30.03.1935
Neðri deild: 41. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í C-deild Alþingistíðinda. (4040)

99. mál, rekstrarlánafélög

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Það er hið sama að segja um þetta frv. og hitt, sem var hér næst á undan á dagskrá (frv. um fiskveiðasjóð), að frv. shlj. því var einnig flutt á síðasta þingi af sömu flm., en ekki útrætt þá. Var frv. samið af mþn. í sjávarútvegsmálum, og eftir nokkra athugun hjá hæstv. atvmrh. var það sent af honum til sjútvn. Nd. með beiðni um, að n. tæki það til flutnings. En meiri hl. sjútvn. taldi sig ekki við því búinn og ekki hafa tekið afstöðu til málsins. Þess vegna fluttum við minnihl.menn í sjútvn. það einir, og endurflytjum við það enn á þessu þingi og teljum líklegt, að hv. meiri hl. n. sé nú búinn að átta sig á því, hvort hann muni geta gengið með því, þó að svo væri ekki á síðasta þingi.

Þetta er að vísu ekki stórt mál, en þó er geysimikil nauðsyn á því, að útvegsmenn í verstöðvum landsins geti stofnað hjá sér skipulegan félagsskap til útvegunar á rekstrarfé til þess að halda úti fiskibátum, og ekki síður til þess að gera sameiginleg innkaup á vörum til þessa atvinnurekstrar - olíu, salti o. fl. það brestur víðast hvar mjög á samtök um þetta. En síðan söluvandræðin fóru að aukast á sjávarafurðum nú síðustu missirin, þá hafa útvegsmenn nokkuð byrjað á sameiginlegum innkaupum á þessum nauðsynjavörum. Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er skapaður rammi utan um skipulagsbundinn félagsskap á þessu sviði. verði frv. að lögum, og ef útvegsmenn nota sér þau fríðindi, sem það veitir þeim, þá gætu það orðið mjög styrkar stoðir undir efnahag útvegsins, og þó einkum til þess að bæta útkomuna á rekstri útgerðarinnar. Þetta er að vísu einkum miðað við bátaútveginn, en síður stórskipaútgerðina. Hin smærri útgerð í verstöðvum víðsvegar um land þarf mjög á rekstrarfé að halda, til innkaupa á salti, olíu o. fl. vörum, og skiptir afarmiklu máli, að þær geti fengizt með sem beztum körum og vægustu verði.

Hvað rekstrarafkomu þessa atvinnuvegar snertir, er óhætt að segja, að þar sé mjög þröngt fyrir dyrum. Og með þeirri tregðu, sem nú er á sölu afurðanna, er mjög erfitt úr því að bæta, ef ekki er af hálfu löggjafarvaldsins séð fyrir fullkominni aðstoð til þess, að hægt sé að vega á móti þeim örðugleikum, sem nú eru á rekstri þessa atvinnuvegar. Um frekari ástæður fyrir þessu frv. ætla ég ekki að fjölyrða; það var greinilega rökstutt í nál. mþn. og grg. þeirri, sem fylgdi frv. á síðasta þingi, og vísast að öllu leyti til þeirra ástæðna, sem þar eru taldar. Því að, ef nokkuð væri, þá hafa þær aðeins breytzt í þá átt síðan, að þörfin hefir aukizt og er nú meiri en nokkru sinni áður fyrir þetta frv.

Ég mælist til, að frv. verði vísað til hv. sjútvn.