15.03.1935
Neðri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í C-deild Alþingistíðinda. (3965)

79. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Emil Jónsson:

Hv. Þm. Snæf. var í ræðu sinni að vitna í vinnubrögð tveggja nefnda, hv. allshn. Nd. og skipulagsnefndar. Þessar tvær n. hafa það sameiginlegt, að hv. 2. þm. Reykv. er formaður í þeim báðum. En það virtist eiga að vera sönnun þess, að í þeim n. þýddi ekki fyrir einstaka nm. að malda í móinn. Ég þekki ekki til vinnubragða í hv. allshn., en í skipulagsnefnd er reynsla mín sú, að ég hefi aldrei komið þar fram með aths., sem ekki hafa fyllilega verið teknar til greina af form. n. Þetta er nú mín reynsla, en það má vel vera, að hv. þm. Snæf. þykist hafa aðra reynslu af hv. 2. þm. Reykv. í allshn.

Ég skal svo með nokkrum orðum svara því, sem hann var að andmæla í minni ræðu. Hann byrjaði á því að tala um, að ég væri ekki óvilhallt vitni í þessu máli, þar sem ég ætti sæti í skipulagsnefnd og hefði samið frv. En ég tel mig hafa sérstaka aðstöðu til þess að bera vitni í þessu tilfelli, þar sem ég hefi sérstaklega numið þá fræðigrein, sem hér er um að ræða. Ég hefi auk þess kynnt mér þetta mál mikið og mér var falið að semja svar skipulagsnefndar til allshn. Ed., og ég er enn, eins og ég var þá, fyllilega samþ. því bréfi, m. a. því, sem hv. þm. las upp úr bréfi n., að nauðsynlegt sé að gera starf háskólans fjölbreyttara, bæði sem rannsóknar- og kennslustofnun. Ég er enn fyllilega á þessari sömu skoðun. En ég álít, að frv. það, sem hér liggur fyrir, samrýmist ekki þeirri stefnu. Og þó ég hafi flutt frv., sem fer í gagnstæða átt, þá tel ég, eins og ég hefi þegar tekið fram, að ég hafi aðstöðu til þess að dæma óvilhallt um þetta atriði.

Þau sterkustu rök, sem hv. þm. Snæf. flutti fyrir sínu frv., voru þau, að með því væri stefnt að því að nota betur en gert væri ráð fyrir í frv. allshn. starfskrafta rannsóknarstofunnar, að þeir vildu þjóðnýta þá meira en við. Ég hefi ekkert við það að athuga, þó hv. þm. Snæf. og hv. 8. landsk. vilji þjóðnýta, en mér virðist sú þjóðnýting, sem þeir stefna að með þessu frv. sínu, vera fremur ópraktísk og kákkennd.

Þar, sem ég þekki til slíkra háskóladeilda í öðrum löndum, eru hafðir specialprófessorar í hverri grein, sem ekki eru látnir kenna aðrar greinar en þá, sem hver er sérfræðingur í. Þar kæmi t. d. ekki til mála að láta sérfræðing í líffærafræði kenna eðlisfræði, stærðfræði og efnafræði. Þó hann að sjálfsögðu hafi numið nokkuð í þeim fræðigreinum, þá væri hann vitanlega langt frá fær um að kenna þær við háskóla. Í þessu samþ. vil ég sérstaklega geta þess, að til þess að kenna þessar sömu fræðigreinar við menntaskólann hér þarf kennarinn að vera magister með háskólaprófi, og má þá nærri geta, hvort eðlilegt er að gera minni kröfur til kennara í sömu greinum við háskólann. Nú vil hv. þm., að fiskifræðingurinn kenni stærðfræði og eðlisfræði, en það er bersýnilega óviðunandi við háskóla, bæði hér á landi og annarsstaðar, eins og ég hefi þegar sýnt fram á.

Þá minntist hv. þm. á prófin og vildi halda því fram, að mikið gagn gæti orðið að kennslunni, þó ekki væri um próf að ræða. T. d. hefðu stúdentar, sem ætluðu að stunda búskap, mikið gagn af því að hlusta á fyrirlestra um búskap, og þeir stúdentar, sem ætluðu að stunda útgerð, hefðu mikið gagn af því að hlýða á fyrirlestra fiskifræðilegs efnis, þó þeir tækju ekki próf í þessum greinum. Ég skal ekki halda því fram, að ekkert gagn væri að slíku námi, en það væri þá aðeins það, sem á dönsku er kallað „populær“ fræðsla. En af slíkri kennslu verður aldrei neitt vísindalegt gagn. Hv. þm. sagði, að hér yrði um að ræða upphaf fræðslu, sem þeir nemendur gætu byggt ofan á, er þess óskuðu, en þetta er ekki heldur rétt, hér er aðeins um „populæra“ fræðslu að ræða, m. ö. o., slík fræðsla yrði aðeins gutl, því eins og ég tók fram áðan greinilega, þá eru stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði þau undirstöðuatriði, sem atvinnuvísindin byggjast á, og þær námsgreinar verða ekki kenndar nema af faglærðum mönnum, svo að fullkomnu vísindalegu gagni sé. Við höfum aðeins einn sérfræðing í einni þessari grein, efnafræðinni. Hann getur kennt í þeirri grein, en ekki öðrum. En það nær ekki nokkurri átt að byrja með því að láta fiskifræðing eða landbúnaðarfræðing kenna stúdentum á fyrsta ári stærðfræði og eðlisfræði, þær grundvallarfræðigreinar, sem verður að byrja á.

Við hv. þm. Snæf. viljum báðir styðja háskólann. Ég legg áherzlu á að innleiða þar ekkert fúsk. Það er minn metnaður, að skólinn standi jafnfætis erlendum háskólum í þeim greinum, er hann tekur fyrir, og ég álít, að hann eigi ekki að taka meira fyrir en hann getur sómasamlega staðið við, og það er að taka stúdentafræðsluna fyrstu tvö árin með sama fyrirkomulagi og tíðkast við háskóla erlendis, en lengra eigi hann ekki að fara fyrst um sinn.

Ég hefi í höndum skrá yfir þá íslenzka stúdenta, sem stunda nám erlendis. Þeir eru nú 90 talsins, og það eru æðimargar fræðigreinar, sem þeir stunda, t. d. hagfræði, vátryggingarfræði, verzlunarfræði, landafræði, dýrafræði, grasafræði. jarðfræði, eðlisfræði, efnafræði og stærðfræði o. fl. Svo er verkfræði. Þar getur verið um fjórar og jafnvel sex greinir að ræða; svo er tannlækningafræði, lyfjafræði, byggingarfræði, gerlafræði og margar, margar fleiri fræðigreinir, sem ég hirði ekki að telja upp. En undirstöðuatriði allra þessara fræðigreina má kenna hér heima; það er hægt að leggja grundvöllinn að hverskonar sérmenntun hér, en toppinn verður að sækja til erlendra háskóla, að því er mér virðist. Þó við höfum sérfræðing í einu fagi, þá getur hann ekki veitt kennslu nema í því fagi. Hann getur aðeins starfað á sínu afmarkaða sviði. Ég álít, að einmitt þetta eigi að vera metnaður íslenzkra stúdenta, að eiga kost á sem fullkomnastri undirbúningsfræðslu fyrir sem flestar sérfræðigreinar, en að sækja verði toppinn af menntuninni til útlanda, meðan ekki eru bentugleikar á því að fá hana fullkomna hér á landi. Þess vegna er mér ákaflega illa við að slá því föstu, að gera að prófessorum í hinum nýju fræðigreinum aðra en þá, sem hafa fyllstu sérfræðimenntun í hverju fagi. Ég er sannfærður um, að með því er lagt út á skakka braut, og það hefir ekkert komið fram, sem afsanni þá skoðun mína.