16.03.1935
Neðri deild: 30. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í C-deild Alþingistíðinda. (3985)

90. mál, sauðfjárbaðanir

Jón Pálmason; Það er dálítið skrítið að heyra hv. flm. þessa frv. segja, að þetta mál sé búið að vera til umr. í landbn., því að þangað hefir það alls ekki komið í þeirri mynd, sem það kemur hér fram, heldur kom það fram í breytingarformi við frv. um útrýming á fjárkláða. Ég verð að líta svo á, að þau breytingarákvæði, sem felast í þessu frv. við lögin um sauðfjárbaðanir frá 1914, séu þannig vaxin, að hæpið sé, hvort þær breyt. séu til bóta eins og sakir standa. Mér skilst, að það, sem aðallega er farið fram á í þessum breyt., sé fyrst og fremst það, að ákveðið er, að sauðfjáreigendur mega ekki nota nema eina tegund lyfja til þrifabaðana, sem ákveðin er af ríkisstj. í samráði við forstöðumann rannsóknarstofnunar háskólans. Mér finnst þetta vera vafasöm ákvörðun, ekki af því, að ég vantreysti hæfileikum forstöðumannsins í þessu efni, og að sjálfsögðu má ætlast til þess af okkur landbnm., að við hlýðum hans fyrirskipunum um útrýming kláðans. heldur af því, að það er öðru máli að gegna um almennar þrifabaðanir. Það atriði vil ég ekki lögbinda að svo stöddu. En aðalbreytingarákvæðið í þessu frv. er þó það, að það er skilyrðislaust lögboðið, að séð verði um, að steypt sundþró verði á hverju heimili í landinu. Það er vitanlega gott að koma þessu á, en eins og nú standa sakir, er ég því algerlega mótfallinn, að þetta atriði verði lögboðið, því að aðstaða ýmsra bænda er svo bágborin, að þeir eiga ómögulegt með að koma ýmsu því í verk, sem ekki er unnt að komast hjá að gera, og geta því ekki unnið önnur verk.

Frá þessum báðum sjónarmiðum séð legg ég eindregið á móti því, að þetta frv. gangi áfram, því að ég tel eins og sakir standa fullnægjandi, að þrifabaðanalögin haldi áfram að vera í gildi eins og þau eru.