26.03.1935
Neðri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (4011)

97. mál, opinber ákærandi

Flm. (Gunnar Thoroddsen) [óyfirl.]:

Hv. þm. Barð. heldur því fram, að hann hafi í sjálfu sér ekkert á móti þessu frv. Það eina, sem hann færir fram fyrir því, að ekki sé rétt að afgr. það nú, er þetta, að hin virðulega lögfræðinganefnd sé ekki búin að athuga þetta mál og ekki megi gera neitt í því fyrr en henni hafi gefizt kostur á að segja sitt álit. Ég skal strax taka það fram, að ég tel víst, að þessi n. muni ekki skila áliti fyrir það þing, sem haldið verður í haust. Mér skilst það bæði á hv. þm. Barð. og fleirum, að þessi n. hafi í hyggju að sigla til útlanda í vor eða sumar til þess að kynna sér réttarfarsmál í öðrum löndum. Hvort sem því yrði nú lokið þegar þing kemur saman eða ekki, þá tekur einnig tíma að vinna úr þeim upplýsingum, sem n. aflar sér, og semja frv. Það er því útilokað, að endurskoðun réttarfarsmálanna í heild geti náð afgreiðslu á þessu ári. Og ef dæma á eftir reynslu annara þjóða, þegar þær hafa ætlað að gera stórbreyt. á réttarfarinu hjá sér, þá eru litlar líkur til, að ný réttarfarslöggjöf nái fram að ganga í náinni framtíð, jafnvel þó frv. verði lögð fyrir þingið áður en langt líður, því slíkt mál sem heildarskipun réttarfarsmálanna þarf ætíð langrar og rækilegrar athugunar við og verður ekki samþ. í einni svipan.

Þetta er því engin röksemd á móti frv. Þetta mál er mjög einfalt, þó hv. þm. Barð. gefi í skyn, að hann sé ekki búinn að átta sig á því ennþá. Ég veit, að það er ekki rétt. Honum er fullkomlega ljóst, hvað farið er fram á og hvað rétt er í þessu máli. Breytingin, sem hér er farið fram á, er engin önnur en sú, að starf, sem dómsmálarh. hefir nú með höndum, ákvarðanir um opinberar málshöfðanir, skuli falið sérstökum embættismanni. Þetta er svo einföld breyt., að það virðist ekki þurfa að beita sérstaklega miklum gáfum til þess að skilja hana til fullnustu og fallast á hana. Fáir munu vilja bera á móti því, að það sé mjög háskalegt - enda er það mjög fátítt erlendis -, að ákæruvaldið sé í höndum pólitísks ráðh., sem getur beitt því til ofsóknar andstæðingunum og yfirhilmunar með samherjum sínum. Sérstaklega er það hættulegt í landi, þar sem hinar pólitísku erjur eru jafnsvæsnar og persónulegar eins og þær eru hér.

Hv. þm. vildi mótmæla því, að hann og hv. 1. landsk. hafi viðurkennt, að röksemd þeirra fyrir frávísun málsins á síðasta þingi væri röng, með því að flytja sjálfir frv. um breyt. á hæstarétti. Ég man ekki betur en að aðalröksemd og jafnvel eina röksemd hv. 1. landsk. og hæstv. dómsmrh. væri sú, að ekki mætti taka eitt einstakt atriði réttarfarslöggjafarinnar út úr fyrr en heildarendurskoðun færi fram. En nú bera þessir sömu menn fram frv. um breyt. á einstöku atriði réttarfarslöggjafarinnar, einmitt því atriði, sem einna sízt var þörf á að breyta. Ég veit, að þessir hv. þm. viðurkenna, að skipun hæstaréttar og meðferð mála þar er meira í samræmi við kröfur nútímans heldur en meðferð mála í undirrétti. Og ef umbótahugur hv. þm. væri mjög ríkur, þá myndu þeir fyrst hafa lagt til að bæta þar úr, sem þörfin er mest.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta. Það er auðvitað rétt að athuga málið ýtarlega í n. En mér finnst þau rök mín standa í fullu gildi ennþá eftir ræðu hv. þm. Barð., að fyrst hv. þm. Barð. og hv. 1. landsk. hafa sjálfir lagt til, að tekið væri eitt atriði út úr réttarfarslöggjöfinni til breyt., hæstiréttur, þá séu niður fallnar ástæður þeirrar fyrir því, að ekki megi taka þetta atriði - opinberan ákæranda - einnig til afgreiðslu.