21.12.1935
Sameinað þing: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

137. mál, fjáraukalög 1933

Bergur Jónsson:

Hvort er hv. 9. landsk. svo nærri, að hann megi heyra mál mitt? (Rödd af þingbekkjum: Það er hann). Ég ætla ekki að mótmæla því, sem hv. þm. sagði viðvíkjandi ríkislögreglunni, því ég er honum sammála í því, sem hann sagði um, að ekki hafi verið rétt að verja mörg hundruð þús. kr. til ríkislögreglu. En ég ætla aðeins að minna þennan unga mann, sem kallaður er dilkur minn á Alþingi, á það, að hann átti ekki sem frsm. fjvn. að fara út fyrir verksvið sitt. Verksvið hans var eingöngu það, að leggja með því, að fjáraukalög fyrir árið 1933 yrðu samþ. En hann fór nú dálítið þar út fyrir. Hann tók einn lið úr þeirri hálfu þriðju millj., sem í þessum fjáraukal. eru, og gerði hann að sérstöku umræðuefni. Ég býst ekki við, að það hafi verði samþ. nein fjáraukal. hér á Alþingi, hvorki fyrr né síðar, þar sem ekki væri hægt að taka hvern einasta lið út af fyrir sig og gera að sérstöku umtalsefni og koma með gagnrýni á, því að alltaf getur menn greint á um hluti, og ekki sízt fjárveitingar. Þess vegna ætla ég nú aðeins í þetta skipti að gefa þessum unga manni, sem telur sig jafnvel samþingsmann minn og líklega eftirmann minn, þá litlu áminningu, að hann vari sig á því í framtíðinni að hlaupa þannig á sig. Og þegar honum er falið á hendur eitthvert trúnaðarstarf, hvort sem er framsögumannsstarf í nefnd eða annað, þá fari hann ekki út fyrir það starfssvið, sem honum hefir verið markað. hér var honum falið að mæla með því, að fjáraukal. fyrir 1933 yrðu samþ. En hann fór út fyrir takmörkin að því leyti, að hann tók einn einstakan lið í frv. og gerði hann að sérstöku umtalsefni. Þarna hljóp þessi ungi maður á sig. Þarna fór hann lengra heldur en nokkrum þm. er sæmilegt að fara. Hann gerði sig sekan í trúnaðarsvikum við þá n., sem fól honum að biðja þingið að samþ. fjáraukalögin fyrir árið 1933, og ekkert annað. Hann notaði þetta sem tækifæri til þess að ráðast á einstaka menn, sem að þessum fjáraukalögum stóðu. Þessir menn eru ekki samflokksmenn mínir — sumir fullkomnir flokkslegir andstæðingar mínir —, en samt vildi ég gefa þessum hv. þm., þessum dilk mínum, sem kallaður er, þessa áminningu, að vara sig á því í framtíðinni að hlaupa svona á sig. Ég hefi ekki vitað neinn þm. í minni stuttu þingmannstíð hlaupa svona hrapallega á sig, að nota það, að hann er frsm. fyrir stærstu n. í þinginu, um atriði, sem öll nefndin er sammála um, til þess að ráðast á einstaka þm. Þetta athæfi hv. 9. landsk. er sök í því, að við stöndum nú hér í þingsalnum eftir heils sólarhrings verk. Þessi maður, sem kallaður er hv. 9 landsk., hefir komizt hér inn af þeirri einu ástæðu, að núv. landlæknir afsalaði sér þingsæti til þess að reyna að vinna kjörfylgi í N.-Ísf., en fékk ekki nægilegt atkv.magn til þess að komast að. Þarna skjátlaðist landlækni, sem er ágætur maður og vel viti borinn, og afleiðingin varð sú, að inn á þetta þing komst maður, sem enginn vill helzt viðurkenna, hvorki hans flokksmenn né aðrir. (MJ: Hann er þó undan ykkur báðum ). Já, og þó meira frá Vilmundi, vegna þess að hann fékk á 6. hundrað atkv. í N.-Ísf., en ekki nema á 3. hundrað hjá okkur. Hann er því meira þm. N.-Ísf. heldur en Barð.

Að lokum vil ég geta þess, að ég býst tæplega við, að þessi hv. þm. verði nokkurntíma þm. Barð., þótt hann, eftir framkomu hans hingað til að dæma, eigi sennilega ekki heitari ósk.