26.03.1935
Neðri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í C-deild Alþingistíðinda. (4016)

97. mál, opinber ákærandi

Flm. (Gunnar Thoroddsen) [óyfirl.]:

Hv. þm. Barð. viðurkenndi eina aðalástæðuna fyrir frv., þá, að ákæruvaldinu hefði verið misbeitt, og nefndi í því sambandi eitt mál, „kollumálið“, og mundi mega bæta þar við fleiri málum, og sumum, sem tækju honum nær. En með þessari viðurkenningu á hann líka að viðurkenna réttmæti þess, að ákæruvaldið sé tekið úr höndum ráðh. Því ráðherrar eru fulltrúar pólitískra flokka og þar af leiðandi mjög flæktir í hinar pólitísku deilur á hverjum tíma. En opinber ákærandi á að standa utan við pólitískar deilur og utan flokka og vera óbundinn af öðrum störfum. Hann sagði, að hæstaréttarmálaflm. væru sérstaklega pólitískir, en ég get ekki séð, að það komi þessu máli nokkuð við, þótt sá, sem skipaður væri opinber ákærandi, yrði að uppfylla sömu skilyrði, þar sem það svo er tekið fram, að hann eigi að standa utan við pólitískar deilur.