21.12.1935
Sameinað þing: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

137. mál, fjáraukalög 1933

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það eru nokkur atriði í ræðum hv. þm., þeirra er talað hafa síðast, sem ég vildi svara. Hv. þm. V.-Sk. sagði, að ég hefði báglega afstöðu gagnvart lögreglumálunum og lítið samræmi í skoðun minni á lögreglunni nú og áður, en hann færði engin rök fyrir sínu máli. Hann hélt því fram, að ég væri faðir ríkislögreglunnar, en það er mörgum hv. þm. kunnugt, og þó bezt foringja hv. þm. V.-Sk., hv. þm. G.-K., að ég er ekki faðir ríkislögreglunnar. Ég býst við, að hann muni það, að hann fékk á sínum tíma bréf frá mér, þar sem ég lagði til, að lögreglan væri allt öðruvísi skipuð. Um þetta liggja fyrir í stjórnarráðinu ótvíræðar sannanir. Það var farið allt öðruvísi að við stofnun lögreglunnar heldur en ég lagði til, og var ég óánægður með marga þá menn, sem í lögregluna voru teknir. Ég get nefnt tvo menn þar, sem báru vitni á móti mér í þekktu máli, og einn af þeim mönnum berst nú í bifreiðaverkfallinu, sem reyndi mikið til þess að fá fleiri vitni gegn mér í þessu máli. Hv. þm. G: K. veit vel, að ég var aldrei ánægður með þessa menn í ríkislögreglunni. Ég hefi alltaf haldið því landinu; um það liggja bréf frá mér í stjórnarráðinu. Ég veit ekki til þess, að Alþfl. hafi heldur verið á móti bættri lögreglu í því formi, er þeir heldu fram, að rétt væri. Ég vildi alltaf hafa ríkislögreglu til vara, og hélt þeirri skoðun alltaf fram. En ríkislögreglan var sett upp sem sérstök stofnun og sérstakur fulltrúi settur yfir hana. Lögregluþjónarnir voru skipaðir beint frá stjórnarráðinu, en ég lét þessa stofnun afskiptalausa að mestu. Ég hefði ekki verið ánægður með suma þessa menn. Ég hefi alltaf álitið það mjög mikilsvert að hafa góða og vel valda menn í lögreglunni. þess vegna eru ummæli hv. þm. V.-Sk. til mín sögð alveg út í bláinn.

Þá var það hv. 3. þm. Reykv., sem helt því fram, að nú væri eins ástatt og 9. nóv. 1932 að því leyti, að nú vantaði fé eins og þá. Ástæðan fyrir ráðstöfun bæjarstj. 1932 hefði verið sú, að bæinn hefði vantað fé, og nú vantaði Alþingi peninga. Þessu var haldið fram af bæjarstj. fyrst eftir 9. nóv. og sagt, að bæjarstj. hafi áður en hún ákvað að lækka kaupið leitað bæði til bankanna og ríkisstj. um fé, og árangurslaust. En á Alþingi næst á eftir segir þáv. fors.- og fjmrh., Ásgeir Ásgeirsson, að aldrei hafi verið til sín leitað í þessum efnum fyrr en eftir 9. nóv. (JakM: Þetta er ósatt; ég get sannað það með vitnum). Þessu hefir Ásgeir Ásgeirsson haldið fram á hvaða vettvangi sem verið hefir. (JakM: Það er því leiðinlegra fyrir hann). Grundvöllurinn undir ræðu hv. 3. þm. Reykv. er því fallinn. Bæjarstj. vantaði ekki fé 9. nóv. Ég sagði í fyrri ræðu minni, að aðaldeiluatriðið út af ríkislögreglunni milli flokkanna hefði verið um það, hvort lögreglan ætti að blanda sér inn í vinnudeilur. Eftir því, sem ég veit bezt, hefir Alþfl. verið ríkislögreglunni fylgjandi, en deilan hefir um það staðið, hvort sú lögregla ætti að blanda sér inn í vinnudeilur, eins og hv. sjálfstæðismenn vilja láta vera. Þess vegna koma ummæli hv. 3. þm. Reykv. mér ekkert við. Það er ekki deilt um það, hvort eigi að halda lögunum uppi með lögregluvaldi, þegar vinnudeilunum sleppir, þegar farið er að brjóta lög, þegar farið er með ofbeldi að stöðva umferð á vegum, þegar jafnvel er farið að ræna bifreiðir. (TT: Og drepa menn). Það er ekki gert og hefir ekki verið gert, en það er enginn maður, sem heldur því fram, að það eigi ekki að halda lögunum uppi með lögregluvaldi. Spurningin gagnvart ríkislögreglunni var ekki um þetta, heldur um vinnudeilurnar. Þá sagði hv. þm., að stj. mundi nú kalla saman alla gömlu varalögregluna, en ég get sagt honum það, að hún tekur þó ekki forsprakka verkfallsins núna. Í varalögreglunni voru 100 menn. Ég hefi aldrei haldið því fram, að þeir hafi allir verið óhæfir. Það voru til þess að gera ekki nema fáir menn í þessum hóp, sem voru lögreglunni til vansa. Margir voru starfinu vaxnir, þar á meðal þeir 12 menn, sem ég benti á og teknir voru í varalögregluna, en sumir, sem þar voru, höfðu ýmislegt á samvizkunni. Þetta er nú aukaatriði, sem hv. 3. þm. Reykv. hefir dregið inn í umr. og ég þurfti þess vegna að svara. Það var nokkurt ósamkomulag um það, hve fjölmenn varalögreglan ætti að vera, og eins hitt, hvort hún ætti að vera ríkislögregla eða bæjarlögregla, en hitt hefir aldrei verið um deilt, að það bæri að halda uppi lögum í landinu.