21.12.1935
Sameinað þing: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

137. mál, fjáraukalög 1933

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að bæta á þá ofanígjöf, sem hv. 9. landsk. hefir fengið hér að maklegleikum. Ég ætla aðeins að gera samanburð á því, sem nú er að ske, og því, sem skeði 9. nóv. 1932. Hæstv. forsrh. sagði, að það, sem nú væri að ske, væri aðeins uppreisn. En það lá a. m. k. í orðunum — ég man ekki, hvort hann sagði það beinlínis —, að 9. nóv. 1932 hefði verið um vinnudeilu að ræða. Þetta er fullkomlega rangt. Það var ekki vinnudeila, það var heldur ekki venjulegt verkfall; það var aðeins aðför að bæjarstjórn Reykjavíkur. Munurinn á þessari uppreisn 9. nóv. og nú er þess vegna ekki annar en sá, að bílstjórarnir hafa lagt niður vinnu, en hinsvegar enga tilraun gert til þess að beita hinn aðilann, sem er Alþingi, og hæstv. ríkisstj., neinu ofbeldi til þess að koma sínu máli fram. En vilji menn hinsvegar líta á málin frá sjónarmiði verkamanna, þá verður ákaflega líkt upp á teningnum 9. nóv. og nú. Það er rétt, að bæjarstj. hafði ákveðið fyrir 9. nóv. að lækka kaupið í atvinnubótavinnunni vegna þess að hún hafði ekki fé til þess að standa straum af kostnaðinum við vinnu með svo mörgum mönnum til ársloka, en hinsvegar hafði hún gert tilraun til þess að afla fjár í þessu skyni, og gerði hún skýra grein fyrir því á fundinum 9. nóv. Það var bæði reynt að fá lán í bönkunum, sem gáfu afsvar, og eins var leitað til ríkisstj. án árangurs. Þessi kaupgjaldslækkun var því bein afleiðing af því, að bæjarstj. hafði ekki fé. En hvað hefir nú skeð? Það, að Alþingi hefir aukið benzínskattinn um 4 aura á lítra, sem er samkv. upplýsingum hv. 2. þm. Reykv. frá 1930 sama sem 8 aura hækkun á verði benzínsins. (ÓTh: Hann sagði, að það væri sama og 8 aura skattur á landsmönnum; þar af kæmi nokkuð niður á bílaeigendum og nokkuð á bílstjórum). Það er gott, að ég hefi dálítið upp á að hlaupa, því að ég ætla að halda samanburðinum áfram. Hvaða þýðingu hefir þá þessi tollhækkun? Ef við höldum okkur t. d. við 6 aura hækkun og gerum ráð fyrir, að bíllinn noti 50 lítra á dag, þá nemur þessi hækkun 3 kr. á dag. (Hv: Bíllinn eyðir alls ekki 50 lítrum á dag). Jú, samkv. upplýsingum, sem ég hefi fengið. (HV: Hann eyðir 30 lítrum). Það er náttúrlega mismunandi; nýir bílar eyða t. d. minna, en við vitum, að fjöldinn af þessum bílum eru gamlir skrjóðar, sem eyða miklu benzíni. (Hv: Þeir eyða að jafnaði 30 lítrum á dag). 6 aura hækkun nemur því 3 kr. á dag, eins og ég sagði. Hvar eiga bílstjórar að taka það? Þeir geta hvergi tekið það annarsstaðar en af kaupi sínu. Kaup þeirra lækkar því um 3 kr. á dag. Þess vegna er nákvæmlega eins ástatt í þessu efn: nú eins og 9. nóv. 1932. (Hv: Með þessum rökum má alveg eins segja, að verðlækkunin verði hjá benzínsölunum). En þeir taka þessa peninga aftur af þeim, sem kaupa benzín af þeim, og eftir því, sem hv. þm. sagði 1930, taka þeir það ríflegan skatt af þeim, sem kaupa benzínið, að þeir skaðast ekkert sjálfir. Þetta lendir aftur á móti á bílstjórunum, því að þeir geta ekki hækkað kaupið. Það er því um verulega lækkun að ræða á kaupi bístjóranna nú, eins og það var um lækkun að raða á kaupi verkamanna 1932, 50 aura lækkun í 6 tíma á dag í atvinnubótavinnunni nemur 3 kr. á dag, og 6 aura hækkun á 50 l. nemur líka 3 kr. á dag. Það er um kauplækkun að ræðu í háðum tilfellunum, og sú kauplækkun er mjög svipuð. Hver er þá munurinn á 9. nóv. 1932 og því, sem skeður nú? Ég get ekki komið auga á hann. Sósíalistar hafa haldið mikið upp á það slagorð, að það, sem beri að keppa að, sé að búa svo að verkalýðnum, að hann þurfi ekki að kvarta. Þeir sögðu, að bæjarstj. hefði brotið á móti þessu 9. nóv. 1932, en alveg á moli þessu sama brýtur hv. meiri hl. þingsins og hæstv. stj. með því að taka hluta af kaupi þessara verkamanna til þess að afla ríkissjóði tekna.

Þannig er enginn vafi á því, að sök hv. meiri hl. Alþ. og hæstv. stj. er nú í öllu eðli sínu nákvæmlega sú sama og sök bæjarstj. 9. nóv. 1932, ef þörfin fyrir að afla fjár hefir verið eins mikil nú eins og nauðsynin á því að lækka kaupið var 1932. Það er sannað, að bæjarstj. hafði ekki fé til þess að borga kaupið með, en er það sannað, að það hafi verið óhjákvæmileg nauðsyn fyrir þingið að hækka benzínskattinn eins og gert hefir verið? Mér skilst, að svo sé ekki, og þess vegna er sök þings og stj. nú gagnvart bílstjórunum þeim mun meiri en bæjarstj. gagnvart verkamönnum 1932.

Það hefir verið fundið að því, að ríkisstj. kom upp varalögreglu 1932, sem hæstv. forsrh. upplýsti nú, að ekki hafi í sjálfu sér verið gert eftir 9. nóv., heldur hafi verið búið að gera löngu áður, og get ég staðfest það með honum, því að mér er kunnugt um það, að þáv. lögreglustjóri hafði varalið, sem hann bauð út, þegar hann taldi þess þörf; og það, sem gert var eftir 9. nóv. í sambandi við lögreglustjóra, var því ekkert annað en stjórnarstaðfesting á því, sem hann hafði framkvæmt upp á eigin eindæmi. Þörfin fyrir þetta skapaðist, þegar meiri hl. af lögreglunni var barinn niður, þannig að hann lá í sárum, og bærinn var varnarlaus á eftir. Ég hygg, að það sé rétt hjá hv. 2. þm. Reykv., að ekkert hafi verið að óttast af hálfu almennra verkamanna 9. nóv., en það var áreiðanlega ástæða til þess að óttast aðgerðir þeirra manna, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að valdið hefðu skemmdarverkunum 9. nóv., því að bæði mér og honum er kunnugt um það, að í langan tíma eftir 9. nóv. var viss flokkur manna hér í bænum reiðubúinn til þess að halda þessum skemmdarverkum áfram, og hefði gert það, ef ekki hefði verið varalögregla við hendina.

Það var ekki haldinn neinn fundur hjá bæjarstj. fyrstu dagana eftir 9. nóv., því að það var viðbúið, að allstór hópur manna gerði aðsúg að bæjarstj. Þetta veit hv. þm. jafnvel og ég. (HV: Þetta er mesta vitleysa). Heldur hv. þm. að þeir, sem börðu niður lögregluna 9. nóv., hafi batnað mikið við þessi hryðjuverk? Hann viðurkenndi, að þessi hryðjuverk hefðu verið framan af hálfgerðum strákaskríl. Heldur hv. þm., að þessi strákalýður hafi bætt ráð sitt eftir 9. nóv.? Mig minnir, að það mætti lesa annað úr orðum hans.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að leiðrétta sögu hv. 2. þm. Reykv. um aðdraganda þess, að bæjarstj. Rvíkur ákvað að lækka kaupið í bæjarvinnunni. Það vita sjálfsagt allir, að það voru staðlausir stafir frá upphafi til enda, sem hann fór með. Mér er algerlega ókunnugt um nokkra ráðagerð þá um allsherjar kauplækkun, og þó svo hefði verið, þá stóð ákvörðun bæjarstj. Rvíkur ekkert í sambandi við neina slíka ráðagerð, enda hefi ég sýnt fram á það, að lækkun kaupsins átti sér fullkomnar ástæður í öðrum hlutum, sem sé þeim, að fé var ekki fyrir hendi. Það tókst fyrst að fá það fé eftir 9. nóv., og veit hv. 2. þm. Reykv. manna bezt um það, með hvaða hætti það var fengið.

Nú hefir það, sem gerðist 9. nóv., endurtekið sig mjög eftirminnilega. Alþingi staðfestir nú ákvarðanir bæjarstj. þá, og stj. kveður saman varalögreglu til þess að halda bilstjóraverkfallinu í skefjum. Stj. hefir því gert nákvæmlega hið sama nú og stj. gerði eftir 9. nóv. um árið, og það áður en nokkurt hryðjuverk er framið, án þess þeir, sem fyrir verkfallinu standa, hafi sýnt nokkrum manni líkamlegt ofbeldi. Það var því óheppilegt fyrir stjórnarflokkana, að hv. 9. landsk. skyldi halda þessa ræðu, um daginn, úr því þetta átti eftir að koma fram. Það var óheppilegt, að þessi þm. skyldi fara að álasa stj. fyrir ríkislögregluna á sínum tíma, og hv. 2. þm. Reykv. skuli nú fara að ráðast á einstaka menn í þeirri lögreglu, þar sem allir þessir sömu menn, að því er mér er sagt, eru nú kvaddir til aðstoðar af hæstv. stjórn. Meiri háðungarför get ég ekki hugsað mér en stjórnarinnar og stuðningsflokka hennar, þó einkum Alþýðufl., í þessu máli. Þeir bera það fyrir sig, að nú sé uppreisnin gerð gegn ríkisvaldinu. Það var að vísu ekki hið háa ríkisvald, sem uppreisnin var gerð gegn 1930, heldur bæjarstj. Rvíkur, en uppreisnarefnið var nákvæmlega sama eðlis. Það er gengið á hag verkamanna í báðum tilfellum, og það gerir sömu verkanir.

Ég gæti sagt miklu meira um skyldleika atburðanna 9. nóv. og þeirra, sem nú eru að gerast, en ég læt þetta nægja að sinni.