15.03.1935
Neðri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (3973)

79. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Hafnf. þóttist ekki hafa tíma til að svara nema tveimur atriðum í minni ræðu, en kvaðst mundu hafa getað svarað miklu fleiru. Það, sem hann fyrst og fremst virtist leggja áherzlu á, var það, að ef þessir menn, sem eiga að starfa við hina tilvonandi atvinnudeild, ættu að kenna stærðfræði og efnafræði o. s. frv., þyrftu þeir að hafa háskólapróf. Nú hefi ég áður bent þessum hv. þm. á það, að það er ekkert, alls ekkert, sem út af fyrir sig útilokar það, að einn eða fleiri af þessum nýju mönnum, sem samkv. frv. má gera ráð fyrir, að starfi við þessa deild, hafi háskólasérmenntun í þessum undirstöðuatriðum, sem hann talar um. Ég fæ ekki séð, hvers vegna hann vill stöðugt berja höfðinu við steininn og segja, að þetta samræmist ekki, - það sé verið að byrja á öfugum enda, þótt með reglugerð eða brtt. við þetta frv. megi koma því svo fyrir, að vissir menn, 2 eða fleiri, sem eiga að starfa við þessa deild, hefðu þá háskólamenntun, sem nauðsynleg væri. Hv. þm. getur ekki sannfært neinn um, að ekki sé hægt að koma þessu fyrir, enda gefur hann þá sjálfum sér laglegan kinnhest með því að vísa til 14. gr. í hans eigin frv., þar sem gert er ráð fyrir því, að þessir 9 menn starfi allir sem kennarar, þegar kennsla á að hefjast við háskólann, án þess að hann hafi komið fram með nokkuð, sem bendi í þá átt, að stofna þurfi 3 prófessorsembætti að auki. Það er hægur vandi að leysa þetta mál á þann hátt, að allir gætu orðið ánægðir, ef sósíalistarnir bara vildu. Og það er einkennilegt, að hv. þm. Hafnf. skuli, jafnframt því að hann lýsir yfir því, að þörf sé á því að koma þessari atvinnudeild á stofn við háskólann, segja í lok sinnar ræðu, að hann sé reiðubúinn að greiða atkv. gegn þessu frv., sem hér liggur fyrir og miðar í þessa átt og er samið í samráði við prófessora Háskóla Íslands. Hann vill drepa frv., þótt hann viðurkenni nauðsynina á stofnun atvinnudeildar, sem frv. fer fram á. Ég teldi nú, að ef hv. þm. Hafnf. og hv. 9. landsk. eru alveg eins vissir um fylgi háskólans við þetta frv. þeirra, vissir um, að með því yrði mælt, en gegn okkar, þá bæri þeim að senda frv. til umsagnar, því að af bréfi rektors verður eigi annað séð en að hann ætlist til þess, að frv. komi enn til háskólans. Hv. þm. Hafnf. sagði - og kom að mínu áliti illa upp um sig þar -, að það væri sama og senda frv. út í opinn dauðann, ef háskólaráðið fengi það aftur. Ég fæ ekki séð, að hægt sé að fá betri yfirlýsingu um vondan málstað og vissu fyrir því, að þetta frv. þeirra sé að innihaldi verra en okkar, ef því er ekki hugað líf af sjálfum flm., fái háskólinn að fjalla um það nú. (EmJ: Þetta er útúrsnúningur. - Fjmrh.: Já, af versta tægi). Hv. þm. Hafnf. sagði þetta. En það er hinsvegar ekki að senda málið út í dauðann, þótt það nái e. t. v. ekki samþykki fyrir 1. apríl næstk. Nei, það er málstaðurinn sjálfur, sem hv. þm. veit, að er dauðvona. Það er rétt, sem hann sagði, að málið er dautt, ef það er sent til háskólans aftur, af því að nú liggur fyrir frv., sem háskólaráðið miklu heldur vill. þegar frv. meiri hl. allshn. var lagt fyrir háskólaráðið, þá lágu engar aðrar till. fyrir í málinu; annaðhvort var að hafna þessu boði eða taka því eins og það lá fyrir. Háskólaráðið vildi heldur frv. n. en fá engin l. um þetta efni, en ef þeir ættu nú kost á að velja, myndi háskólaráðið hafna þeirra frv., en taka okkar, og því er það rétt, sem hv. þm. Hafnf. sagði, - málið er dauðvona, ef það fer þangað. En til frekari áherzlu vil ég benda á það, að þótt frv. nái samþykki fyrir þingfrestun, liggur ekkert fyrir um það, að hin fyrirhugaða bygging verði hafin á næsta sumri. Eða vill hv. þm. skýra mér frá því, hvar og hvenær hafa verið gerðir samningar milli háskólaráðsins og ríkisstj. um það, að bygginguna skyldi byrja á komandi sumri? Ég get bent á það, að í 15. gr. frv. stendur: „Rannsóknarstofnunin tekur til starfa þegar Háskóli Íslands hefir séð henni fyrir húsnæði, enda greiði rannsóknarstofnunin til háskólans helminginn af því fé, sem henni t r samkv. fyrri málsgr. þessarar greinar, upp í byggingarkostnað“. M. ö. o., það er sett sem skilyrði fyrir því, að hún taki til starfa, að háskólinn sjái henni fyrir húsnæði. Nú er það kunnugt, að það er háskólaráðið, sem ræður yfir fé háskólans, og það liggur enginn samningur fyrir um það, að fé háskólans skuli notað til þessa nú í sumar. Því getur þá hv. þm. fullyrt, að byrjað verði á þessari byggingu strax að lögunum samþ.? (EmJ: Hvað hefir hv. þm. fyrir sér í þessu?). Ég veit það frá háskólaráðinu, að engir samningar liggja fyrir. Það getur verið, að skipulagsnefndin hafi „skipulagt“ þetta allt hjá sér, en Rauðka er nú ekki sama og háskólaráðið, sem betur fer.