21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í C-deild Alþingistíðinda. (4002)

96. mál, Líftryggingastofnun ríkisins

Frsm. (Héðinn Valdimarsson) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki mörgu að svara hv. þm. Snæf. Ég held, að ekkert yrði vafasamara um tekjur fyrir líftryggingarstarfið, þótt það væri rekið af ríkinu en þó að núv. fyrirkomulag héldist. Enda á félögum hvenær sem er að vera heimilt að draga sig út úr, ef þau telja líklegt, að gróði verði að.

Eftir frv. er ekki gert ráð fyrir, að hið opinbera fái verulegar tekjur af þessu starfi, frekar en þótt fyrirtækið væri einstaklingseign. En þær tekjur, sem fást, eiga að ganga til þess að gera tryggingarnar hagkvæmari fyrir tryggjendur. Ég get ekki séð, að þetta muni draga úr tryggingunum, fremur en þótt einstaklingar hefðu þær með höndum.

Þá taldi hv. þm. Snæf. þetta mál ótímabært af þeirri ástæðu, að einn íslenzkur sjóður væri farinn að taka að sér líftryggingar. En það er engin vissa fyrir því, að þetta félag sé fært um að taka þetta starf að sér, ef gerðar verða sömu kröfur til þess og erlendra félaga. Sjóvátryggingarfélagið hefir ekki safnað sér neinu nýju tryggingafé, þótt það hafi tekið þetta að sér. Auk þess er það vitanlegt, að meðan félögin eru mörg, sem hafa leyfi til að starfa, þá nær Sjóvátryggingarfélagið ekki nema til fárra.

Þeir, sem eru sérfróðir um þessi mál, álíta, að landið sé svo lítið og að hér sé svo fólksfátt, að eitt félag geti sem bezt annazt allar tryggingar landsmanna.

Þó að það muni vera rétt, að stofnanir eins og sú, sem hér er farið fram á, séu fátíðar í heiminum, þá er ekkert við því að segja, því að einhversstaðar byrjar allt. Og fyrir okkur er mest ástæðan til að byrja á þessu, þar sem landið er svo lítið. Það er mikils virði, ef hægt er að halda tryggingafénu í landinu. Þó að hv. þm. segði, að Thule hafi ekki flutt út nema 200 þús. kr., þá veit ég ekki, hvort það er rétt. Verkamannabústöðunum lánaði félagið 100 þús. kr., sem er ekki nema lítill hluti af því fé, er það hefir haft undir höndum. En meðan yfirfærslur voru frjálsar, fluttu þessi félög mikið fé út úr landinu.