lýðræðisgrundvelli, gera, hversu óvinsælar og hversu órökstuddar sem þær eru, eiga að standa, ef lýðræði á að lifa í þessu landi. Það er um þetta, sem var deilt 9. nóv. 1932, og það er um þetta, sem verður deilt næstu daga hér í Rvík.

Hæstv. forsrh. sagði, að hér skipti allt öðru máli. Og hv. 2. þm. Reykv. sagði það, að hér skipti allt öðru máli, því að nú sé ekki kauplækkun á ferð. En veit nokkur um það, nema þessi hækkun á rekstri bifreiða leiði óhjákvæmilega til kauplækkunar hjá bifreiðarstjórum? Hvað veit hæstv. ráðh. um það? En ef um réttmæta árás gegn lýðræðinu er að ræða, bæði gegn bæjarstj. Rvíkur og gegn Alþingi, ef kauplækkun er annarsvegar, þá má hann vara sig, að hann hafi ekki talað of stórt hér.

Það hefir oft verið á það bent, að það kæmi úr hörðustu átt, þegar menn, sem lifa beinlínis á verkalýðnum í landinu, eins og hv. 9. landsk., staðhæfa, að allt lögregluliðið í landinu beinist sérstaklega gegn verkalýðnum. Það eru vissulega órökstudd ummæli. Verkalýðurinn í landinu er ekki óhlýðnari við lög landsins en aðrar stéttir. Og það hefir aldrei komið til þess, að þær stéttir mótmæli þeim gerðum, sem lýðræðisgrundvelli eru byggðar, nema þær séu hvattar til þess af öðrum mönnum, sem utan þeirra standa.

Það er alveg augljóst mál, að þó að hv. 9. landsk. hafi sagt, að ríkislögreglan hafi verið stofnuð að ástæðulausu, þá var hún stofnuð af fyllstu nauðsyn. Það er vitað, að kommúnistar ætluðu að gera bylting í þjóðfélaginu; og þeir hefðu gert það, ef þeir hefðu ekki óttast þær varnarráðstafanir, sem ríkið hafði gripið til.

Það kemur hinsvegar ekki svo einkennilega fyrir sjónir, að þessi maður skuli segja þetta. Því að það er margupplýst, að hann rann á eftir eins og rakki, til þess að vita, hvort hann fyndi ekki einhvern blóðþef (Forseti hringir).

Það er miklu alvarlegra mál heldur en hægt sé að ræða hér á þessari stundu, hver nauðsyn er á því, að lögregla sé til í landinu. Hvað þýðir fyrir Alþingi að setja lög, — lög sem oft og tíðum eru óvinsæl og margir verða til að mótmæla, ef ekki er á hverjum tíma í þjóðfélaginu eitthvert afl., sem stendur bak við þessi lög og getur framfylgt þeim, ef nauðsyn krefur? Það eru aðeins tvær hlíðar á sama máli: lög og lögvernd. Öll lög eru einskis virði, ef á þau er ráðist, ef ekki er á bak við þau á hverjum tíma sterk lögvernd. Og það er svo einkennilegt, að næstum í sömu andránni og hv. 9. landsk. hafði haldið þessa ódrengilegu ræðu sína, varð hann einmitt til þess að staðhæfa á Alþingi, að nauðsyn væri að hafa lögvernd bak við lögin. Fyrir Nd. lá þá frv. um tugthús. Og til hvers eru þessi tugthús? Ekki til annars en að refsa þeim, sem ráðast gegn lýðræði og þingræði. Þessi þm. sýndi þá, að nauðsyn var á þessari hlið málsins. Hann greiddi atkv. með tugthúsunum. Og reynslan hefir líka sýnt það, að þeir sósíalistar eru afar fegnir, að til er einhver lögregla, því að í hvert sinn sem þeir verða hræddir og komast í vanda, þá er fyrsta boðorðið hjá þeim að kalla á lögregluna. Og við skulum sjá, hvernig fer fyrir þessari hæstv. ríkisstj., sem barizt hefir svo voðalega gegn varalögreglu á sínum tíma. Ætli hún verði ekki fegin að nota hana nú næstu daga, ef í harðbakka slær?

Það þótti allt annar grundvöllur til að ræða þetta mál á þingi 1933, og ég minnist þess með ánægju, að þá deildi ég við núv. hæstv. atvmrh. Þá taldi hann hina mestu svívirðu að hafa slíkt lið, sem stofnað hafi verið gegn verkalýðnum í landinu. Nú skulum við sjá, hvernig hæstv. ráðh. lítur á það, að til sé eitthvert lið, sem ég segi, að ætti að vera til þess að halda uppi valdi meiri hlutans með þjóðinni.

Hv. 1. þm. Skagf. hefir svo kröftuglega lýst, hver afskipti þingsins voru af þessum lögreglumálum. Hann hefir sýnt fram á, að lög um lögreglu voru samþ. svo að segja einróma af framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum. En hv. 9. landsk. segir, að það hafi verið gengið til kosninga um lögreglumálin síðan. Ég verð að segja, að ef gengið hefir verið til kosninga um lögreglumálin, þá er það málstaður lögregluvaldsins í landinu, sem hefir unnið mjög glæsilegan sigur. En jafnvel þó að þessir núv. stjórnarflokkar hefðu báðir staðið gegn því að halda uppi nægilegu lögregluvaldi, hefir samt sú stefna, sem heldur fram, að bak við ríkisvaldið verði jafnan að vera til lögregluvald, sigrað í þessum kosningum. Því að það er vitanlegt, að andstæðingar stj., sem eru á þingi, fengu um 25 þús. atkv., en núv. stjórnarflokkar aðeins um 22 þús. Svo kemur hv. 9. land,k. öllum að óvörum og að baki þeim, sem höfðu falið honum að segja nokkur orð um fjáraukal. og segir, að þjóðin hafi áttað sig á, að ekki hafi verið óhætt að trúa núv. stjórnarandstæðingum fyrir neinu. Atkvæðatalan sýnir greinilega, hverjum þjóðin vildi trúa fyrir valdinu. Það var ógæfa hennar, að svo fór sem fór. En meiri hl. þjóðarinnar var jafnskýr og raun ber vitni.

En annars ætti þessi hv. þm. manna sízt að tala um það, að þjóðin snúi baki við einstökum flokkum og frambjóðendum; því að í hvert sinn, sem hann hefir sýnt sig frammi fyrir kjósendum, hefir hann jafnan — þrátt fyrir allt sitt glamur og þrátt fyrir allt sitt lýðskrum — fengið sama svarið: Þjóðin vili ekki líta við honum. Það var óhapp Alþfl., að einn bezti og greindasti maður flokksins, Vilmundur Jónsson landlæknir, afsalaði sér þingsæti, og þess vegna komst þessi hv. þm. í óþökk flokksins og þjóðarinnar inn á þing. Þegar hann svo er kominn hingað inn, verður honum tíðrætt um það, að kjósendur snúi baki við einstökum flokkum og einstökum mönnum. Já, honum fórst !

Ég vék að því áðan, að nú er líkt viðhorf í þjóðfélaginu og var 9. nóv. — 9. nóv. 1932 gerði bæjarstj. Rvíkur, kosin af meiri hl. borgaranna, ákvörðun með öllum greiddum atkv. Sú ákvörðun hlaut að standa í hverju því þjóðfélagi, sem viðurkenndi lýðræði. En hún var vefengd af þeim mönnum, sem nú þykjast vera að verja lýðræðið í landinu. Nú hefir alþingi tekið ákvörðun, sem er mjög óvinsæl og hefir sætt andmælum hjá vissri stétt í þjóðfélaginu. Mér er sagt, að sú stétt vilji halda uppi mótþróa gegn meiri hl. Alþingis og búist nú til atlögu. Að mínu viti er sá mótþrói jafnvitlaus og jafnóverjandi og mótþróinn var 9. nóv. Þeir menn, sem réðu hér á landi árið 1932, hafa verið hundeltir og ofsóttir látlaust, og þetta mál var kannske álitið einhver feitasta kosningabeita þeirra, sem nú fara með völd. En nú spyr ég: Hvað hyggjast þeir sjálfir að gera? Ætlar það Alþingi, sem hefir samþ. hér löglega ákvörðun, að láta þurrka sig út? Ef ráðizt er á það af afli nokkru, hvernig ætlar það að verja sig? Ætlar það að taka einhverja lögreglu, sem á að berja á verkalýðnum, sem nú er óánægður með gerðir Alþingis? Ég hygg, að það fari svo, að hv. 9. landsk. og aðrir menn, sem digurbarkalegast tala um þessi mál, fái svo duglega húðstrýkingu, að þeir bíði hennar aldrei bætur.