21.12.1935
Sameinað þing: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

137. mál, fjáraukalög 1933

Frsm. (Sigurður Einarsson) [óyfirl.]:

Allverulegur hluti af ræðum þeim, sem haldnar hafa verið, hafa snúið að mér persónulega. mér skilst, að þeim aðdróttunum, sem til mín hefir verið beint, megi skipta í tvo flokka. Annar flokkurinn er aðdróttanir um það, að mér hafi eitthvað orðið á, eitthvað fatazt um rétta meðferð í framsögu, miðað við réttar þingvenjur. Hinn eru aðdróttanir um það, sem hv. þm. telja mér persónulega áfátt. Ég ætla þá að rekja fyrra atriðið, að hverju leyti ég hafi brugðizt minni skyldu sem framsögumaður fjvn. Ég skal játa, að það geti verið, að ég hafi máske ekki tekið nægilega skýrt fram, hvað ég sagði um sérstaka liði málsins frá eigin brjósti. Hafi ég ekki gert það nógu vel, þá skal ég vera sá maður að þora að kannast við það og taka á mig persónulega þau ummæli mín um ríkislögregluna, sem Sjálfstfl. vill ekki fallast á. Það er margtekið fram af Sjálfstfl., að lögreglumálið hafi verið stórmál. Og ég vildi heldur tala opinskátt um það mál, þó mér yrði það á að tala það, sem öllum líkaði ekki, heldur en segja ekki það, sem mér fannst þurfa að segja, heldur en fremja hin þöglu svik. (PM: Það var þá það voðalegasta). Ef ég ætti að tala um, hvað er hið voðalegasta, sem komið hefir fyrir okkur, sem hér sitjum á þingi þjóðarinnar, þá geng ég þess ekki dulinn, að hlutur sumra hv. þm. er þar stærri en minn.

Skal ég þá víkja að því, sem til mín hefir verið beint persónulega. Ég vil þá fyrst minnast á það, að hv. þm. Snæf. taldi, að ég hefði komizt inn á þing í óþokk míns flokks og kjósenda flokksins. Ég ætla að leggja svo góðan skilning í þessi ummæli hv. þm. sem hægt er. Ég ætla að álíta, að hann hafi meint það, að flokksmenn mínir og kjósendur hefðu fremur viljað, að Vilmundur Jónsson hefði komið í minn stað. En ég get svarað honum því, að ég er sjálfur á þessari skoðun. Ég hefði sjálfur fremur viljað Vilmund í mitt sæti; hann hefði haft betri tíma og aðstöðu en ég til að sinna þingstörfum. Hv. þm. talaði um, að ég væri eins og rakki á eftir kommúnistum og gengi á blóðrefinn. Hvað á hv. þm. við? Er hann að drótta að mér að ég sé morðingi.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að hv.1 þm. Skagf., en þar sem hann er farinn af fundi, mun ég svara honum lauslega. Hann sagði, að ég hefði leyft mér að svívirða vissa menn fyrir varalögregluna, — þessi maður, sem væri maðksmogið rekald allra flokka. Hvað hefir komið fyrir þennan hv. þm.? Ég hafði ekki í frammi neinar svívirðingar. Hv. þm. sagði, að við jafnaðarmenn værum alltaf á móti lögreglu og teldum hana ónauðsynlega. Þegar við förum að meta nauðsyn ríkislögreglunnar, þá skulum við bara líta á staðreyndirnar. Hverju fékk hún afrekað meðan hún starfaði? Það kom ekkert atvik fyrir í landinu meðan hún lifði, er sýndi, að hennar væri þörf, en það hefir verið talað um, að hún hafi ekki verið allskostar góður skóli. Það er sannað, að margir af uppreisnarmönnunum núna eru einmitt úr þessum skóla. Þannig var efnið í lögregluliði þessa hv. þm., og þetta var uppeldið.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að ég hefði risið upp og talað af fítonsanda. Þetta er ekki rétt; ég talaði af hógværð og stillingu. Ég túlkaði staðreyndir. En þegar hv. 1. þm. Skagf. er að tala um fítonsanda, þá vil ég minna hann á einn flokk manna í þessu landi, sem er skyldur hans eigin flokki. Þessir menn tala um, að dagur hefndarinnar sé í nánd. Allir vita, að margir þræðir tengja þessa tvo flokka, flokk hv. þm. og mennina með „hreinu hugsanirnar“, sem hinn látni foringi sjálfstæðismanna nefndi svo. Ég sagði í ræðu minni, að við óskuðum engrar hefndar yfir stofnendur varalögreglunnar. Við vitum, að hún er fallin á sínum eigin verkum.

Mér er sagt, að ég hafi komið seint á vettvang til hernaðar. Ég svara því einu, að ég er enginn hernaðarmaður og langar ekki til að vera það.

Þá hefir verið talað um það, að nú væri líkt ástatt og 9. nóv. Þetta er ekki rétt. Það er alveg ósambærilegt, að ríkið setur sér lög eða að bæjarstj. ákveður að lækka kaup. Bæjarstj. ákvað að stórlækka kaup þeirra, sem lægst voru launaðir. Hvert mannsbarn vissi, að ekki kom til mála að lækka laun þess fjölda manna, sem störfuðu hjá bænum á háum launum. Mannúðarleysi bæjarstj. átti að bitna á verkamönnunum einum. Ég get fullvissað hv. þm. Sjálfstfl. um það, að fjölda manna í þeirra eigin flokki ógnaði þessi ráðstöfun og óskaði að þetta yrði ekki gert. Og mannfjöldinn 9. nóv. sannar þetta. Hann var vottur um hina mestu samúð, sem sýnd hefir verið í þessum bæ. Svo vil ég benda hv. þm. á það, að bæjarstjórn er enginn löggjafi; hún er því ekki sambærileg við Alþingi, og kaupákvarðanir hennar ekki sambærilegar við lagasetningar Alþingis. Þetta eru alveg ósambærilegir hlutir, hvað mörg rök sem reynt er að leiða að.

Það átti að þurrka út bæjarstj. Reykjavíkur, sagði hv. þm. Snæf., eða eitthvað á þá leið. (TT: Hvað sagði forsrh. um það að þurrka út þingið?). Hvenær og hvar? (TT: Áðan hér, þegar hann talaði um mótmæli á gerðir þingsins). Ég sagði í þessu sambandi: Það var ekki ætlun neinna manna að þurrka út bæjarstj. Rvíkur. Það var ætlun þessara manna að kenna henni einfalda mannasiði og einfalda mannúð.

Það var áberandi í ræðu hv. þm. Snæf. sá dulbúni ótti um það, að lögfestur vilji þingsins muni að þessu sinni verða brotinn. Er það til þess að styrkja þingið, að vera með dulbúinn ótta inni í sjálfu þinginu um það, að vilji þess verði niður brotinn og virtur að vettugi? Það er vitað af mörgum ræðum sjálfstæðismanna hér, að þeir standa að einhverju allverulegu leyti á bak við þá uppreisn, sem verið er að reyna að koma á stað gegn ríkisvaldinu.

Ég hefi ekki hirt um að punkta niður mikið af ummælum hv. þm. Snæf., sem hann beindi að mér persónulega. En m. a. sagði hann: „Þessi maður, sem lifir beint á verkalýðnum“. — Hvernig ég lifi á verkalýðnum öðrum fremur, gat hann ekki um. En á hverju lifir hv. þm. Snæf. Hvor okkar er líklegri til að lifa á verkalýðnum í nokkurn veginn réttri merkingu þess orðs, stór atvinnurekandi eða verkamaður í þjónustu hins opinbera. (TT: Af hverju hefir hv. þm. reynt að lifa á mér?). Ekki veit ég til, að mikil brögð séu að því.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði greitt atkv. með tugthúsinu. Ég greiddi atkv. með þessu frv. og dettur ekki í hug að fara í neinar felur með það. Í n. upplýstist, að í mörgum tilfellum er ekki hægt að koma lögum yfir vandræðamenn af löggæzlumanna hálfu, vegna þess að ekki er hægt að einangra þá um stundarsakir meðan á rannsókn og yfirheyrslu stendur.

Hvað snertir afnám ríkislögreglunnar og hvers vegna hún var gerð að kosningamáli, þarf ég ekki að fræða hv. þm. Snæf. um, — að afnám hennar í þeirri mynd, sem hún var í, var eitt af því, sem kjósendur í landinu kröfðust og vildu að næði fram að ganga að loknum seinustu kosningum.

Þá vík ég nokkrum orðum að ræðu hv. þm. V.-Sk. Hann gerði sér mjög gómtaman mat úr því, að það væri mín eigind að rjúka upp með ósköpum þegar mikið hefði safnazt saman hjá mér af gremju. Það er algerlega misskilningur, þó að hann telji þessu vera svo farið. Ég tala manna minnst hér á þingi. Og rokurnar sem öðruhverju koma hér í þingsal, koma ekki frá mér; og tóma rúmið í kringum mig er ekki heldur meir áberandi heldur en brosið í kringum þennan hv. þm., — brosið yfir því, hvernig maðurinn lítur út, sem er stórvitur maður og stór foringi í sjálfs sín vitund, en einkennilega gagnsær, innantómur og gaspurkenndur, þegar litið er á hann frá öðru sjónarmiði en hans sjálfs.

Ég vil víkja að því, sem hv. 3. þm. Reykv. var að leitast við að sanna, — að það væri nákvæmlega eins ástatt um uppreisnina, sem verið er að gera tilraun til gegn ríkisstj. og Alþingi nú, og 9. nóv. Ég spyr þá: Hvað á að koma fyrir benzínskattinn? Fyrir hann á að vinna stórfelldar framkvæmdir, sem ekki einungis koma fjöldamörgum verkamönnum að liði, heldur bifreiðarstjórum og öllum, sem hér berjast á móti. En hvað átti verkalýðurinn í Reykjavík að fá í staðinn fyrir launalækkunina, sem átti að koma á hendur honum þ. 9. nóv.? Hvaða framkvæmdir átti hann þá að vinna við? Hvaða auknar tekjur átti hann að fá, sem sambærilegar væru við þær framkvæmdir og auknar tekjur, sem skapaðar eru verkamönnum með benzínskattinum eins og frá er gengið í lögum? Þeir áttu ekki að fá nokkurn skapaðan hlut, nema sult í staðinn fyrir hagnað, hungur í staðinn fyrir peninga.

Hvers vegna leggja sjálfstæðismenn kapp á að sanna, að 9. nóv. hafi staðið eins á og nú? Þá hefir það verið skylda bæjarstj. að standa fast við ályktun sína, ef eins stóð á og nú. En hvers vegna gugnaði hún? Var hún að bregðast sinni skyldu?

Ég sé ekki nokkurn skapaðan hlut eftir þeirri morgunstund, sem fer í að ræða þetta mál. Ekki tel ég eftir mér að standa eða sitja undir persónulegum hrópyrðum og glepsum sjálfstæðismanna í minn garð, mér finnst það ákaflega gott, að það komi greinilega í ljós í lok þessa þings, hvernig sjálfstæðismenn vilja verja fé og hvernig þeir vilja ekki gera það. Það er nú búið að koma á alþýðutryggingalögum og þrýsta þeim í gegnum báðar deildir gegn magnaðri andstöðu sjálfstæðismanna. Það er gert ráð fyrir, að þessi 1. kosti í framkvæmdinni 400 þús. kr., og þannig eru þau áætluð í fjárl. fyrir 1936. lögreglan, sem nú er verið að sanna, að hafi verið ómetanleg þjóðarblessun, kostaði líka sem næst 400 þús. kr. yfir árið. Það lítur þess vegna svo út, góðir hálsar, eins og skattþegnar landsins verði að borga 400 þús. kr. á vissan máta, hvort heldur núv. stjórnarflokkar fara með völdin eða sjálfstæðismenn hefðu gert það. En það eru gerólíkir hlutir, sem um er að ræða að verja þessum peningum til. Þessar 400 þús., sem við viljum láta borga í ákveðnum tilgangi, fara til þess að skapa meira öryggi í lífi verkamanna og allrar alþýðu. En þær 400 þús., sem sjálfstæðismenn hafa notað á sérstakan hátt og vildu gjarnan eyða framvegis, fóru fyrir barefli á alþýðuna. Þetta eru hin tvo ólíku sjónarmið. Og það mega hv. sjálfstæðismenn vita, þó að þeim kunni að láta þeirra eigin orð glæsilega í eyrum, að þjóðin er í engum vafa, að það að skapa atvinnuleysis og örorkutryggingar, skapa möguleika til þess að komast af og lifa eins og maður yfir erfiðleikatímabil, er miklu betra heldur en að verja fénu til bareflakaupa og í lögreglu, sem þjappað er undir forustu einhvers manns og sé tiltæk jafnan þegar þarf að ráðast á réttmæt og sjálfsögð samtök verkalýðsins og borgaranna. Alþýðan vill áreiðanlega heldur fá raunveruleg lífsverðmæti, sem koma henni að haldi þegar verst stendur á.