21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (4003)

96. mál, Líftryggingastofnun ríkisins

Thor Thors [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Reykv. taldi, að áhætta af rekstri svona fyrirtækis myndi verða næsta lítil. Það er ekki á okkar færi að segja um það. Slíkt fer eftir starfrækslu fyrirtækisins og því, hvernig fer um þá tryggðu. Margt af tryggingum erlendra félaga hér á landi hefir reynzt áhættumikið, þannig að ágóði hefir enginn orðið. En flest þau félög, sem tryggingar hafa rekið hér, eru auðug, standa á gömlum merg og eiga mikið í varasjóði. Hjá flestum þessum félögum er ágóðanum svo varið, að hann gengur að langmestu leyti til hinna tryggðu. Er þar um að ræða einskonar samvinnufélagsskap, sem samanstendur af þeim, sem leggja fram féð til trygginganna, og þeim, sem tryggðir eru, og hafa báðir hagnað af, ef vel gengur.

Um Sjóvátryggingarfélagið er það að segja, að þótt það geti ekki að fjármagni jafnazt við erlend félög, þá hefir það samt mjög góð sambönd erlendis. Tryggingar þess fara stöðugt vaxandi, en það hefir hinsvegar endurtryggt sig hjá efnuðum félögum erlendis. Annars mun ég fara nánar út í málið við síðari umr.