26.03.1935
Neðri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í C-deild Alþingistíðinda. (4010)

97. mál, opinber ákærandi

Bergur Jónsson [óyfirl.]:

Ég ætla að fara að dæmi hv. flm. og fara ekki út í einstök atriði frv., enda var það rætt allmikið í vetur. Það voru aðeins ásakanir hv. flm. í garð okkar í meiri hl. allshn. fyrir þá rökst. dagskrá, sem við fluttum í þessu máli í vetur, sem ég vildi minnast á. Ég get ekki séð, að þær ástæður, sem þá voru fyrir hendi, hafi nokkurn hlut breytzt síðan. Síðan hefir alls ekki verið tekið til rannsóknar hið opinbera réttarfar í landinu. En hinn opinberi ákærandi stendur vitanlega í beinu sambandi við þá endurskoðun, sem fara á fram á löggjöfinni um hið opinbera réttarfar. Það getur varla verið meining hv. flm., að opinber ákærandi geti staðið í sambandi við nokkuð unnað í réttarfarsmálunum heldur en rekstur opinberra mála. Þess vegna liggja fyrir alveg sömu rök gegn samþykkt þessa frv. nú eins og í vetur. Það er meiningarlaust að stofna nýtt embætti með ákveðnu starfssviði fyrir mann, sem eingöngu á að skipta sér af opinberum málum, áður en búið er að gera þá rannsókn, sem búið er að skipa nefnd til að framkvæma. Ég vil ekkert segja um nauðsyn þessa nýja embættis út af fyrir sig, eða hvort lögfræðinganefndin mun ganga að frv. og telja það falla vel inn í þær skorður, sem ég vona, að okkur auðnist að setja réttarfarsmálin í, eða ekki. Heldur vil ég aðeins benda á, að það er engin ástæða til að taka þetta mál til samþ. nú fremur en á síðasta þingi.

Hv. flm. minntist á það, að við hefðum borið fram frv. um breyt. á hæstarétti. Hv. þm. veit vel, að þær breyt., sem felast í frv. til l. um hæstarétt, koma á engan hátt nálægt þessu máli. Ég býst ekki við, að breyta þyrfti hæstaréttarlögunum eins og gengið er frá þeim í frv., enda þótt tekinn væri upp opinber ákærandi síðar. Svo það stendur við það, sem legið hefir í orðum mínum áður, að þessi opinberi ákærandi getur ekki átt samleið með neinu öðru en þeim till., sem lögfræðinganefndinni væntanlega auðnast að koma fram með á sínum tíma um opinber mál og meðferð þeirra. Það getur t. d. talsvert breytt afstöðu málsins, hvort menn vilja taka hér upp kviðdóma eða hvort menn vilja halda við það, sem hingað til hefir verið, að láta lögfræðinga eingöngu dæma í málum manna. Það eru mörg atriði í meðferð hinna opinberu mála, sem hafa áhrif á það, hvort réttara er að hafa sérstakan opinberan ákæranda eða láta ákæruvaldið vera hjá hinum venjulega yfirmanni allrar réttarfarslegrar starfsemi í landinu, dómsmrh. Ég sé því ekki, hver er hin raunverulega meining hv. þm., að vera að bera þetta frv. fram nú. Hann veit, að aðstaðan er nákvæmlega hin sama og í vetur. Það var meining okkar nm. og ósk hins háa Alþingis, að eitthvað verulegt gæti komið fyrir það þing, er nú situr, frá lögfræðinganefndinni. Þetta tókst ekki nema hvað snertir breyt. á hæstarétti, og er það afleiðing af því, að ekki var hægt að fá samkomulag um það á síðasta þingi að kalla þetta þing ekki saman fyrr en síðar á árinu, svo að okkur vannst ekki tími til að gera þær rannsóknir, sem við vildum gera. Í þessu liggur andstaða mín gegn því frv., sem fyrir liggur, og engu öðru. Frá minni hálfu er engan fjandskap að finna gegn ósk hv. flm. um opinberan ákæranda, en ég álít ótímabært að stofna slíkt embætti nú og þurfa svo e. t. v. að breyta til bráðlega aftur og gera allt aðra skipun á í þessu efni í sambandi við hið opinbera réttarfar.