16.03.1935
Neðri deild: 30. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (3986)

90. mál, sauðfjárbaðanir

Flm. (Pétur Ottesen):

Mér fannst hv. þm. A.-Húnv. bregðast bogalistin, þegar hann fór að mæla á móti þessu frv. okkar, sem vitanlega er ekki sprottið af því, að hann viti ekki, að l. um sauðfjárbaðanir eru mjög ábótavant og að fullkomin nauðsyn er á endurbótum á þeirri löggjöf án tillits til þess, hvort fram fara svokallaðar útrýmingarbaðanir í landinu eða ekki. Jafnframt því sem sauðfjárbaðanir, þrifabaðanir á sauðfé. eiga að vera til varnaðar útbreiðslu kláðans, eru þær einnig til þess að drepa ýms önnur skorkvikindi, t. d. færilús, sem standa fénaðinum fyrir þrifum, ef þau magnast í honum. Hvað sem líður útrýmingu kláðans, þá er mikils virði fyrir sauðfjárrækt landsmanna, að rækilegar sauðfjárbaðanir fari fram árlega, og þetta er fullkomlega þess vert, að hv. þing geri sem tryggilegastar ráðstafanir til þess að girða fyrir það, að þessi óþrifnaður á fénu verði til þess að valda afurðarýrnun. Þar sem hv. þm. er velunnandi landbúnaðarins og, að því er ég hefi heyrt, ágætur fjármaður sjálfur, þá hlýtur hann að hafa opið auga fyrir því, hve nauðsynlegt er, að þrifabaðanirnar séu vel og samvizkusamlega framkvæmdar.

Nú er það alkunnugt, að eins og lögin eru nú í þessu efni, þá kveða þau mjög óskýrt á um ýms ákvæði þessa máls, svo að það út af fyrir sig gerir það að verkum, að það er mikil þörf endurbóta á þessari löggjöf. Afstaða hv. þm. A.-Húnv. hlýtur því að byggjast á því, að hann álíti, að þetta frv. okkar geti orðið keppinautur frv. þess, sem hann hefir borið fram um útrýmingu fjárkláðans. Hann hefir borið hærra hlut í þessu efni hér í hv. d., svo að það er óþarft fyrir hann af þeirri sök að sporna á móti því, að gerðar verði nauðsynlegar og sjálfsagðar ráðstafanir til þess að tryggja eftirlit með þrifaböðunum, sem að sjálfsögðu verða að fara fram árlega á landinu. Vil ég því vona, að hv. þm. láti ekki þann skoðanamun, sem hér hefir komið fram um það, hvaða leið væri líklegust til að halda kláðanum niðri, verða þránd í götu nauðsynlegra öryggisráðstafana í þessu efni. Viðvíkjandi þeim tveim röksemdum, sem hv. þm. færði fram á móti frv. þessu, vil ég taka það fram, að ef hv. þm. telur nauðsynlegt, að forstöðumaður rannsóknarstofnunar háskólans sé hafður í ráðum með, hvaða baðlyf bezt sé að nota til kláðaútrýmingarinnar, þá er ekkert á móti því, að hann sé í ráðum með, hvaða baðlyf skuli notuð við þrifabaðanirnar, því að hans afskipti í þessu máli eiga vitanlega að vera til frekara öryggis. Mér skilst, að nauðsynlegt sé að njóta einnig hans sérþekkingar í sambandi við þessar þrifabaðanir. Ég tel enga hættu á því, að hann fari að beita einhverjum einstrengingsskap í þessu efni, þannig að hafa einungis eina tegund baðlyfja, ef hann álítur fleiri tegundir jafngóðar. Þess vegna er þessi ástæða móti frv. alveg út í loftið og einskis virði.

Seinni röksemd hv. þm. gegn þessu frv. var sú, að hann taldi það ákvæði frv. óheppilegt, sem gerði ráð fyrir baðþróm til þrifabaðananna á hverju heimili. Nú vill svo til, að hér er hann að hnjóða í sitt eigið fóstur, því að þetta stendur alls ekki í okkar frv., heldur í hans eigin frv.

Í okkar frv. er aðeins gert ráð fyrir, að komið verði upp nógu mörgum sundþróm - því að upp úr öðru þýðir ekki að baða -, þannig að hægt yrði að framkvæma böðunina að skaðlausu með því að reka féð saman til böðunarinnar. Á þann hátt er hægt að draga úr kostnaði við að byggja þró á hverju heimili á landinu. Vitanlega verður að sjá fyrir því, að nægilega margar sundþrær séu til í hverjum hreppi. Lengra er ekki gengið í þessu frv.

Í þessu sambandi má geta þess, að í Borgarfirði t. d. eru a. m. k. það margar sundþrær í hverjum hreppi, að það er engum vandkvæðum bundið að baða hverja kind upp úr sundþró. Sundþrær eru nú komnar í hverjum hreppi á landinu, svo að þetta er engum vandkvæðum bundið. Yfirleitt dettur nú engum í hug að baða sauðfé öðruvísi en í sundþró. Fyrst og fremst af því, að það veitir miklu meira öryggi um not af böðuninni, og auk þess er að því mikill sparnaður, af því að baðið notast betur og fer síður til spillis. Þær ástæður, sem hv. þm. færði á móti þessu frv., eru því bókstaflega einskis virði. Ég vona, að það sé ekkert annað en bráðlyndi, sem hefir hlaupið með þennan hv. þm. út í þær fáránlegu öfgar og gönur, að bann berst á móti þeim sjálfsögðu ráðstöfunum, er tryggja það, að fram fari árlega fullkomnar þrifabaðanir á sauðfé í landinu, því að það er ómögulegt að neita því, að eins og lögin um þrifabaðanir eru nú, þá eru þau afarófullnægjandi og óákveðin. Hér er því fullkomin þörf á endurbótum. - Út af því, sem hv. þm. sagði, að þetta mál hefði ekki legið fyrir landbn., vil ég taka það fram, að það hefir ekki verið breytt í því einum staf eða kommu frá því að n. hafði það til athugunar.

Ég hygg, að þetta frv. hafi áður vakið svo mikinn óróa í hugum sumra hv. landbnm., að það sé ekki vert að ónáða n. með því aftur. Annars skal ég ekki leggja verulegt kapp á það, hvort frv. fer til n. eða ekki; en ef landbn. sækist eftir frv. í þeim tilgangi að drepa það með þeim hætti að setjast á það, eins og mér virtist koma fram hjá hv. þm. A.-Húnv., þá vil ég mótmæla því harðlega, að nefndinni sé gefinn kostur á að beita svo óþinglegri aðferð. En ég ætla ekki að væna hina nm. um það að óreyndu. Og ef frv. fer til n., þá vænti ég, að hugur hv. þm. A.-Húnv. til þess fái að lúta þar í lægra haldi, því að í þessu máli verður að tryggja fullkomið öryggi í landinn fyrir því, að þrifabaðanir á sauðfé verði framkvæmdar á tryggilegan hátt.