12.03.1935
Neðri deild: 26. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í C-deild Alþingistíðinda. (3958)

71. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverzlun

Flm. (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Ég hygg, að þetta frv., ef að l. yrði, myndi verða áhrifaríkast þeirra mála, sem fyrir þessu þingi liggja, um fjárhagslega viðreisn tveggja höfuðatvinnuvega þjóðarinnar, og þá um leið fyrir þjóðarheildina. Þetta er yfirgripsmikið og stórkostlegt mál, og ég geri því ráð fyrir, að hv. þdm. séu ekki búnir að kynna sér það til hlítar, og ég tel því heppilegra, að aðalumr. fari fram um málið eftir að n. hefir fjallað um það. Ég mun því reyna að takmarka ræðu mína sem mest.

Ég get þó ekki látið hjá líða að minnast lítið eitt á gang gengismálsins á undanförnum árum. Það mun hafa verið 1922, að farið var að skrá íslenzku krónuna sérstaklega, og þegar ég tala um verðgildi hennar í ræðu minni, þá á ég við verðgildi hennar gagnvart enska pundinu. Ísl. kr. var skráð í ársbyrjun 1922 þannig, að pundið var 27 kr. ísl. verðgildi hennar fer svo hækkandi fram í september það ár, en þá fellur ísl. kr. og kemst niður í 26 kr., en svo hækkar kr. aftur og er í árslok komin upp í 28,50 kr., að ég held. Eftir áramótin hækkaði pundið upp í 30 kr. og síðan varð það fyrir smábreyt., en í febrúar fellur krónan og pundið verður 32 krónur. Síðan hækkar krónan og heldur áfram að hækka þangað til í október 1925, að pundið er skráð 22,15 kr., og hefir ísl. krónan haldizt þannig gagnvart enska pundinu síðan.

Um skráningu krónunnar 1922 er það að segja, að þá var verzlun með gjaldeyri frjáls, og þó að það væri Landsbankinn, sem réði skráningunni og vildi reyna að halda krónunni uppi, þá tókst það ekki, vegna þess að verzlunin utan bankans felldi krónuna. Og seinni hluta ársins var svo komið, að bankinn var hættur að geta yfirfært, og það var sjáanlegt, að öll yfirfærslan var raunverulega að renna úr höndum bankans. Þeir, sem fengu gjaldeyrinn, fóru með hann þangað, sem þeir fengu hærra borgað fyrir hann. Það kom þá fyrir, að póstsjóður fengi peninga á þennan hátt. Þeir, sem fengu pundið í Landsbankanum fyrir 26 kr., gátu selt póstsjóði það fyrir 28,50 kr. Bankinn sá sér þá ekki annað fært en lækka krónuna og hækka pundið, og var þá pundið reiknað á 30 kr. Þessi mikla verðhækkun á pundinu stafaði af því, að þeir menn, sem áttu gjaldeyrinn, verzluðu með hann í frjálsri verzlun og notuðu sér kaupþörfina, og gátu þannig fengið fyrir hann 15%-20% meira en Landsbankinn vildi gefa. Þetta mikla verðfall á krónunni varð þess valdandi, að á þinginu 1923 var borin fram þáltill. um að reyna að vinna að því, að krónan fengi sitt upprunalega gildi. Þessi þáltill. var flutt af þeim mönnum, og studd af þeirri stétt manna, sem sáu sér hag í því að hafa krónuna í sem hæstu gildi, án tillits til þess, hvort þeir, sem „valutunnar“ öfluðu, sæju sér það fært eða ekki. Þessi þáltill. náði ekki samþykki þingsins. En síðan 1923 og allt til 1931 hefir þessi till. verið til meðferðar á hverju þingi, en verið flutt á mismunandi grundvelli, og mismunandi skoðanir, sem á bak við hafa verið. En ég hygg, að rauði þráðurinn í öllu því, sem rætt var og gert, hafi verið það, að talið var sjálfsagt, að krónan fengi varanlegt gildi gagnvart pundinu, enda var það í samræmi við skoðanir fræðimanna, sem um þetta skrifuðu víða um heim, því það var víðar en hér, sem þessi mál vöktu umræður, og alstaðar urðu menn að glíma við vandræði í þessum efnum, sem voru afleiðing af þeirri byltingu í viðskiptalífinu, sem leiddi af ófriðnum mikla.

Allar þessar breyt., sem urðu á krónunni, má ekki taka sem svo, að hún hafi raunverulega alltaf breytzt í gildi gagnvart gullinu, því að gildi pundsins breyttist gagnvart gullinu. Þannig var það 1932, að þó að krónan virtist falla, þá var það svo, að hún hækkaði í raun og veru í gildi gagnvart gullinu, vegna þess að pundið hafði hækkað um 10%. Ef pundið hefði staðið í stað gagnvart gullinu, þá hefði átt að skrá það í ársbyrjun á 26 krónur. Það hefir ætíð verið svo síðan, og sérstaklega nú síðustu árin, að gullgildi pundsins hefir breytzt og pundið fallið. Sérstaklega var þetta áberandi árið 1932. Þá var sú ákvörðun tekin að láta ísl. krónuna fylgja pundinu, og var það alveg rétt. En hinar Norðurlandaþjóðirnar streittust við, en urðu að hætta við það og lækka krónuna, og hafa þær síðan látið hana fylgja pundinu eftir. Þessar þjóðir þurftu kannske að lækka hana meir en nauðsynlegt hefði verið, ef þær hefðu strax tekið þá ákvörðun að láta hana fylgja pundinu. Þetta sýnir, hvað það getur verið hættulegt að halda gengi peninga í hærra verði en aðstaðan út á við heimilar.

Nú hygg ég, að svo sé komið málum bæði hér hjá okkur og annarsstaðar, þar sem um þessi mál er fjallað, að það sé ekki eins ófrávíkjanleg nauðsyn að binda sig eins mikið við gullið og áður, og nú heyrist talað um þann möguleika að auka gullforðann í heiminum, og gæti það haft þau áhrif, að gullið yrði lítils virði og hætt yrði við að nota það í því augnamiði, sem það er nú notað í. Það gæti farið svo, en um það er þó ekki hægt að fullyrða neitt. En þegar þessi grundvöllur er að hrynja undan fjármálunum, þá verður að taka því eins og það er og reyna að finna skynsamlegar leiðir til þess að fara eftir. Á öllum þeim þingum, sem hafa haft þetta mál til meðferðar, hefir alltaf komið fram sú skoðun, að gengið ætti að samsvara kaupmætti krónunnar innanlands. Í þessu frv. er leitazt við að koma skráningunni í það horf, að hún geti orðið lokatalan í viðskiptareikningi atvinnuvega þjóðarinnar, og þannig fengin trygging fyrir því, að hægt sé að reka atvinnuvegina án taps og að öryggi fáist um afkomu þjóðarinnar. Í þessu er engin bláþræðishugsun fólgin því að tilvera þjóðarinnar byggist á því, að þessar tvær atvinnugreinar, landbúnaður og sjávarútvegur, geti borið sig.

Ég vil byggja á þeim grundvelli, sem lagður var með löggjöfinni 1924 og 1925 um þessi málefni. En ég vil leggja aðaláherzluna á það, að gengisskráningin fari fram með tilliti til þess, hvað atvinnuvegirnir þola í því efni. Þegar lögin voru sett 1924 og framlengd 1925 með viðauka, þá var gengið út frá því, að skráningin hækkaði krónuna. Seinna fékkst yfirlýsing um það, að hækkun krónunnar 1924 hefði verið of mikil, en samt var gengið út frá því 1925, að gengishækkun færi fram, en að hún væri framkvæmd gætilega. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að það þyki fullvíst, að gengi krónunnar hafi verið skráð of hátt, og geri því ekki ráð fyrir, að um gengishækkun geti verið að ræða. Ég geri hinsvegar ráð fyrir því, að það þurfi að koma á gengislækkun og breyta um, svo að atvinnuvegirnir geti risið undir útgjöldum og borið sig. Til þess að ná þessu marki legg ég til, að fulltrúar atvinnuveganna í gengisnefnd fái atkvæðisrétt, svo að trygging fáist fyrir því, að gengisskráningin fari fram með tilliti til þess, hvað atvinnuvegirnir geta borið. Með þessu ætti að fást trygging fyrir því, að hægt væri að reka atvinnuvegina hallalaust.

Ég veit ekki, hvort ástæða er til þess að fara út í einstök atriði að svo komnu. Ég hefi hugsað mér að láta það bíða þangað til málið hefir verið rannsakað í nefnd, og vænti ég þess, að n., sem fær málið til meðferðar, athugi, hvað um það hefir verið rætt og ritað á þessu tímabili, sem liðið er síðan 1924. Ég vil í því sambandi benda á rækilega grg., sem fylgdi málinu 1926, og raunar líka 1927. Ennfremur má benda á frv., sem lágu fyrir þinginu 1929 og 1930. Þegar n. er svo búin að skapa sér álit út frá þeim umr., sem farið hafa fram um málið, og hún hefir athugað hina breyttu aðstöðu gagnvart gullinn, þá vænti ég þess. að umr. geti farið fram af beggja hálfu þannig, að fullur árangur fáist, en slíks er ekki að vænta á meðan ekki hafa verið vegnar og metnar allar ástæður með og móti málinu.

Ég tel þetta mál vera svo stórfellt og alvarlegt, og vandasamara flestum öðrum málum, og svo þýðingarmikið fyrir afkomu þjóðarheildarinnar, að þinginu beri skylda til þess að taka málinu með fullri alvöru og reyna að finna leiðir, sem líklegar séu til þess að leiða hamingju yfir atvinnuvegi þjóðarinnar.

Ég legg svo til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn. að lokinni þessari umr.