12.03.1935
Neðri deild: 26. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í C-deild Alþingistíðinda. (3917)

66. mál, starfsmenn ríkisins og laun þeirra

Flm. (Jörundur Brynjólfsson) [óyfirl.]:

Þó að þetta mál sé allvíðtækt og segja mætti um það ýmislegt, þá man ég ekki að þessu sinni tala langt mál. Ég mun í flestum greinum skírskota til nál. þess, sem vitnað er til í grg. fyrir frv.

Eins og þál. sú, sem við í launamálan. áttum að starfa eftir, ber með sér, var tilætlunin m. a. sú, að við athuguðum fjárhagsástæður þjóðarinnar, eignir hennar og tekjur. Til þess að fá nokkurn grundvöll til að byggja á till. þær, sem við kynnum að gera um launamálin, var þetta í alla staði eðlilegt. En það var ekki svo auðvelt sem menn máske ætla, sökum þess, að í þessum greinum vantar mjög mikið á, að við hefðum í höndum nokkrar sérstakar skýrslur til þess að byggja slíka athugun á. N. varð því að þreifa sig áfram í þessu efni og geta sér til um ýmsa liði, sem miklu æskilegra hefði verið að hafa um nákvæmar skýrslur. Athuganir n., og tilgátur í þeim atriðum, sem hún hefir ekki getað aflað skýrslna um, liggja fyrir í nál. hennar, sem þegar er prentað. Menn geta nokkuð, eftir þeim gögnum, sem birt eru í því nál., skapað sér skoðanir um það, hversu nærri muni láta niðurstöður n.

Eftir því, sem við komumst næst, eru eignir þjóðarinnar rúml. 200 millj. kr. Um þetta verður vitanlega ekki sagt með neinni nákvæmni né vissu. En eftir þeim upplýsingum, sem við gátum fengið frá ýmsum góðum mönnum þar að lútandi, varð þessi niðurstaða n.

Ef fjárhagur okkar er borinn saman við fjárhag eða efni annara þjóða, t. d. okkar nágrannaþjóða, þá er það ljóst við skjóta athugun, að við höfum úr miklu minna að spila heldur en þær. En út í það atriði ætla ég ekki að fara nánar. Tel ég ekki, að það skipti mjög miklu máli, sízt á þessu stigi málsins, að rætt sé um það mikið.

Um tekjur þjóðarinnar er það sama að segja eins og um eignirnar, að það er ekki svo auðvelt að segja um það með neinni vissu, hve miklar þær eru frá ári til árs. Skýrslur þær, sem hagstofan hefir, skattskýrslurnar og önnur þesskonar plögg, sem í mörgum greinum gáfu mjög góðar upplýsingar, voru þó hvergi nærri fullnægjandi. Af þeim verður ekki ráðið með neinni nákvæmni, hve miklar tekjur þjóðarinnar eru. En eftir upplýsingum ýmsra þeirra manna, sem mikið fást við störf þessu efni viðkomandi, má þó fara allnærri um tekjurnar. Niðurstaða n. er þessi:

Árið 1929 mun hafa látið nærri, að tekjur þjóðarinnar hafi verið liðugar 96 millj. kr., árið 1930 98 millj., árið 1931 88 millj., árið 1932 87 millj. og árið 1933 um 90 millj. kr. Ég sleppi minni tölum, enda skipta þær ekki mjög máli.

Ef nú er athugað, hve miklar tekjur koma á hvern þegn þjóðfélagsins, þá verða þær fyrrgreind ár þessar:

Árið 1929 verða meðaltekjur hvers þjóðfélagsþegns 909 kr., árið 1930 907 kr., árið 1931 809 kr., árið 1932 783 kr. og árið 1933 um 800 kr.

Þessi niðurstaða n. hygg ég, að sé ekki fjarri því raunverulega.

Ef nú litið er á tekjur ríkissjóðs sjálfs, þá hafa þær, eins og menn vita, verið mismunandi. Hv. þdm. er það mál svo kunnugt, að ég fer ekki að rekja það nú. Þær tekjur eru mismunandi frá ári til árs, eins og gefur að skilja, þegar þess er gætt, að mjög mikils af tekjum ríkissjóðs er aflað með þeim hætti, að um upphæð þeirra fer mjög mikið eftir árferði og öðru þesskonar, svo sem viðskiptum þjóðarinnar og afstöðu við aðrar þjóðir o. s. frv. En ef litið er á starfsmannahald og launagreiðslur þær, sem ríkið verður að annast, þá er það ljóst, að mjög mikill hluti af tekjum ríkissjóðs á hverju ári gengur til launagreiðslna. Eftir þeim skýrslum, sem birtar eru í nál., eru það liðugar 41/2 millj. kr., sem ríkið greiðir sem laun beint til starfsmanna sinna, ef miðað er við árið 1933. Ef stofnanir, sem ríkið styrkir, svo sem Búnaðarfélag Íslands, Fiskifélagið og bankarnir, eru teknar með, þá verða þessar launagreiðslur hátt á 6. millj. kr. Í þessari upphæð er þó ekki falið mjög mikið af greiðslum, sem hið opinbera verður þó að inna af hendi. Að sjálfsögðu eru ekki þarna meðtaldar kaupgreiðslur, sem gengu til verkamanna við vega- og brúargerðir og símalagningar, nema yfirmannanna við þau störf. Þá eru og ekki heldur taldar með kaupgreiðslur við ýms fyrirtæki ríkissjóðs, svo sem kaup verkamanna við áfengisverzlun ríkisins, prentara í ríkisprentsmiðjunni Gutenberg, háseta á skipum ríkissjóðs, verkamanna á búum ríkisins og vitavarða. Laun engra þessara manna eru tekin með inn á þessar skýrslur. En það mun ekki láta fjarri, að ef kaupgreiðslur vegna þessara starfsgreina eru taldar með, þá verði launa- og kaupgreiðslur ríkissjóðs árið 1933 samtals hátt á 7. millj. kr. Þó að ekki séu með taldar þessar síðast töldu greiðslur, heldur aðeins þær, sem beinlínis verða að teljast nauðsynlegar vegna þeirrar starfsemi, sem hann hefir með höndum, þá fer samt í þær upphæð, sem eins og menn af þessum tölum sjá, augsýnilega er mjög mikill hluti af tekjum ríkissjóðs. Og sérstaklega verður upphæðin há, þegar taldir eru með vextir og afborganir af skuldum ríkissjóðs. Ég býst því við, að þessar launagreiðslur einar, sem taldar eru í skýrslum þeim, sem birtast í nál., ásamt vöxtum og afborgunum af skuldun ríkissjóðs, muni vera liðugar 7 millj. kr. Af þessu geta menn þá séð, hve mikið af tekjum ríkissjóðs er þannig algerlega bundið og að ekki er hægt að breyta þannig löggjöfinni, að hægt sé að sleppa við þessar greiðslur nema að nokkru leyti. Þegar n. hafði gert sínar athuganir, þá var henni það ljóst, að ef um sparnað ætti að vera að ræða eins og fyrir er mælt í þessari þál., sem n. starfaði eftir, þá væri tæplega hægt að hugsa sér að koma honum til framkvæmda án þess að draga að meira eða minna leyti, eftir því sem frekast er fært, úr starfsmannahaldi ríkissjóðs.

Launagreiðslur ríkissjóðs til einstakra manna hafa vissulega yfirleitt ekki verið of háar. Hinsvegar get ég fúslega látið það í ljós, að nokkrir af starfsmönnum ríkisins hafa haft óþarflega há laun, ef litið er á getu þjóðarinnar til þess að standa straum af líkum greiðslum, og ef litið er á hagsmuni mikils meiri hl. starfsmanna hins opinbera. En þrátt fyrir það, þótt finna megi einstök dæmi um of háar launagreiðslur til einstakra starfsmanna hins opinbera, miðað við aðra slíka starfsmenn, og þó að því yrði kippt í lag, þá er ekki hægt að koma fram neinum verulegum sparnaði með því móti einu. Til þess þarf að leita annara ráða. Við vildum gjarnan verða við þeim óskum, sem komu fram frá þeim, sem þáltill. fluttu, og ummælum, sem um það mál féllu á Alþ., eftir því sem við álitum frekast fært. Hvernig okkur kann að hafa tekizt að sníða okkar till. með þetta fyrir augum, verður hv. Alþ., það er nú situr, að dæma um. Okkur virtist ljóst, að alls ekki væri hægt að ná því marki, að stofna til verulegs sparnaðar á ríkisfé í launagreiðslum hins opinbera, nema með því að lækka verulega tölu þeirra manna, sem vinna í þágu hins opinbera, frá því, sem nú er. Því fylgir að vísu það, að sá sparnaður, sem af slíkri starfsmannafækkun leiðir, getur ekki komið allt í einu. Hann kemur ekki nema smám saman, nema hæstv. Alþ. kjósi að gerast svo róttækt að segja upp starfsmönnum sínum og taka þann kost að greiða þeim laun í nokkur ár, eins og lög standa til, til þess að flýta fyrir starfsmannafækkuninni. Af hálfu n. kemur engin till. fram í þessu efni. En ef Alþ. vill það heldur en að fallast á till. n., að eftir því sem menn láta af starfi eigi að fækka starfsmönnunum, þá mun það koma í ljós.

Þær stéttir sérstaklega, sem n. gerir till. um, að fækkað verði í, eru kennarar og prestar, og a. n. l. sýslumenn. En sýslumannastéttin er svo fámenn stétt, að vitaskuld er ekki um mikla starfsmannafækkun að ræða þar.

n. gerir ekki till. um fækkun í fleiri starfsgreinum, stafar af því, að gögn þau, sem hún gat kynnt sér nógu rækilega, benda á það, að ekki er svo auðvelt að koma fækkuninni við. N. er t. d. ekki svo kunnug vinnubrögðum í skrifstofum hins opinbera, að hún treysti sér til að gera till. um starfsmannafækkun þar. Til þess hefði n. þurft að hafa minnst einu missiri lengri starfstíma, þar sem enginn okkar nm. hafði kunnugleika í því efni. Ég býst við, að með góðum vilja megi eitthvað draga úr skrifstofukostnaði hins opinbera, nokkuð máske fyrir þá sök, að starfsmenn í þessum skrifstofum flestir hafa haft óeðlilega skamman vinnutíma á degi hverjum. Ef til vill mætti einnig draga úr skrifstofukostnaðinum með því að gera hann einfaldari. Um þetta þori ég þó ekki að fullyrða, vegna þess að ég tel mig ekki hafa til þess nógan kunnugleika í þessu efni. En eftir því sem ráða má af þeirri starfstilhögun og sérstaklega þeim vinnutíma, sem tíðkast í þessum skrifstofum, virðist mega ætla, að með öðruvísi vinnubrögðum og lengri starfstíma daglega megi minnka kostnaðinn, án þess þó að gera starfstímann óeðlilega langan.

Ef að framkvæmd verða sparnaðartill. okkar nm., sem ráðgerðar eru á þann hátt að fækka embættismönnum, þá kemur vitanlega ekki með þeirri breyt. til greina sparnaður, sem svarar allri upphæð launa þeirra, sem gengið hefðu til þeirra embætta, sem lögð eru niður, því að gert er ráð fyrir því í till. n., að laun embættismanna í þessum stéttum verði, um leið og fækkað er í stéttunum, hækkuð allverulega frá því, sem áður var. Vil ég í því sambandi nefna til dæmis prestastéttina. Tilætlun okkar nm. er sú, að þegar þessari fækkun verður komið á, þá fái prestar svo góð laun, að þeir geti gefið sig algerlega óskiptir við sinn starfi. Við teljum, að möguleikar þessarar stéttar til að viðhalda og glæða kirkju- og trúarlíf í landinn yrðu á engan hátt rýrðir, þó að þessi fækkun yrði framkvæmd. Það varðar mestu í þessu tilliti, að prestastéttin geti gefið sig óskipt við starfi sínu. Vil ég í því sambandi benda á það, að prestum er nauðsynlegt að geta veitt sér talsvert miklu meiri bókakost en þeir hafa haft hingað til. Eins og kunnugt er, hefir orð verið á því gert, hversu illa launuð prestastéttin er, svo illa launuð, að hún gæti ekki gefið sig óskipt við störfum sínum og væri ókleift að afla sér þess bókakosts, sem nauðsynlegur er vegna starfs prestanna og til þess að þeir geti haldið sér í nægilega vakandi sambandi við hið andlega líf í kringum þá. Ég ætla, að samkv. till. okkar í þessu efni, svo fremi sem á þær verður fallizt, verði þessari stétt kleift að, rækja starf sitt vel af hendi, hvað launin snertir, og verði mögulegt að afla sér þeirra bókmennta, sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi hennar.

Að því er hag alþýðukennarastéttarinnar snertir, vil ég taka það fram, að hún hefir átt við frekar þröngan kost að búa, svo sem kunnugt er, frá fyrstu tímum. Þetta er sú stétt, sem af opinberum starfsmönnum er tvímælalaust einna þýðingarmest. Það er nauðsynlegt, að alþýðukennarastéttin í hverju landi sé sem bezt menntuð og mönnuð. Engu ríður nokkru þjóðfélagi jafnmikið á eins og því, að uppvaxandi kynslóð njóti sem beztrar umönnunar og leiðbeiningar á æskuárunum. Það er þannig hjá oss eins og mörgum öðrum þjóðum, að heimilin geta ekki nema að litlu leyti rækt þetta starf, hversu æskilegt sem það annars væri. Kennarastéttin verður því að hafa þetta starf með höndum; hún annast því uppeldi æskulýðsins að mjög miklu leyti, og er því nauðsynlegt, að þessi stétt sé mjög vel mönnuð og menntuð, til þess að hún geti rækt starf sitt eins vel og ýtarlega og foreldrarnir í landinu eiga heimtingu á. Það þýðir ekki að gera kröfu til þessarar stéttar um rækilegan undirbúning og góða menntun og að hún geti gefið sig óskipt við starfi sínu, nema hún eigi við lífvænleg bjargráð að búa og þurfi ekki að gefa sig við allskonar aukastörfum til þess að afla sér lífsviðurværis. Launamálanefnd leggur til í till. sínum, að kaup alþýðukennarastéttarinnar í landinu verði hækkað að verulegu leyti frá því, sem áður var. Í till. sínum þessu viðvíkjandi gerir n. einnig meiri jöfnuð á launagreiðslum af hálfu ríkisins til menningarmála barna í landinu, meira jafnræði milli einstakra héraða í þessu efni heldur en áður var.

Því fer vitaskuld fjarri, að ríkissjóður spari á þessum till. n., enda er það ekki meiningin, að með þessum till. eigi fyrst og fremst að hugsa um sparnaðinn einn. Það verður vitaskuld að taka tillit til þess, sem bezt hentar þjóðfélaginn og sér bezt borgið afkomu þess, ekki aðeins í etnalegum skilningi, heldur einnig á andlega sviðinu. Fjárframlög ríkissjóðs til barnafræðslunnar í landinu hækka því um 90 þús. kr., þrátt fyrir fækkun kennara. Eftir till. okkar er gert ráð fyrir því, að hægt muni verða að fækka kennarastéttinni um hálft annað hundrað. Sú fækkun getur ekki orðið allt í einu, en fljótlega, a. m. k. að allverulegu leyti, ef breyting verður gerð á fræðslufyrirkomulaginu þannig, að skólahéruðin stækki, og horfið verður frá því að hafa hvern hrepp á landinu eitt skólahérað, en í þess stað verður tekin upp sú skipting, að hvert sýslufélag verði eitt skólahérað. Samkv. frv. því, sem hér liggur fyrir, stendur sýslunum opin leið, ef þær óska, til þess að sameinast, tvær eða fleiri, í eitt skólahérað, ef það þætti betur henta.

Því hefir stundum verið hreyft, að það væri nærri broslegt hjá okkur Íslendingum, að við hefðum þrjá banka, alla sjálfstæða, sinn í hverju húsi, og 9 bankastjóra. Vissulega getur þetta til sanns vegar færzt, ef litið er til samanburðar á viðskiptaveltu annara þjóða og stofnanir þeirra. Ég býst við, að í þessu efni mætti koma á verulegum sparnaði, ef breytingar yrðu gerðar á fyrirkomulagi þessara stofnana, t. d. með því móti, að þær sameinuðust að einhverju leyti og fækkað yrði dýrum starfsmönnum við þær.

N. sá sér ekki fært að gera till. í þessu efni, því að ég þykist þess viss, að það sé ekki á annara færi en þeirra manna, sem lengi hafa starfað í bönkum og vita náin deili á allri þeirri starfsemi, sem þær stofnanir hafa með höndum. Þegar að því kom að gera till. um launakjör starfsmanna ríkisins, þá getur að skilja, að þar sem 5 menn fjölluðu um málið, eru þær till., sem birtast í launafrv. því, sem hér liggur fyrir, að miklu leyti samkomulag. Enginn einstakur nm. getur látið sínar eigin till. í þessu efni vera gildandi, eins og getur að skilja. Það var hliðrað til með ýmsu móti, eftir því sem skoðanir manna stóðu til, og árangurinn af þessu starfi n. og málsmeðferð hennar birtist í launamálafrv. Þegar til þess kom að ákvarða, hver laun starfsmanna ríkisins væru, hafði nefndin, áður en ákvörðunin var tekin, kynnt sér launakjör annara stétta þjóðfélagsins. Samkv. þeim athugunum, sem n. gerði í þeim efnum, virtist henni meðaltal launa fólks, sem að framleiðslu vinnur, vera svo sem hér segir árið 1933:

Karlar konur

Við iðnað . . . . . . 2100- 2400 kr. 1400-1600 kr.

- sjávarútveg .. ..1800- 2100- 1200-1400-

- landbúnað .. ….1400-1600- 1000-1100-

Hjá verzlunarstéttinni gerði n. að vísu nokkrar athuganir, en þær skýrslur, sem henni bárust frá einkafyrirtækjum, voru svo fáar, að n. treysti sér ekki til þess að fá áreiðanlegar niðurstöður í þeim efnum og sleppti því að leiða nokkrar getur að því, hverjar meðaltekjur verzlunarstéttarinnar væru. En samkv. þeim upplýsingum, sem n. aflaði sér í þessu efni, þótti henni sýnt, að launagreiðslur hjá þessari stétt væru hærri en hjá öðrum stéttum. Ef teknar eru aftur til samanburðar launagreiðslur hjá starfsmönnum ríkisins, þá sýnir það sig, að þær eru að meðaltali nokkru hærri heldur en hjá öðrum stéttum. Við þessum athugunum loknum, samdi n. till. sínar um launagreiðslur. Það er ekki í mjög mörgum starfsgreinum, sem n. hefir gert till. um hærri laun heldur en áður tíðkaðist. N. þótti sýnt, að samtímis því, sem ný launalög yrðu sett, yrði nauðsynlegt að gera nokkra breyt. á starfsháttum opinberra stofnana. Þannig er vinnutíminn t. d. í sumum skrifstofum frá 4-5 klst. og upp í 8 eða jafnvel á 9. klst. Þetta ósamræmi í vinnubrögðum og lág laun hjá einstökum starfsmönnum, sem hvorttveggja hefir eðlilega skapað bæði misrétti og óheilbrigði í starfsháttum þessara manna, þótti n. ekki tiltækilegt, og þess vegna gerði hún till. um, að vinnutími í skrifstofum verði fastákveðinn sem næst 7-8 klst. vera má, að mönnum finnist þetta nokkuð stuttur tími. Það kann og að vera, að hann sé í einhverju tilliti fulllangur, en eftir því, sem til hagar hjá okkur, og eftir því, sem vinnandi stéttir þjóðfélagsins verða að leggja á sig, ekki aðeins hvað snertir vinnutíma eða vinnulengd, heldur einnig erfiðismuni, þá held ég, að ekki sé unnt að finna að því með nokkurri sanngirni, að vinnutími sá, sem ætlaður er starfsmönnum þess opinbera, sé of langur. Ég get sagt það fyrir mitt leyti, að ég geri ekki ráð fyrir, að hægt verði að lengja vinnutímann mikið frá því, sem n. gerði till. um.

Þá vil ég minnast nokkrum orðum á lögin um ráðningu opinberra starfsmanna. Eftir því, sem mér hefir skilizt á ýmsum þeirra, skoða þeir sig hafa fengið starf sitt með þeim skilmálum, að þeir ættu rétt á launum um 5 ára skeið eftir að starfið væri lagt niður eða ef þeim væri sagt upp án nægilegra ástæðna. Þetta þótti n. óráðlegt, ekki sízt á þeim tímum, sem nú standa yfir, þegar allt virðist vera á hverfanda hveli. Fyrir þá sök setti n. það ákvæði í frv., að ef það opinbera þurfi ekki að sitja lengur með opinbera starfsmenn, þá geti það sagt þeim upp starfi þeirra með árs fyrirvara, og skuli þeir aðeins hafa laun í eitt ár frá því að þeim barst tilkynning um uppsögn starfsins eða að það yrði lagt niður. Það leiðir af sjálfu sér, að þar sem um jafnfjölmenna starfsmenn er að ræða eins og alla starfsmenn þess opinbera, sem leysa af hendi margþætta starfsemi í margvíslegum starfsgreinum, þá getur það verið breytingum háð á ýmsum tímum, hve mörgum starfsmönnum það opinbera þurfi á að halda. Það mun og vera hyggilegt, að eitthvert eftirlit sé með starfsháttum þessum meira en eftirlit það, sem yfirmenn einstakra stofnana eða stjórn landsins getur við komið. Í þessu skyni leggur n. til, að tekinn verði upp vinnudómur, sem 3 menn störfuðu í, þ. e. sérstakur embættismaður, sem við köllum eftirlitsmann ríkisins með vinnubrögðum í stofnunum þess, þá starfsmaður úr þeirri deild ráðuneytisins, sem stofnun sú, sem hlut á að máli, heyrir undir, og loks yfirmaður hlutaðeigandi stofnunar. Þessum þrem mönnum skal falið að hafa yfirumsjón með ýmsum málefnum, sem fram kunna að koma í stofnunum þessum og snerta starfsemi þeirra. Hjá erlendum þjóðum hefir sérstök n. þau málefni, sem hér um ræðir, með höndum, og nefnist hún launamálanefnd á Norðurlöndum. Starfar hún meira og minna allt árið. Engin starfsemi er tekin upp án þess að þessi n. sé spurð ráða og leitað sé til þingsins, ef um einhverja fjölgun fastra starfsmanna í þjónustu þess opinbera er að ræða. N. leit svo á, að við Íslendingar værum svo fáir og fátækir, að við værum þess ekki megnugir að koma á fót slíku bákni, heldur yrðum við að láta okkur nægja að hafa þetta í smáum stíl, en reyndum aftur á móti að gera fyrirkomulagið í þessu efni þannig, að nokkurt öryggi og trygging fengist fyrir því, að starfsemi sú, sem um er að ræða, sé vel af hendi leyst og útrýmt verði óþarfa mannahaldi, sem n. leggur nú til, að gert verði.

Ég ætla ekki að vera fjölorður um launaákvæði þessa frv. Ég álit það í alla staði rétt á þessu stigi málsins, að fara ekki langt út í það atriði að svo stöddu. Frv. ber greinilega með sér. hvað við ætlum hverjum einum. Ég get sagt það í fáum orðum, að till. okkar um laun til embættismanna eru við það miðaðar, hvernig ástatt er um afkomumöguleika manna, og við það, hvað til þess þarf að bjargast af og lifa hér í Reykjavík.

Við föllum frá þeirri venju, sem tíðkazt hefir hér og reyndar hjá öllum þjóðum, að menn fái ekki fullkomin laun til að byrja með. Við gerum að vísu ráð fyrir því, að hver starfsmaður sé settur eitt ár og fái þann tíma 3/4 launa, en að því ári liðnu, þegar honum verður veitt starfið, þá fái hann sín fullu laun. Aðeins við eina starfsgrein er gert ráð fyrir aldursuppbót eða aldurshækkun, hjá mönnum, sem starfa við símann, sökum þess að það hefir tekið nokkra af starfsmönnum símans langan tíma að setja sig inn í starfið, svo að þeir gætu afkastað meira en óvanir menn. Þess vegna gerum við ráð fyrir, að einmitt þessir starfsmenn fái aldursuppbót. Við nærri allar aðrar stofnanir fá menn full laun strax. Ég hygg, að það sé heppilegra fyrirkomulag. Þegar ungir menn koma til starfs frá námsárunum, ekki sízt þeir, sem orðið hafa að ganga langa námsbraut og lagt hafa mikið fé í kostnað við námið og koma skuldum hlaðnir til starfsins, þá er óheppilegt, að þeir skuli eiga fyrir höndum að taka við starfi, sem þeir verða að lifa á í mörg ár og fá sveltilaun fyrir. Fyrr en varir stofna þeir til heimilis og hafa því fulla þörf fyrir fjármuni. Þess vegna er það í alla staði byggilegt, að þeir fái full laun strax og geti losnað við skuldabagga þann og kvaðir, sem hlaðizt hafa á herðar þeirra á námsárunum, svo að þeir eigi auðveldara með að njóta sín enn betur við starfið.

Ég get búizt við því, að sumir telji, að till. okkar í ýmsum efnum gangi of skammt að því er launaupphæðina snertir, en ég verð að segja það sem mína skoðun, að ég hygg, að sé litið á fjárhagsgetu þjóðarinnar, efni og tekjur, og ekki sízt, ef litið er á afkomumöguleika alls þorra manna í landinu, þá megi launin sízt hærri vera, víðast hvar. Að vísu staðhæfi ég ekki, að við höfum í þessum till. hitt á það réttasta, sem hægt var að gera. Ég veit vel, að þessari smíði okkar er í ýmsum efnum meira og minna ábótavant, og vona ég, að hv. þm. geri sitt bezta til þess að bæta um þá hluti. En í því aðalefni, hvað kauphæðina snertir þá hygg ég sízt unnt að fara lengra í öllum höfuðatriðum. Eftir afkomumöguleikum þjóðarinnar að dæma, get ég frekar búizt við, að þörf væri fyrir lækkun á henni heldur en hækkun. Þó veit ég, að þeir menn, ekki sízt, sem stærðar fjölskyldur hafa, verða sízt ofhaldnir samkv. till. þeirri, sem við höfum gert, en nokkur bót hygg ég þó í þessu efni, að sá nýi sjóður, sem við höfum lagt til, að stofnaður verði, framfærslusjóðurinn svo nefndi, geti orðið þessum mönnum. Það er nýmæli í okkar löggjöf, að starfsmenn þess opinbera leggi af mörkum fé af launum sínum og gjaldi í slíkan sjóð. Það er að vísu vitanlegt, að þeir, sem ekki hafa fyrir neinum skylduómögum að sjá, telja sér ekki skylt að leggja fram fjármuni í þessu skyni, en réttmæti þessa máls er svo mikið, að ég tel ekki hægt að hlusta á slíkar raddir. Þjóðfélagið varðar áreiðanlega langmest um, hvernig kjör hin uppvaxandi kynslóð á að búa við. Þjóðfél. ber skylda til þess fyrst og fremst að láta sig mestu skipta, hvernig fer um uppeldi barnanna, ekki aðeins andlegan þroska og tilsögn barnanna, þegar þau koma á námsárin, heldur ber því einnig að sjá um, að líkamsuppeldi þeirra sé sem bezt og að þau fái sem mesta aðhlynningu, svo að þau geti fyrir þá sök náð sem fyllstum þroska. Það skerðir vitanlega nokkuð launagreiðslur hjá einstökum starfsmönnum að þurfa að greiða tillög til þessa sjóðs, þar sem gert er ráð fyrir, að 8% renni í framfærslusjóð og 7% í lífeyrissjóð, en ég vorkenni ekki þeim, sem hafa léttum hala að veifa, ekki sízt ef tekið er tillit til þeirrar launahæðar, sem við leggjum til, að þeim verði greidd. Það er tvímælalaust miklu hyggilegra og skynsamlegra fyrir þjóðfélagið að viðhafa þessa tilhögun á launagreiðslum heldur en að vera að pressast við að greiða öllum jafnt, hvort sem þeir þurfa á peningunum að halda eða ekki, og með því móti er að fullu séð fyrir því, að þeir, sem hafa þungar fjölskyldur, hafi nóg fyrir sig og sína að leggja. Í þessu sambandi vil ég á það minnast, að við gerum ráð fyrir því, að svo kunni að fara, að launin hreyfist það mikið eða verðlagið, og ef til vill gildi peninganna breytist það mikið í landinu, að þessi laun verði ófullnægjandi, ef til vill of há og líka ef til vill of lág. Fyrir þá sök gerðum við ráð fyrir, að hagstofan hefði það með höndum að athuga, hvaða breytingum verðlag og gildi peninga kann að taka, og í því efni skuli miðað við árið 1933. Ef tilfærslan verður það mikil, að breytingin verður um 5% eða meiri, þá gerum við ráð fyrir, að launin hækki eða lækki að sama skapi, eftir því sem vísitala hagstofunnar sýnir. Tveir nm. í launamálanefnd hafa gert ágreining um þetta atriði. Þeim þótti ekki nægilega fyrir því séð, að till. þær, sem meiri hl. n. hefir gert í þessu efni, fullnægi launamönnum hér í Rvík. Þeir leggja til, að staðaruppbót verði tekin upp í þessu sambandi og gera ráð fyrir því í sínum till., að hún kunni að geta farið upp í 20%. Á það að koma til viðbótar við laun þeirra. Meiri hl. n. er algerlega andvígur slíkum ráðstöfunum. Fyrst og fremst fyrir þá sök, að við þykjumst hafa sniðið launatill. okkar þannig, að miðað væri við þarfir manna í Rvík, og í annan stað við framfærslusjóðinn, ef menn hafa þungt heimili, sem léttir svo mikið fyrir mönnum, að það ætti að vera mögulegt fyrir þá að bjargast fyrir þá sök. Í þessu sambandi vil ég skírskota til annara þjóða. Það er að vísu rétt, að Danir hafa staðaruppbót, sem er mismunandi, eftir því hvað dýrt er að lifa á ýmsum stöðum landsins. Svíar hafa uppbót á sínum launum, en með öðrum hætti en hjá Dönum. Þeir greiða sem sé þessa uppbót til þeirra manna ekki sízt, sem búa í fjarlægum héruðum, þar sem mestum erfiðleikum er bundið að fá menn til starfans. Nú er það kunnugt, að flestir æskja eftir því að búa í Rvík, jafnt þeir, sem vinna hjá því opinbera, sem ýmsir aðrir. Það er í mesta máta ranglátt og óhyggilegt að sníða launakjör með það fyrir augum, að hætta sé á því, að þessir kapphlaupsmenn vilji hvergi annarsstaðar búa en hér í Rvík. Að vísu má á það benda, að það sé óneitanlega miklu dýrara að búa hér í Rvík heldur en víðast hvar hér á landi annarsstaðar, en þegar á það er litið, að menn úti á landi, víðast hvar, eiga ekki kost á að njóta þeirra þæginda og þeirrar dýrðar, sem gerir lifið í Rvík svo dýrt, þá er ekki nema sanngjarnt, að þeir, sem njóta þessara þæginda, borgi eitthvað fyrir það.

Einn af hv. meðnm. okkar, Arnór Sigurjónsson, hefir gert ágreining um verðstuðulsuppbótina, og vill hann leggja hana til grundvallar, en við meiri hl. n. höfum gert ráð fyrir því í þessu sambandi, að það verði nokkuð svipað fyrirkomulag í þessu efni og tíðkast um þá athugun, sem fram fer í sambandi við dýrtíðina í landinu, sem sé, að litið verði á verðlagninguna á ýmsum lífsnauðsynjum manna, og það verði svo fært til peningaverðs. Hinsvegar vill hann og hefði kosið, að launakjör starfsmanna ríkisins væru miðuð við verðlag á innlendum afurðum á hverjum tíma, og það látið ráða. En þótt meiri hl. n. hefði talið þetta æskilegt, þá álítur hann, að þetta yrði svo torvelt í framkvæmd, að lítt mögulegt sé að ákveða launin á þennan hátt. Einkum yrði slíkt erfitt eða jafnvel ómögulegt á slíkum tímum sem þessum, þegar allt verðlag er háð svo miklum breytingum, að vart er hægt að sjá það fyrir til næsta dags.

Eitt af verkefnum n. var það, að samræma launakjör starfsmanna í landinu yfirleitt. N. hefir í samræmi við þetta borið fram tillögur um að samræma laun starfsmanna Búnaðarfél. Íslands, Fiskifél. og bankanna við laun starfsmanna ríkisins. En þótt hægt sé að ná slíku samræmi, skortir þó mikið á, að fullu samræmi og jöfnuði hafi verið náð. Það virðist, sem mjög erfitt muni vera að ná til einkafyrirtækja í þessum efnum, enda voru slík afskipti litin misjöfnum augum í n. Hún gerir því engar till. um íhlutun hins opinbera um laun starfsmanna hjá einkafyrirtækjum. Þó tel ég, að ekki sé viðunandi, að ekki sé á einhvern hátt séð fyrir jöfnuði og samræmingu í launakjörum á sviði einkarekstrarins einnig, t. d. með nýrri skattalöggjöf, sem hafi áhrif í þá átt, þótt hætt sé við, að slík löggjöf yrði torveld í framkvæmd. Að vísu gæti hún náð réttilega til sumra, en verið um of harðhent á öðrum. Ég mun sem einstaklingur bera fram frv. um þetta efni, þar sem reynt verður að hafa áhrif á launagreiðslur hjá einstökum fyrirtækjum.

Ég býst við, að þetta þyki mikilsvert mál, svo mjög sem það tekur til afkomu ríkissjóðs og fjölmargra einstaklinga í senn. Það er því vel þess vert, að það fái rækilega athugun, og ég kviði því ekki heldur, að hv. þm. ljái því ekki nauðsynlegt liðsinni. Þjóðin vill réttlæti og samræmi í þessu máli, og hún á kröfur til þess.

Þótt sumum kunni að finnast, að launamálanefnd hafi um of numið við nögl sér laun til hinna ýmsu starfsmanna, finnst mér samt, þegar litið er á afkomumöguleika þjóðarinnar í heild, að fremur hefði mátt ganga lengra en skemmra til jafnaðar og samræmis. Því aðeins getur sátt og samlyndi og ánægja ríkt meðal þjóðarinnar, að nokkurt hóf og jöfnuður sé á lífskjörum einstaklinga hennar. - Ég legg að lokum til, að frv. verði vísað til fjhn. að þessari umr. lokinni. Nokkrir hv. þm. hafa óskað þess, að ekki færi fram atkvgr. í dag, og yrði skipuð sérstök n. í málið. Ef úr því verður, tel ég heppilegast, að flokkarnir ráði ráðum sínum í þeim efnum.