19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í C-deild Alþingistíðinda. (3927)

66. mál, starfsmenn ríkisins og laun þeirra

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég hafði orð á því, þegar þetta frv. var síðast rætt hér í d., að mér þætti launamn. hafa komizt helzt til skammt í áttina til þess að lækka heildarútgjöld ríkissjóðs með till. sínum. Hún átti vitanlega að leggja mesta áherzlu á það, samkvæmt fyrirmælum og anda þeirrar þáltill., sem lagði grundvöll að skipun n. Tilefni hennar var beinlínis það, að þingmönnum virtist svo, sem gjöldin til rekstrar ríkinu væru hreint og beint að vaxa þjóðinni yfir höfuð. Þetta var aðalástæðan til þess, að lögð var rík áherzla á það, að ekki drægist of lengi að undirbúa málið, svo að því yrði sem fyrst komið fram á Alþingi, að draga úr óþörfum launagreiðslum til starfsmanna ríkisins.

Hitt aðalatriðið var líka mikils um vert, að minnka eða jafna til fulls ósamræmið í launagreiðslum til opinberra starfsmanna, sem virðist hafa farið vaxandi frá ári til árs. Eins og kunnugt er, þá er nú svo komið, að þeir starfsmenn ríkisins, sem taka laun utan launalaga, hafa miklu hærri laun en hinir, sem fá laun sín greidd samkv. launalögum, auk þess sem ýmsir embættismenn fá viðbótargreiðslur fyrir aukastörf, sem í ýmsum tilfellum nema miklu meiru en föstu launin. Þetta var líka komið í svo miklar öfgar, að ekki var hjá því komizt, að gerðar yrðu breyt. á þessu. En aðalástæðan var þó sú, hversu mikið fé fór til þess að launa starfsmönnum ríkisins. Þó virðist mér eftir því sem þetta mál liggur nú fyrir, að það nemi a. m. k. um 350 þús. kr., sem laun til starfsmanna ríkisins eiga að hækka strax. Öll lækkun bíður seinni tíma, m. ö. o. að mestu leyti þangað til mannaskipti verða í stöðum, en hækkunin aftur á móti, sem nemur þessari upphæð, sem ég nefndi, á þegar að koma í framkvæmd. Það fyrsta, sem við því horfumst í augu við, ef þessar till. verða samþ. í því formi, sem þær eru nú, er það, að launagreiðslur vaxa allverulega frá því, sem nú er. En mér virðist, bæði með tilliti til þess, sem gerzt hefir að undanförnu, og þá ekki síður með tilliti til þess viðhorfs, sem nú er um tekjur þeirra, sem hafa lífsframfærslu sína af atvinnurekstri, að þarna sé mikið ósamræmi í till. n. Mér virðist vera mikið ósamræmi í þeim launagreiðslum, sem n. ætlar starfsmönnum ríkisins, og þeim tekjum, sem þeir, sem að framleiðslunni vinna, bera úr býtum eftir útreikningi n., og eru þær tekjur þó miðaðar við 1932, en allir vita, að síðan hefir komið allmikið verðfall. Ég skal t. d. í þessu sambandi benda á það, að eftir upplýsingum n. um tekjur þeirra, sem að framleiðslunni vinna, bæði til sjávar og sveita, þá hefir bóndi með 5 manna fjölskyldu haft hér um bil helmingi minni tekjur heldur en maður í launastétt, sem hefir miðlungstekjur. Ég býst við, að n. hafi gengið eins langt og hún gat í því að afla sér upplýsinga um þetta, og eftir því sem mér virðist um tekjur bæði bænda og þeirra manna, sem lifa af framleiðslu við sjóinn, þá hefir n. gert þeim fullkomlega þær tekjur, sem maður getur vænzt. Þá má ennfremur benda á það, að n. kemst að þeirri niðurstöðu um tekjur fullvinnandi karlmanna bæði til sjávar og sveita, sem að framleiðslunni vinna, að þeir hafi árlega 1250-1400 kr., og þeir nokkru meira, sem vinna að fiskveiðum og framleiðslu sjávarafurða, eða um 1600-1800 kr. Þegar maður gerir samanburð á þessu og launagreiðslum starfsmanna ríkisins, til fullvinnandi manna, þá hafa þessir menn, sem að framleiðslunni vinna, ekki nema tæplega 1/3 af þeim launum, sem n. ætlar mönnum, sem eru svona í miðlungslaunaflokki. Þarna virðist mér koma fram svo mikið ósamræmi, að það geti varla staðizt, því þessar rýru tekjur þeirra, sem að framleiðslunni vinna, eru vitanlega talandi tákn um það ástand, sem framleiðsla landsmanna er í, og þær erfiðu kringumstæður, sem þessir menn eiga við að búa, sem auðvitað bera uppi allan þjóðarbúskapinn. Það leiðir því af sjálfu sér, að það verða að vera einhver takmörk fyrir því, hvað stórt bil getur verið á milli tekna þeirra, sem vinna að framleiðslunni, og þeirra, sem ríkið og aðrir verða að greiða laun og sækja verða peninga í vasa þessara manna, sem að framleiðslunni vinna. En mér virðist, að það bil, sem þarna er á milli, sé óeðlilega mikið. Þá má ennfremur í þessu sambandi athuga þá starfsorku og vinnutíma, sem bændur og þeir, sem að framleiðslunni vinna, verða að leggja af mörkum til þess að ná þessum tekjum. Það er nú svo komið, að þeir, sem að landbúnaði vinna, verða með skylduliði sínu að vinna þetta frá 12-16 tíma á sólarhring til þess að afla þessara litlu tekna. Svo mikil fólksfæð er orðin í sveitum landsins. Vinnutíminn hjá þeim, sem við sjóinn vinna, er aftur meira upp og niður. En af þeim, sem taka laun hjá ríkinu, er ekki krafizt nema svona 5-6 tíma vinnudags, en eftir till. n. á hann að hækka nokkuð, allt upp í 9 tíma á sólarhring. Þar frá dregst náttúrlega matartími, eins og vitanlega hjá þeim, sem að framleiðslunni vinna. Það er því afarmikill munur á því, hvað þeir menn verða að leggja meira á sig, sem bera svo lítið úr býtum, en þeir, sem vinna hjá ríkinu. Ég veit, að því verður haldið fram í sambandi við þennan samanburð, sem ég hefi gert hér, að það sé eðlilegt, að starfsmenn ríkisins og embættismenn beri svona meiri laun úr býtum heldur en allur almenningur, með tilliti til þess, að þeir hafi orðið að leggja svo mikið í sölurnar með að búa sig undir þetta starf. Þetta er rétt hvað hina raunverulegu embættismenn ríkisins snertir, en þess ber að gæta, að ég hefi hér miðað við miðlungstekjur starfsmanna ég embættismanna ríkisins, en yfirleitt eru tekjur embættismanna, sem hér um ræðir, nokkru fyrir ofan miðlungstekjur. En um hina ýmsu starfsmenn ríkisins er það að segja, að þeir hafa ekki þurft að leggja meira í kostnað til undirbúnings starfs síns heldur en allur almenningur. Hvað þessa menn snertir er því ekki hægt að bera það fram, að þessar ástæður raski svo mikið þeim mikla mismun, sem hér kemur fram í þessu efni. - Ennfremur má benda á það, að gert er ráð fyrir, að starfsmenn ríkisins fái - og er það sjálfsagt nauðsynlegt - 2-3 vikna orlof á ári hverju, en almenningur, bændur og búalið, getur ekki séð af miklum tíma til þess að lyfta sér upp. Þetta verður því í þessum samanburði að teljast til nokkurra hlunninda fyrir starfsmenn ríkisins.

Ég sagði áðan, að útreiknaðar tekjur þeirra, sem að framleiðslunni vinna, væru hjá n. byggðar á afkomu ársins 1932. Þá var að vísu nokkurt verðfall komið á framleiðsluvörur landsmanna, og sérstaklega afurðir landbúnaðarins. En síðan 1932 hefir óneitanlega hallað mjög undan fæti fyrir landbúnaðinum, og mér skilst, að útlitið í því efni sé svo ískyggilegt nú, að tæplega sé hægt að ganga framhjá því, þegar um er að ræða að ákveða nýja skipun á launagreiðslum til starfsmanna ríkisins, eins og mér virtist fram koma á dögunum hjá hv. 1. þm. Árn., að hann áliti að gera ætti. Ég vil í þessu sambandi benda á, að 1932 voru ekki komnar á neinar takmarkanir fyrir því, hvað við mættum flytja af framleiðsluvörum okkar til þeirra landa, sem við höfum markaði í. En nú er þetta komið svo hvað snertir saltfiskinn. Sá niðurskurður, sem við verðum að gera á útflutningi saltfiskjar til Suðurlanda, nemur nálega helmingi þess magns, sem selt var þangað 1933. Þá voru seldar þangað suður um 70 þús. smál., en niðurskurðurinn nemur um 33 þús. smál. Svo er öllum kunnugt um, að í einu af okkar viðskiptalöndum, Portúgal, vofir yfir niðurskurður saltfisksinnflutnings, sem að vísu er ekki skollinn á enn. Ég ætla, að þetta ástand sé svo alvarlegt og talandi vottur þess, hvernig viðhorfið er fyrir atvinnuvegunum, að ekki sé hægt að ganga framhjá því, þegar ákveða á laun starfsmanna ríkisins, sem taka meira en helminginn af yfirspenntum tekjum ríkissjóðs. Má og benda á það, að síðan 1932 hefir verið lagður á 10% verðtollur á nýjan fisk, sem fluttur er á brezkan markað, og eftir því, sem fregnir hafa borizt um, þá er í uppsiglingu að leggja þar á nýjan toll á innfluttu kjöti. Allt þetta fellur á sömu sveifina, nefnilega þá, að gera okkar aðstöðu ennþá erfiðari. - Ég get ekki komizt að annari niðurstöðu en að hlutfallið milli tekna þeirra, sem vinna að framleiðslunni, og þeirra tekna, sem starfsmönnum ríkisins eru ætlaðar skv. till. n., geti alls ekki staðizt og munurinn sé óeðlilega mikill. Og til þess að jafna þetta er vitanlega engin leið - því við framleiðsluverðið ráðum við ekki - önnur en sú, sem hægt er að ná með nokkurri niðurfærslu á launagreiðslum og með lækkun heildarkostnaðar með því að fækka starfsmönnum ríkisins. En í því efni hefir n. orðið harla lítið ágengt, því hún hefir aðeins lagt til að fækka prestum og sýslumönnum og nokkrum kennurum, sem þó ekki kemur fram í minnkun launagreiðslna ríkissjóðs, því launin eiga að hækka sem fækkuninni nemur.

Þá skal ég benda á það, að n. hefir að vísu gert allmikla gangskör að því að afnema það mikla ósamræmi, sem fram kemur í launagreiðslum, og sérstaklega kemur fram við þær miklu aukatekjur, sem ýmsir af starfsmönnum ríkisins hafa haft. En mér virðist þó, að það sé engan veginn lokað fyrir það skv. þessum till., að starfsmenn ríkisins, sem taka full laun, og ríkið þar af leiðandi á kröfu til allra þeirra starfskrafta, geti ekki allverulega farið inn á þá braut aftur. Ég skal viðurkenna, að það eru settar nokkrar skorður við þessu. Þó er gert ráð fyrir því, að menn geti tekið að sér annað starf og fengið jafnvel hálf laun fyrir. Auk þess er svo gert ráð fyrir því, að eftir hinn ákveðna vinnutíma eigi sumir starfsmenn kröfu á því að fá eftirvinnukaup fyrir vinnu í þarfir þeirrar stofnunar, sem þeir eru við, en samt eru settar nokkrar skorður við þessu. Það er þó athugunarmál, hvort þær skorður eru nógu sterkar til þess að þetta geti ekki leitt til þess ófarnaðar, sem nú er ríkjandi í þessum efnum.

Hv. 1. þm. Árn. sagði hér á dögunum, að það hefði ekki verið hægt hjá því að komast að hækka nokkuð laun sumra launaflokkanna. Ég vil draga þetta mjög í efa, þegar maður hinsvegar lítur til þeirra tekna, sem þeir verða við að búa, sem að framleiðslunni vinna. Hv. þm. var að tala um það, að ósamræmið yrði að lækna með því að létta undir með framleiðslunni. Við getum náttúrlega talað um það að létta undir með framleiðslunni, en ég veit ekki, hvernig það á að gerast. Ég sé ekki, hvaða ráð eru við hinum takmarkaða innflutningi til markaðslandanna. Og ef framleiðslan ber sig ekki, þá er ekki gott um ráð við því, þar sem við eigum svo mikið undir öðrum með okkar framleiðsluvörur. Það er takmarkað, hvað hægt er að gera til umbóta í þessum efnum. Svo það er ekki hægt að varpa miklu af áhyggjunum út af þessu ósamræmi yfir á það, að hægt sé að minnka ósamræmið með því að létta undir með framleiðslunni.

Út af því, sem ég sagði síðast um það, að mér þætti skorta á í starfi n., að hún hefði komið með till. um breytt starfsmannahald á þeim stöðum, þar sem það er mest, þá vildi hv. 1. þm. Árn. halda því fram, að það væri fyrst og fremst fyrir tímaskorts sakir, og auk þess mundi verða erfitt að fækka þessum starfsmönnum. Ég skal náttúrlega ekkert um það segja, en mér virðist þó, að hér sé um mikilsvert atriði að ræða í endurskoðun löggjafarinnar, hvort ekki sé þá hægt með breyttu skipulagi á rekstri þessara stofnana að fækka eitthvað starfsmannaliðinn. Í raun og veru skortir mikið á um undirbúning þessa máls meðan gengið er alveg framhjá því að reyna að komast fyrir um það, hvort ekki sé hægt að breyta hér um, því eins og þeir menn vita, sem fylgjast með því, hvað mikið fé gengur til launagreiðslna, þá er það stærsti hluti þess fjár, sem gengur til þess að greiða starfsmönnum ríkisins hér í Rvík, sem í sjálfu sér er kannske ekki neitt óeðlilegt. En meðan gengið er framhjá því að fá grundvöll undir till. um breyt. á þessu, þá skortir mikið á um það, að tímabært sé að gera út um þetta mál, því þar er gengið framhjá mikilsverðu atriði, sem ég held, að feli í sér mikla möguleika til þess að fá nokkurn sparnað. Hv. 1. þm. Arn. gat þess að vísu, að lenging vinnutímans og strangara eftirlit skv. till. n. ættu að fela í sér einhverja möguleika fyrir þessu, en ég held, að í því efni hefði hann átt að smíða járnið meðan það var heitt og reyna að koma strax á nokkurri starfsmannafækkun hér í Reykjavík.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta mál. Það er liðið að þeim tíma, sem á að slíta fundi. En ég vildi ekki láta þessa umr. fara svo framhjá, að ekki væri bent á það bersýnilega ósamræmi, sem hér kemur fram í þessu efni, og að það sé ekki til grundvöllur undir það að ákveða svona háar launagreiðslur eins og gert er í þessum till. n.

Ég vil svo, þó á skorti tilfinnanlega um undirbúning þessa máls, þar sem lítilfjörleg rannsókn hefir farið fram á því, hvort ekki mætti gera starfrækslu stofnana ríkisins hér í Rvík auðveldari og ódýrari heldur en nú er, leggja áherzlu á, að málinu sé nú tekið eins og vera ber og notuð sú vinna, sem liggur í till. n., en þær þó vitanlega færðar í það horf, sem ástand undanfarandi ára og yfirstandandi árs sérstaklega gefur fyllilega tilefni til. Ég vænti fastlega, að það þing, sem nú situr, láti þetta verða eitt af sínum höfuðmálum, því það er öllum ljóst, að launamálið er eitt stærsta úrlausnarefnið, sem snertir ríkissjóð og allan almenning í landinu, svo mikið sem nú orðið fer af tekjum ríkissjóðs til þess að greiða starfslaun.