01.04.1935
Neðri deild: 42. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (3930)

66. mál, starfsmenn ríkisins og laun þeirra

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég er satt að segja búinn að gleyma og týna því, sem ég hefði viljað segja um þetta mál, á þessari viku, sem málið hefir legið og sofið undir sömu umr. Í öðru lagi er það ekki mikils um vert að flytja langt mál, þegar svo stendur á, að flm. frv. og sá, sem fyrst talaði og skýrði álit mþn., getur ekki verið viðstaddur í d. Mér er það alveg óskiljanlegt, hvers vegna hæstv. forseti fer úr forsetastóli til þess að hverfa úr d., þar sem hann hefði getað setið þar óáreittur, því það stóð ekki til að ganga í skrokk á honum, og það fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að flest af því, sem hann sagði, er fyrnt.

Ég hafði ætlað mér að tala um málið í heild. En ég skal geta þess, að hv. flm. skipti ræðu sinni í 2 parta, og talaði hann í fyrri hlutanum um það, sem hefir verið svarað bæði af mér og öðrum, en í seinni hlutanum tók hann aftur ýmislegt af því, sem hann hafði sagt í fyrri hluta ræðu sinnar, en færði sumt til betra máls, svo að broddurinn fór af því, sem hann hafði sagt. Hann taldi það vera sinn eiginn misskilning að taka orðin svo sem hann gerði, og verður þá að hlíta því.

Ég ætla ekki að ræða málið frekar en ég er búinn. Ég býst við, að það verði lagt til, að málið fari til n., hvort sem það nú verður sérstök n. eða allshn., sem það í rauninni heyrir undir. Svo býst ég við, að það liggi hjá n. þann tíma, sem liður frá því að þm. fara heim og þangað til þeir koma aftur. Ég taldi rétt og ég tel enn rétt, að n. afgreiði ekki málið fyrr en hún hefir leitað umsagnar hlutaðeigandi stofnana og aðilja um þetta mál. Það er ekki kleift að afgr. málið skammlaust, nema þeir aðilar, sem málið snertir sérstaklega, séu fengnir til þess að segja álit sitt. Þegar um er að ræða mál, sem fjallar um heilar stéttir, þá er sjálfsagt að leita til stofnana og yfirmanna hjá þeim stéttum, og skal ég nefna sem dæmi, að þegar rætt er um að fækka sýslumönnum, þá er það gefið, að sýslunefndirnar verða að fá að segja álit sitt um það, en þær eru tilkjörnir aðilar til þess að koma fram fyrir hönd sýslunnar og segja álit sitt um það, hvort tiltækilegt er að fækka sýslumönnunum, en í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir þessu. Hitt er vitað, að aðilar í öllum sýslum hafa neitað því, að prestum væri fækkað. Einnig er það vitað, að ef sýslumönnum verður fækkað, þá leiðir ekki af því sparnað, heldur kostnaðarauka. Ég skal ekki fara nánar út í þetta, fyrst hv. flm. vill ekki hlusta á umr. um málið.

Um nál. mþn. má segja, að þar er töluverður fróðleikur samandreginn, en þó eru á því svo miklir gallar, að það stappar nærri því að vera vítavert af mþn. að koma með svo vitlaust nál.

Ég hafði ætlað mér að hafa eina og sömu ræðu um öll þessi mál, og mun ég því ekki taka til máls um hin einstöku mál, sem eru fylgifiskar þess máls, sem hér liggur fyrir, heldur mun ég láta nægja það, sem ég hefi þegar sagt, og ef til vill bæta við það einstökum atriðum.

Það er misskilningur hjá hv. flm., að ég hafi hneykslazt á því, að það hefði enginn lögfræðingur verið skipaður í n., af því að ég teldi þá færasta til þess að leysa hina formlegu hnúta og semja frv. eða till. í lagaformi. Ég tók það skýrt fram, að ef alvara hefði fylgt þessu máli, þá hefði það verið eðlilegt, ef nokkur lögfræðingur hefði fengizt til þess að starfa í n. og hann verið opinherlega skipaður, að þá hefði það verið eingöngu vegna þess, að slíkur maður hlýtur, af því að starfssvið hans er þannig lagað, að kunna betri skil á slíku en leikmenn, sem hóað er saman úr ýmsum áttum. Hv. flm. sagði, að lögfræðingar myndu ekki hafa getað leyst þetta starf af hendi, því þeir væru þekktir að því að rífast. En ef það hefði aðeins verið einn lögfræðingur í n., þá hefði hann ekki rifizt, nema þá við sjálfan sig. Ég hefði talið æskilegt, að lögfræðimenntaður maður hefði verið í n., sem átti að koma með rökstuddar till. um svona mikilsvarðandi mál.

Ég skal að lokum nefna dæmi um, hversu gengið er frá efninu í nál. mþn. Ég tók áðan dæmi um fækkun sýslumanna og presta. Í grg. fyrir frv. um fækkun lögsagnarumdæma segir: „Með frumvarpi þessu er gerð tilraun til þess að laga gamalt fyrirkomulag, sem krefst breytingar, bæði vegna þess, hve kostnaðarsamt það er, og hinsvegar skortir allt samræmi innbyrðis“. Nú er þessu svo varið, að þetta er gripið úr lausu lofti og er alveg órökstutt. Það hefir enginn fært rök að því, að breyt. þessar verði til að laga fyrirkomulagið, enda verða þær að mínum dómi ekki til þess að laga það, heldur til þess að aflaga það. Það er síður en svo, að bað séu nokkur rök fyrir því, að það þurfi að laga fyrirkomulag, að það sé gamalt. Það er einmitt aldurinn, sem getur sýnt, að fyrirkomulagið er gott, því hann sýnir, að það hefir staðið af sér allar hrotur, og er því betra en fyrirkomulag, sem flaustrað er upp. Þetta fyrirkomulag hefir staðið undir þeim skyldum og réttindum, sem því hafa verið ánafnaðar með lögum, og verða þau verk, sem þar undir heyra, ekki betur framin með öðrum hætti. Einn kosturinn við fyrirkomulagið er einmitt sá, hversu gamalt og vel reynt það er. Það er síður en svo, að rétt sé að segja, að þessir menn hafi verið kvaddir til þess að laga þetta gamla fyrirkomulag. Nei, að segja slíkt er að taka munninn of fullan. Það er beinlínis hneykslanlegt, að menn, sem enga hugmynd hafa um störf þau, sem hvíla á þeim mönnum, sem hér eiga hlut að máli, skuli byrja grg. sína fyrir breyt. þeim, sem þeir vilja koma á, svona reigingslega.

Nú hefir um 20 ára skeið verið svo að segja á hverju þingi dembt á sýslumennina meira og minna af nýjum störfum, sem ekkert tillit er tekið til í þessu frv., hvernig fara eigi með. Það er ekki minnzt á, að þeir eru forstjórar sýslufélaganna, og ekkert talað um, hverjir það eigi að vera. Það er ekki heldur getið um, að þeir eru lögskipaðir formenn yfirskattanefnda. Nú koma skattanefndirnar samkv. nýjum l. til þess að verða fjölmargar, en í þessu frv. er ekkert tillit tekið til þessa.

Yfirleitt er þetta frv. mjög lélegt, enda samið af leikmönnum, sem hafa farið á mis við það að kafa til botns í störfum þeirra manna, sem frv. ræðir um, og einnig vanrækt að leita sér upplýsinga hjá þeim mönnum eða stofnunum, sem bezt mega um það vita, hvernig þessum störfum er haganlegast háttað. Ég læt nægja að taka þetta sem dæmi um sýslumennina.

Um prestana hefi ég áður getið þess, að talað er um, að þeim eigi að fækka. Þar er ekkert tillit tekið til þess, hvort söfnuðir vilji, að þeim sé fækkað eða ekki. Nú er það vitað, að allur þorri safnaða hefir sagt, að ekki geti komið til mála, að þeim megi fækka. En samt segja þessir menn, með leyfi hæstv. forseta: „Annars mun fáum heilskyggnum og skynsömum mönnum, sem hugsa um hag kirkjunnar með alvöru, dyljast svo augljóst mál sem það er, að prestaköllum á að fækka.“

Hér er ekki verið að biðjast afsökunar á neinu, ekki heldur á fáfræðinni. En við þetta bæta þeir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Til eru að vísu þeir menn, sem telja fækkun prestakalla fjörráð og fjandskap við kirkjuna. En slíkir menn eru vonandi fáir, því að þeir eru óvitrir.“

Það þarf ekki að færa frekari rök að því. hvernig starfssvið það er, sem n. hefir haslað sér, eða aðferðir þær, sem fram er haldið í þessari lélegu grg. fyrir þessu frv., sem n. hefir ætlað sér að koma í gegn, þó að hún hafi ekki fengið hæstv. stj. til þess að leggja lag sitt við það.

Að lokum skal ég geta um eitt dæmi, sem sýnir, hversu grandvarlega n. hefir aflað sér upplýsinga. Í grg. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Og eðlilega verður líka mörgum minni þörf að fara til kirkju sinnar og hlýða þar á messugerð nú, þegar menn geta hlýtt á messur frá höfuðstaðnum heima hjá sér tvisvar hvern sunnudag.“

Nú hafa menn verið að brjóta heilann um það, hvernig stæði á því, að þetta gæti komið á prenti, því þó að hægt væri að gera ráð fyrir því, að menn hugsuðu þetta, þá er það óskiljanlegt, hvernig menn geta komið með slíka hringavitleysu á prenti. Það hefir sem sé aldrei verið, nema á hinum þremur stórhátíðum, að hægt hefir verið að hlusta á messur tvisvar á dag í útvarp. N. hefir auðsjáanlega ekki hirt um að leita sér upplýsinga um þetta, en í sinni miklu fáfræði komizt að því, að 2 kirkjur væru í Rvík, og heyrt að útvarpað væri bæði frá dómkirkjunni og fríkirkjunni, og leitt af þeirri vitneskju þá afleiðingu, að útvarpað væri 2 messum hvern sunnudag. Þetta er mþn., sem skipuð er á því herrans ári 1934, og hefir hún lokið störfum sínum svona vel.

Þetta er síðasta dæmið, sem ég tek, og hirði ég ekki að fara um það fleiri orðum.